Toppslagur Firouzja hinn landlausi teflir undir fána FIDE í Stafangri.
Toppslagur Firouzja hinn landlausi teflir undir fána FIDE í Stafangri. — Morgunblaðið/Heimasíða Altib
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þar féll Noregur. Í fimmtu umferð Altibox-mótsins í Stafangri í Noregi tapaði Magnús Carlsen fyrir Pólverjanum Jan-Krzystof Duda en fyrir þá skák hafði Norðmaðurinn teflt 125 kappskákir í röð án þess að tapa. Met sem seint verður slegið.

Þar féll Noregur. Í fimmtu umferð Altibox-mótsins í Stafangri í Noregi tapaði Magnús Carlsen fyrir Pólverjanum Jan-Krzystof Duda en fyrir þá skák hafði Norðmaðurinn teflt 125 kappskákir í röð án þess að tapa. Met sem seint verður slegið. Þegar horft er til þess að nær allar þessar skákir voru tefldar við bestu skákmenn heims þá er þetta auðvitað magnað afrek. Fyrra metið átti rússneski stórmeistarinn Tiviakov sem árið 2005 hafði teflt 110 kappskákir án taps þegar sá ferill var rofinn. En mótstaðan var dálítið önnur í hans tilviki. Kínverjinn Liren Ding tefldi 100 skákir án taps fyrir nokkrum misserum. Mikhael Tal átti þessi met á síðustu öld, 84 skákir án taps, 1972-'73 – og ári síðar 95 skákir án taps.

Altibox-mótið 2020; 5. umferð:

Jan-Krzystof Duda – Magnús Carlsen

Svartur hafði látið skiptamun af hendi fyrir óljósar bætur. Í þessari stöðu kom stóri afleikurinn. Svartur gat haldið jafnvægi með 21.... Rg4 en af einhverjum ástæðum valdi hann 21.... h4? Pólverjinn svaraði með 22. h3! og þegar fram í sótti sagði liðsmunurinn til sín. Skákinni lauk eftir 63 leiki.

Magnús tapaði fyrir Aseranum Mamedyarov á skákmótinu í Biel á miðju sumri 2018 og þá hófst þetta taplausa tímabil; 44 sigrar og 81 jafntefli. Það er athyglisvert að Magnús hefur helst komist í taphættu gegn skákmönnum sem standa utan hóps helstu „viðskiptavina“.

Þar sem mótið í Noregi fer fram eftir óvenjulegu fyrirkomulagi mættust Magnús og Duda aftur í næstu umferð og Magnús vann í aðeins 26 leikjum. Hann vann síðan heillum horfinn landa sinn, Tari Aryan, í 8. umferð og náði forystu. Mikið var undir í toppslag níundu umferðar er Magnús mætti „heitasta“ skákmanni heims, hinum landlausa Alireza Firouzja.

Niðurlag þessarar skákar sýnir að Firouzja á enn margt ólært. Eftir byrjunina var staðan nánast samhverfa og í algeru jafnvægi og hefðu margir slíðrað sverðin en Magnús unir sér vel í slíkum stöðum. Smátt og smátt náði hann örlítið betra tafli, vann peð, en það virtist ekki ætla að duga. Upp kom peðsendatafl en Firouzja virtist alveg kunnugur leyndardómum hins fjarlæga andspænis:

Altibox-mótið í Noregi 2020, 9. umferð:

Alireza Firouzja – Magnús Carlsen

Fjarlægu andspæni er náð með 69. Kd2! Það má nota önnur hugtök yfir þetta lykilatriði og eitt sem kemur upp í hugann var skáksnillingi Persa, As-Suli, sem uppi var fyrir meira en þúsund árum, vel kunnugt eins og rakið var í grein hér í blaðinu fyrir nokkrum árum og snýst um að þegar reitirnir „kallast á“ er hægt að ná jafntefli. Atburðarásin gæti orðið 69.... Kc5 70. Kc3 Kc6 71. Kc2 Kb7 72. Kb3 Kb6 73. Kb4 Kc7 74. Kc3 Kd6 75. Kd2 Kc6 76. Kc2 o.s.frv.

Þess í stað lék Firouzja 69. Kc3 og eftir 69.... Kc5 hafði svartur náð andspæni og eftirleikurinn auðveldur enda gafst hvítur upp.

Með þessu tryggði Magnús sér sigur í mótinu. Varðandi stöðuna fyrir lokaumferðina ber að geta þess að jafntefli í kappskák kallar á bráðabanaskák sem gefur ½ vinning til viðbótar við þann eina vinning sem þegar var kominn í hús. Þrjú stig voru gefin fyrir sigur í kappskák:

1. Magnús Carlsen 19½ v . 2. Firouzja 15½ v. 3. Aronjan 14½ v. 4. Caruana 14 v. 5. Duda 9½ v. 7. Tari 2½ v.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is