Teitur Gissurarson
Teitur Gissurarson
Eftir Teit Gissurarson: "... virðist viðkvæðið vera að „ný stjórnarskrá“ sé það sem muni breyta öllu á svipstundu."

Um netheima fer nú eins og fíll í postulínsbúð hreyfing sem kennir sig við hina „nýju stjórnarskrá“. Fáir sem búa yfir þeim munaði að hafa stuttbylgju- eða nettengingu hafa farið varhluta af tilvist hreyfingarinnar, enda hafa margir helstu listamenn og áhrifavaldar séð um að valda sem mestum áhrifum með hispurslausum og ákveðnum skilaboðum um að „ný stjórnarskrá“ sé það eina sem þjóðin þarf á að halda. Þetta er í sjálfu sér gott og gilt enda göfugt að berjast fyrir bættu þjóðfélagi og skal taka ofan fyrir þeim sem hætta sér út í þann leðjuslag sem einkennir pólitíska (popúlíska) umræðu þessi dægrin. Mig hefur þó ítrekað rekið í rogastans við áheyrn áróðurs hreyfingarinnar, horft forviða í gaupnir mér og spurt: Af hverju þarf þó endilega heila nýja stjórnarskrá?

Eins og hendi sé veifað

Það sem helst hefur truflað mig er hvernig áheyrandinn er ítrekað skilinn eftir í lausu lofti og gert að tengja saman punkta, án þess að minnst sé á hvernig nákvæmlega eigi að komast á áfangastað. Sem dæmi hefur hreyfingin sett mikinn þunga á að taka auðlindir og auðlindaákvæði fyrir. Skilaboðin eru svo til á þessa leið: „Vissir þú að til er fullt af fólki sem græðir á fiskinum þínum?... við þurfum „nýju stjórnarskrána“.“ Sneitt er hjá því að útskýra hvernig peningarnir eiga svo að enda í vasanum hjá áheyrandanum, en lagt upp fyrir hann að álykta sem svo að skrifi hann undir heila stjórnarskrá þá muni þetta allt breytast eins og hendi sé veifað.

Á svipaðan hátt eru sett fram skilaboð á borð við að „nýja stjórnarskráin“ mæli fyrir um dýravernd og að gildandi stjórnarskrá segi „ekki eitt orð um náttúruvernd“. Lagt er upp fyrir áheyrandann að hugsa með sér hvurslags gapuxar við Íslendingar hljótum að vera að mæla ekki fyrir um málið í stjórnarskrá en sneitt hjá því að nefna að í gildi séu sérstakir heilir lagabálkar um bæði viðfangsefni, lög nr. 55/2013 um velferð dýra og lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá tekur hreyfingin sömuleiðis sérstaklega fram að í gildandi stjórnarskrá sé hvergi mælt fyrir um ábyrgð þeirra sem spilla náttúrunni, en haldið fyrir utan að slíkt geti þó samkvæmt gildandi rétti sætt fangelsisrefsingu, t.d. á grundvelli laga um náttúruvernd og almennra hegningarlaga.

Unnt að breyta og bæta

Í öllu falli virðist viðkvæðið vera að „ný stjórnarskrá“ sé það sem muni breyta öllu á svipstundu. Ofuráhersla virðist miklu frekar vera á hina „nýju stjórnarskrá“ en efnislegar breytingar og haldið fyrir utan jöfnuna að hægt sé að breyta og bæta gildandi stjórnarskrá. Hvergi er barist fyrir að einstök atriði, t.d. auðlindaákvæði eða ákvæði sem skýra inntak forsetavaldsins, verði tekin upp í gildandi stjórnarskrá og enn síður að efnisatriði séu tekin fyrir í almennum lögum, eins og ætti í mörgum tilfellum miklu betur við. Ný stjórnarskrá, hundrað og fjórtán ný ákvæði, er eina leiðin og því verður ekki haggað.

Það skal tekið fram að ég er hvorki andvígur stjórnarskrárbreytingum né hugmynd um nýja stjórnarskrá. Ég tel þó réttast að stíga varlega til jarðar þegar talið berst að því að leiða í lög heila „nýja stjórnarskrá“, sem er í mörgum tilvikum einungis gildandi stjórnarskrá endurorðuð, og skapa þar með hættu á að kollvarpa viðurkenndri dómaframkvæmd og varpa fyrir róða þekktri túlkun stjórnarskrárinnar.

Höfundur er meistaranemi í lögfræði og laganemi hjá LEX.

Höf.: Teit Gissurarson