Sigurvegari Aðalheiður Einarsdóttir er ánægð með árangurinn.
Sigurvegari Aðalheiður Einarsdóttir er ánægð með árangurinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Lið Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hlíðar á Akureyri varð í þriðja sæti á eftir liðum frá Noregi og Kanada í alþjóðlegri hjólakeppni aldraðra, sem fram fór á dögunum með þátttöku um 120 liða. Liðsmenn Hlíðar hjóluðu samtals 9.063 km og þar af hjólaði Aðalheiður Einarsdóttir 832 km, lengst Íslendinga í keppninni. „Ég varð í 6. sæti kvenna á heimsvísu og þetta var ekki sérstaklega erfitt, ég hjólaði um tvo tíma á dag í 20 daga,“ segir hjólreiðakappinn, sem er 96 ára.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lið Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hlíðar á Akureyri varð í þriðja sæti á eftir liðum frá Noregi og Kanada í alþjóðlegri hjólakeppni aldraðra, sem fram fór á dögunum með þátttöku um 120 liða. Liðsmenn Hlíðar hjóluðu samtals 9.063 km og þar af hjólaði Aðalheiður Einarsdóttir 832 km, lengst Íslendinga í keppninni. „Ég varð í 6. sæti kvenna á heimsvísu og þetta var ekki sérstaklega erfitt, ég hjólaði um tvo tíma á dag í 20 daga,“ segir hjólreiðakappinn, sem er 96 ára.

„Ég er sæmilega hress miðað við aldur,“ heldur Aðalheiður áfram og segist ekki hafa stundað hefðbundna líkamsrækt, heldur „verið þrælandi kerling“. Hún fæddist og ólst upp á Djúpalæk í Bakkafirði, bjó lengi á Þórshöfn og hefur í 42 ár átt heima á Akureyri, þar sem hún vann lengi hjá KEA. Eiginmaður hennar, Tryggvi Sigurðsson frá Skálum á Langanesi, dó 1992. Þau eignuðust þrjú börn.

Rifjar upp ferðalög

Ásta Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfari hefur skipulagt þátttöku Hlíðar í keppninni, sem fór nú fram í fjórða sinn, en Hlíð var ekki með fyrsta árið. Keppendur hjóla á sérstökum kyrrstæðum hjólum og á sama tíma má fylgjast með myndum á sjónvarpsskjám og ímynda sér að verið sé að hjóla í landslaginu sem líður hjá á skjánum. „Ég hef lengi verið í sjúkraþjálfun hjá Ástu og meðal annars í þessum hjólreiðum,“ segir Aðalheiður, sem er sjóndöpur og segist því ekki hafa horft mikið á skjáinn. „Ég hef ferðast mikið um Evópu og þegar ég leit upp kannaðist ég oft við staðina. Þetta rifjaði því upp gamlar ferðir, mikil ósköp, og það er gaman að hjóla um kunnug svæði í þykjustunni.“

Áður en sjónin gaf sig var Aðalheiður mjög virk og saknar þess. „Mig vantar svo eitthvað til að gera,“ segir hún. „Það er svo hræðilegt að missa sjónina, ég sé bara allt í móðu. Ég var mikið í handavinnu, las mikið, var sjúklega óð í krossgátur, málaði og spilaði mikið og hafði alltaf nóg að gera eftir að ég hætti að vinna. Ég er ákveðin í því að vera aftur með í keppninni næsta haust og stefni þá á 1.000 kílómetra, ef ég verð ekki búin að leggja upp laupana.“ Segist samt ekkert vera á förum og þess sé vandlega gætt að íbúar á Hlíð fái ekki kórónuveiruna. „Þetta er eins og að vera í fangelsi, við megum ekki einu sinni fara á milli hæða. Svo vel er passað upp á okkur gamlingjana, en þetta er ósköp einmanalegt og ekki spennandi.“

Aðalheiður heldur samt geðheilsunni og þakkar það Ástu Sóllilju. „Ég hef átt hana í mörg ár og hún er afskaplega yndislegur köttur. Það er feikilegur munur að hafa hana hjá sér. Hún er mjög hænd að mér en gengur inn og út um gluggann ef henni sýnist svo. Við dólum hérna í herberginu allan daginn og svo förum við út að ganga á hverjum degi. Það er mikils virði að geta verið úti og gengið.“

Árangur Aðalheiðar á hjólinu hefur vakið athygli, m.a. hefur verið sagt frá honum á N4 og í Fréttablaðinu, og hún segir að börnin sín og barnabörn séu alveg bit. „Þau líta á mig sem undraskepnu og einn langömmustrákurinn segir að ég hljóti að vera gerð úr öðru efni en aðrir!“