Torg Útgáfufélag Fréttablaðsins er gagnrýnt fyrir gjaldfæringu tekna 2019.
Torg Útgáfufélag Fréttablaðsins er gagnrýnt fyrir gjaldfæringu tekna 2019. — Morgunblaðið/Ómar
Sighvatur Bjarnason sighvaturb@mbl.is Fjölmiðlafélagið Torg ehf., sem meðal annars gefur út Fréttablaðið, bókfærði 50 milljónir í tekjur fyrir árið 2019 í ársreikningi þess árs vegna væntinga um ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla.

Sighvatur Bjarnason

sighvaturb@mbl.is

Fjölmiðlafélagið Torg ehf., sem meðal annars gefur út Fréttablaðið, bókfærði 50 milljónir í tekjur fyrir árið 2019 í ársreikningi þess árs vegna væntinga um ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla. Sérfræðingur í endurskoðun sem Morgunblaðið ræddi við segir hæpið að færa tekjur með þessum hætti í ljósi þess hversu mikil óvissa hafi verið og sé enn um formfastan ríkisstuðning við rekstur einkarekinna fjölmiðla.

Gjaldfærðar væntingar

Í rekstrarreikningi félagins fyrir árið 2019 eru bókfærðar 50 milljónir í rekstrartekur undir liðnum „aðrar tekjur“. Í skýringum með ársreikningi segir: „Ríkiss[t]jórn Íslansds [sic] fyrirhugar að greiða styrki til einkarekinna fjölmiðla vegna rekstrarársins 2019. Menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þess efnis sem liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu. Áætlaðar tekjur félagsins vegna þess eru 50 milljónir króna.“

Lagabreyting ekki átt sér stað

Forsaga málsisn er sú að í upphafi árs 2019 boðaði menntamálaráðherra drög að frumvarpi um breytingar á lögum um fjölmiðla, sem m.a. fólu í sér að komið yrði á fót nýju stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi sem yrði í formi endurgreiðslu á allt að 25% ritsjórnarkostnaðar. Nú, tæpum tveimur árum síðar, hafa lagabreytingarnar ekki náð fram að ganga og óvíst um framtíð frumvarpsins sem þykir býsna umdeilt og ekki fyrirséð um framtíð þess á þingi.

Bráðabirgðarstyrkir fyrir 2020

Umræddur ársreikningur Torgs fyrir árið 2019 var samþykktur 7. maí 2020 en á þeim tíma bólaði ekkert á lögum sem tryggja styrki til einkarekinna fjölmiðla. Þau tíðindi urðu þó að heimsfaraldur skall á og Alþingi samþykkti víðtækar lagabreytingar til að mæta efnahagslegum áhrifum af hans völdum. Meðal annars voru þar gerðar breytingar á fjölmiðlalögum sem heimila ráðherra að veita sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla, en eingöngu vegna ársins 2020 og kemur því ekki í stað fyrir þágrundvallarbreytingu sem menntamálaráðherra hafði boðað að yrði gerð á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.

Vafasöm tekjufærsla

Líkt og áður segir telur sérfræðingur í endurskoðun, sem blaðið ræddi en vill ekki láta nafns síns getið að það sé miklum vafa undirorpið að bókfæra tekjur sem byggja á jafn veikum grunni, eru byggðar á væntingum og hafa í raun ekki orðið til á reiknisárinu sem um ræðir. Að vísu komi huglægt mat oft við sögu, t.d. þegar kemur að endurheimt krafna, en það sé grunvallarreglan að ekki megi „líta of djúpt í kristalskúluna“ þegar kemur að mati á heimtum „óvissra“ tekna.

Aðspurður sagðist Björn Víglundsson, forstjóri Torgs, ekki geta tjáð sig um málið þar sem hann hafi tekið við félaginu í september á þessu ári. Ekki náðist í Helga Magnússon. Hann er eigandi að 82% hlut í Fréttablaðinu.

Tap af rekstrinum
» Þrátt fyrir tekjufærsluna nam tap af starfsemi Torgs 212 milljónum í fyrra.
» Var það viðsnúningur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 39 milljónum.
» Heildartekjur félagsins 2019 námu 2,3 milljörðum króna.