„You got a match!“ poppar upp og hjartað tekur örlítinn kipp. Svo man einhleypingurinn eftir helvítis veirunni.

Ástarbál eiga undir högg að sækja nú á tímum kórónuveirunnar. Það getur nefnilega verið erfitt að fíra undir slíkum bálum þegar fólk má varla hittast; hvað þá snertast. Ég tala nú ekki um fólkið sem er í fjarsambandi við ástina í öðrum heimshlutum. Nú er ekkert verið að skreppa í rómantískar helgarferðir að hitta Juan, Justin eða Jasper. Ó nei.

Svo er það einhleypa fólkið. Þessir fordæmalausu tímar eru ekki að hjálpa þeim að finna sér maka; að finna ástina eða hreinlega bara finna sér leikfélaga til að lífga upp á þessa óvenju gráu tilveru. Tökum dæmi af manneskju sem vill fara á deit. Vonbiðlarnir standa ekki í röðum við dyrnar; allir halda sig heima; skemmtistaðir eru lokaðir og þeir fáu sem eru á ferðinni eru með grímu. Það er voða erfitt að verða skotin(n) í mannveru með grímu.

Þegar kvölda tekur og Covid-leiðinn tekur völdin geta einhleypingar auðvitað flett yfir myndirnar á Tinder. Það kostar ekkert að skoða og er ágætis dægradvöl og á meðan andlitin eru einungis ljósmyndir í litlu símaappi er þetta ekkert ósvipað og að skoða flott föt á netinu. Nei, nei, nei, oj, nei takk. Þessi er nú allt í lagi, jú, bara frekar smart. Vinstri, vinstri, vinstri, vinstri, vinstri, hægri!

Hinum megin bæjarins er annar einhleypingur að drepast úr leiðindum eftir að hafa setið heima allan daginn að vinna og er að fletta í gegnum myndir líka. „You got a match!“ poppar upp og hjartað tekur örlítinn kipp. Svo man einhleypingurinn eftir helvítis veirunni.

Tveggja metra reglan er ekkert að gera fyrir einhleypa á deitum, og afar erfitt reynist að kyssast í gegnum tvær einnota bláar sjúkrahúsgrímur. En það er ekkert bannað að hittast; það er jú ekki útgöngubann. Það er enn opið á kaffihúsum og alltaf hægt að spjalla yfir kaffibolla. Og ástin lætur ekki að sér hæða; hún lætur ekkert oggulitla veiru eyðileggja allt fyrir sér. En það þarf að fara varlega. Yfir fyrsta grímudeitinu á Kaffi Vest er hægt að tala um smitvarnir, það skemmtilega umræðuefni. Spurningar á deitum í dag eru ekki: „Hvað finnst þér skemmtilegt að gera? Hvað áttu mörg börn?“ Heldur frekar: „Ertu dugleg(ur) að spritta þig? Hvað ertu búin(n) að hitta marga í vikunni? Þekkir þú einhvern með Covid?“

Þríeykið yrði kannski ekkert sérstaklega hrifið af snertingum ókunnugra, en lífið verður að halda áfram. Börn fæðast, gamalmenni deyja og eftir langar og ítarlegar yfirheyrslur á báða bóga er mögulega hægt að fara aðeins nær en tvo metra. Bara ekki segja Þórólfi. Og alls ekki Ölmu.