Óvissa er um hvort þetta eru hefðbundin skemmdarverk eða varðandi stjórnarskrána.
Óvissa er um hvort þetta eru hefðbundin skemmdarverk eða varðandi stjórnarskrána. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það gránaði í Esjuhlíðum og í Laugardal varð ljóst að íslenska fótboltasumarið var að hausti komið, þegar karlalandslið Dana sigraði Íslendinga með þremur mörkum gegn engu. Alveg sama þótt sænsku dómararnir hafi átt fyrsta markið.

Það gránaði í Esjuhlíðum og í Laugardal varð ljóst að íslenska fótboltasumarið var að hausti komið, þegar karlalandslið Dana sigraði Íslendinga með þremur mörkum gegn engu. Alveg sama þótt sænsku dómararnir hafi átt fyrsta markið.

Þriðja bylgja kórónuveirunnar hélt áfram að rísa í vikunni, meðal annars með þeirri afleiðingu að eldra farsóttarhúsið fylltist og þurfti að bæta við einni hæð á Hótel Rauðará fyrir sjúklinga í einangrun.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir , Hafnfirðingur og formaður Viðreisnar, fór í golf í Hveragerði á laugardag, þrátt fyrir tilmæli Golfsambandsins um að fólk af höfuðborgarsvæðinu færi ekki í golf utan þess. Hún situr sjálf í stjórn sambandsins. Hún sagði það óafsakanlegt og baðst afsökunar.

Lögregla á Siglufirði batt enda á glæpaöldu í bænum, þegar hún hafði hendur í hári unglings, sem talinn er hafa húsbrot, þjófnaði, innbrot, nytjatöku og skemmdir á bílum á samviskunni. Ýmis sönnunargögn fundust í fórum hans og gekkst hann við öllum brotunum.

Á daginn kom að ábendingar til Neyðarlínunnar um eld í húsbíl í Grafningi á föstudagskvöld skiluðu sér ekki til lögreglu. Önnur tilkynning daginn eftir gerði það hins vegar og við athugun fundust líkamsleifar manns á fertugsaldri í illa brunnu bílflaki.

Stjórnarskrárfélagið eða stuðningsmenn þess máluðu slagorð á vegg við Skúlagötu um helgina, við hlið ráðuneytis. Tveimur dögum síðar var hafist handa við að hreinsa það burt, sem margir af andstæðingum stjórnarskrárinnar töldu til marks um ofsafengin viðbrögð hins opinbera. Sem hlýtur að bera vott um nokkra fordóma í garð opinberra starfsmanna.

·

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði að nýtt neyðarlínukerfi yrði reynt í vikunni til þess að koma í veg fyrir mistök eins og þau sem hefðu átt sér stað við bílbrunann í Grafningi. Ráðherra kvaðst hafa óskað eftir umbótum og samræmingu á kerfinu fyrir allnokkru, en þetta atvik sýndi að það þyldi ekki frekari bið. Neyðarlínan telur mögulegt að „tæknilegt svarthol“ í símkerfinu sé skýringin.

Tilmæli um grímunotkun í sóttvarnaskyni settu sinn svip á samfélagið, en sums staðar eru grímur orðnar skylda. Herra Guðni Th. Jóhannesson , forseti Íslands, brýndi góða umgengni fyrir löndum sínum af því tilefni, grímur sæjust orðið alltof víða úti í náttúrunni. Þeim ætti að fleygja í rusl eftir notkun.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að næsta vika skæri úr um árangur hertra sótttvarnaraðgerða innanlands, en fyrsta kastið virtust þær lítið hrína á veirunni. Hann taldi að grafalvarlegar afleiðingar blasa við ella, ekki þyrfti mikið til að tugþúsundir veiktust. Viðbúnaður var aukinn og fjölgað í bakvarðasveitinni. Nýgengi innanlandssmita var þá komið í rúm 240 á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikur.

Í ljós kom að á Íslandi hafa færri verið tímabundið frá vinnu vegna heimsfaraldursins en raunin er á meginlandi Evrópu. Vinnutími hefur styst og vinnustundum fækkað, en marktækt minna en í löndum Evrópu. Atvinnuleysi hefur einnig látið á sér kræla hér á landi sem annars staðar, en þó er staðan hér mun skárri en að jafnaði gerist í Evrópu eða í löndum OECD.

Gamalkunnugt hitamál skaut upp kollinum í vikunni, en þá mælti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fyrir frumvarpi sínu um víðtækar breytingar á mannanafnalögum . Verði það að lögum getur fólk tekið sér þau nöfn, sem því sýnist, eins mörg og vill, en einnig yrði heimilt að taka upp ný ættarnöfn.

Þrátt fyrir að ferðamenn séu nær hættir að sjást í landinu á hið sama ekki við um framandi fugla, en töluvert af flækingsfuglum hefur borist til landsins sunnaustanverðs.

Dr. Pétur Mikkel Jónasson , vatnavistfræðingur og prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, lést 100 ára að aldri.

·Vinnumálastofnun birti skýrslu um atvinnuleysi, en í vinnugögnum hennar kom m.a. fram spá um 25% atvinnuleysi í Reykjanesbæ í desember. Atvinnuleysi í landinu er talið komið í 10% um þessar mundir og að það fari enn hækkandi næstu mánuði, hvergi þó í líkingu við það sem gerist á Suðurnesjum, sem nú þegar nálgast 20%.

Morgunblaðið sló upp þeirri forsíðufrétt að Björgvin Halldórsson , söngvarinn goðsagnakenndi, syngi fyrir tómum sal. Ekki var það þó vegna áhugaleysis, heldur er fyrirhugað breytt fyrirkomulag á árvissum jólatónleikum Björgvins og jólagesta hans í ljósi heimsfaraldursins og sóttvarna.

Kórónuveiran hefur mikil áhrif á mannlífið, þar á meðal umferð. Vegagerðin dró fram umferðarmælingar á höfuðborgarsvæðinu, sem sýna vel hvernig umferðin sveiflast eftir sóttvarnaaðgerðum. Hún minnkaði um 45% þegar faraldurinn náði hámarki í vor, en að þessu sinni hefur hún minnkað um 20% frá meðalumferð.

Þrátt fyrir hrun í kæmu ferðamanna til landsins er enn töluvert um að þeir farþegar, sem þó koma, leiti hælis á Íslandi. Það sem af er mánaðarins voru þeir orðnir 44, sem bendir til þess að jafnaðarfjöldi þeirra sé svipaður og fyrir heimsfaraldurinn. Um 70% þeirra hafa þó áður fengið hæli í öðru Evrópuríki.

Gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands hefur minnkað um 60 milljarða króna frá því í júní, en bankinn á þó nóg eftir. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, skrifaði hins vegar grein, þar sem hún taldi hann ekki þá vörn Seðlabankanum, sem ætlast mætti til.

Jólageit IKEA er kominn á sinn stall í Garðabæ. Mikil spenna ríkir um hvernig henni reiðir af þessi jól, en hún hefur aðeins einu sinni staðið óhögguð eftir jólahátíðina, óbrennd eða ófokin út í buskann.

·

Dr. Júlíus Friðriksson talmeinafræðingur í Suður-Karólínu fékk metstyrk frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna (NIH) til að rannsaka málstol í kjölfar heilablóðfalls.

Karlalandsliðið í fótbolta stóð í sterku liði Belga á Laugardalsvelli á miðvikudagskvöld, en tapaði nú samt, 1:2. Við það urðu vonir um frama í þjóðadeild UEFA daufari.

Samtökin Geðhjálp hófu átak í vikunni fyrir því að geðheilbrigði yrði sett í forgang í samfélaginu. Það var gert undir tölunni 39 , en það er fjöldi þeirra Íslendinga sem féllu fyrir eigin hendi á liðnu ári.

Útborganir Ábyrgðasjóðs launa hafa snaraukist undanfarið. Gert er ráð fyrir að þau muni nema rúmum tveimur milljörðum kr. á þessu ári.

Álkarlar Steinunnar Þórarinsdóttur myndlistarmanns voru fjarlægðir af þakbrún Arnarhváls og nokkur eftirsjá í þeim. Á Kjaftaklöpp við Skólavörðustíg var reifuð sú hugmynd að þar yrði í staðinn komið fyrir höggmyndum af fjármálaráðherrum þjóðarinnar, nöktum að hætti grískra goða eða öreiga.

Mikil gagnrýni kom fram á vinnubrögð Tryggingastofnunar ríkisins í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, en þar var m.a. tínt til að um 90% lífeyrisþega hafi fengið rangt greitt á tímabilinu 2016-2019.

Skemmdir voru unnar á hljóðmön við Miklubraut norðan Rauðagerðis, en á hana voru málaðar torkennilegar áletranir , sem fræðimenn greinir á um hvort snúi að stjórnarskrármálum eða venjulegri skemmdarfýsn.

Vigdís Hauksdóttir , borgarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram harðorða bókun á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, þar sem Þjóðleikhúsinu hefði liðist að fara í gagngerar breytingar í leyfisleysi og byggingarfulltrúi gefið út eftiráleyfi án umfjöllunar. Þjóðleikhúsið á að heita verndað.

Hjalti Geir Kristjánsson , húsgagnaarkitekt og forystumaður í atvinnulífi, lést 94 ára að aldri.

·

Forystumenn í ferðaþjónustu segja nú allt kapp lagt á að halda innviðum ferðaþjónustu við og ferðaþjónustufyrirtækjum starfhæfum í vetur þó lítið sem ekkert sé að gera, með það fyrir augum að þau geti tekið við bókunum og risið úr dvala í vor, þegar vonir standa til þess að heimsfaraldurinn hafi mikið gengið niður.

Bólusetning við inflúensu er hafin í landinu, þótt erfitt geti verið að koma henni við í miðjum faraldri. Það þykir þó mikilvægt, enda getur verið mjög slæmt að fá flensuna ofan í kórónuveirusmit.

Maður var sýknaður af ákæru um skattalagabrot þegar mál hans kom í annað sinn í héraðsdóm eftir að Landsréttur hafði sent málið þangað aftur. Málið hefur velkst um í kerfinu í meira en áratug og kostnaðurinn margföld sú upphæð, sem skattyfirvöld héldu að um væri að tefla. Maðurinn íhugar að stefna ríkinu fyrir þessa „glórulausu óvissuferð“.

Samkvæmt sundurliðuðum reikningum drakk yfirstjórn Reykjavíkurborgar áfengi fyrir meira en hálfa milljón króna á kostnað útsvarsgreiðenda á Vinnustofu Kjarvals við Austurvöll, þar sem borgin hefur nýtt sér fundaraðstöðu. Í fremur máttleysislegri útskýringu úr ráðhúsinu kom fram að „um þróunarverkefni [væri] að ræða“. Borgarbúa hlýtur að óa við ástandinu þegar silkihúfur borgarinnar taka til við að drekka á fullum afköstum.