Davíð Þorláksson
Davíð Þorláksson — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Nú þegar kreppan dregst svona á langinn aukast áhyggjur okkar af því að fyrirtæki muni í mörgum tilvikum ekki opna að nýju þegar viðsnúningurinn verður,“ segir Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA.

„Nú þegar kreppan dregst svona á langinn aukast áhyggjur okkar af því að fyrirtæki muni í mörgum tilvikum ekki opna að nýju þegar viðsnúningurinn verður,“ segir Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA. Í gær sendu samtökin frá sér tilkynningu þar sem bent var á að í nýrri greiningu sem New York Times birti komi fram að eitt af hverjum sjö litlum fyrirtækjum í Bandaríkjunum hafi verið lokað varanlega í ágústmánuði.

„Við vitum auðvitað ekki hvort staðan sé sú sama hér en til samanburðar ef við við myndum heimfæra þetta á Ísland þá myndi það þýða að 3.000 fyrirtæki með um 11 þúsund launþega myndu loka hér á landi. Þessi fyrirtæki hafa hingað til staðið undir u.þ.b. 60 milljarða launagreiðslum á ári.“

Bendir Davíð á að margir atvinnurekendur hafi neyðst til að loka fyrirtækjum sínum að hluta eða í heild á síðustu mánuðum og að nú séu þeir víða komnir að þolmörkum.

„Það er ekki eins og sumir halda að þegar kreppan er gengin yfir þá taki fyrirtækin bara til starfa eins og ekkert hafi í skorist. Nú þegar eru eigendur fyrirtækja sem hafa reynt að standa þetta af sér farnir að segja upp fólki, selja atvinnutæki, losa sig undan samningum ýmiskonar. Það verður ekki endurheimt á einni nóttu og mun valda því að það mun taka okkur lengri tíma en ella að koma okkur út úr kreppunni þegar viðspyrnan næst.“

Segir Davíð að þetta sé mjög alvarlegt. Þannig verði t.d. að tryggja að ferðaþjónustan verði í stakk búin til að taka á móti fólki þegar lokunum verður aflétt.

„Íslandsstofa er með markaðsátak í pípunum sem mun skipta miklu en við verðum líka að hafa fyrirtæki til reiðu til að taka á móti ferðamönnum þegar hlutirnir fara að rúlla á nýjan leik. Fyrirtækin verða að taka undir og sinna mjög mikilvægu markaðsstarfi. Við verðum í mjög harðri samkeppni við öll löndin í kringum okkur og megum ekki við því að fyrirtækin verði mörg hver einfaldlega horfin af sviðinu,“ segir Davíð.

Íslensku fyrirtækin
» Lítil og örfyrirtæki eru þau fyrirtæki sem eru með 49 starfsmenn eða færri.
» Þau sjá 52% launafólks í landinu fyrir vinnu.
» Þessi fyrirtæki eru 21.000 og 80 þúsund launþega og greiða 414 milljarða í laun á ári.