En af hverju er ekki tekið fram í lögum að það sé bannað að setja glassúr og kókosmjöl á skúffuköku undir stýri?

Það er bannað að tala í síma undir stýri án þess að nota handfrjálsan búnað. Þetta vita sennilega flestir og örugglega þeir sem hafa fengið háa sekt fyrir að hafa gleymt sér. Rökin eru þau að síminn trufli fólk við aksturinn, einbeiting minnki og líkurnar aukist á slysum. Það er alveg einhver skynsemi í því.

En af hverju er ekki tekið fram í lögum að það sé bannað að setja glassúr og kókosmjöl á skúffuköku undir stýri? Eða reyna að setja saman þúsund stykkja púsl? Eða lita á sér hárið? Það hlýtur að vera enn hættulegra en að svara í símann undir stýri.

Sennilega skýringin er að það segi sig sjálft og því þurfi ekki að banna það. Það ætti engum að detta það í hug. Til vara, að til séu einhver lög eða reglur um athygli við akstur sem nái yfir slíka hegðun. Þannig er óþarfi að setja lög um hluti sem segja sig sjálfir. Með öðrum orðum: Það er óþarfi að banna allt. Um þetta hefur verið nokkur samstaða í samfélaginu.

Lykilhugtök í þessu hljóta alltaf að vera hugtök á borð við reglu, frelsi, skynsemi og traust. Samfélag okkar á að vera einhvers konar blanda af þessu. Við reynum að setja ekki reglur um alla hluti og það er óþarfi að banna það sem annaðhvort segir sig sjálft eða fellur undir almenn ákvæði í lögum.

Það er líka mikilvægt að við höldum áfram að leita að frelsinu og losa okkur við bönn sem við þurfum ekki á að halda. Reynum frekar að treysta fólki til að gera hluti í sátt við samfélagið og minnka flækjur lífsins. Og þá gerist það sem mér finnst alltaf jafn merkilegt. Fólki finnst þessi mál ekki skipta máli og tíma Alþingis gæti verið betur varið í eitthvað annað en nákvæmlega þetta. Svona eins og frelsi skipti engu máli og Alþingi geri aldrei neitt nema fara vel með tíma sinn og annarra.

En sem betur fer er til fólk sem heldur áfram að færa okkur meira frjálsræði. Það fer illa í suma, og, svo undarlega sem það hljómar, jafnvel fólk sem almennt vill telja sig frjálslynt. Til dæmis þegar kemur að því að breyta mannanafnalögum og leggja niður mannanafnanefnd.

Rökin gegn því eru að þá færi bara allt í vitleysu. Sumir draga upp gamlar greinar um manninn á Englandi sem vildi skíra barnið sitt í höfuðið á öllu byrjunarliði Manchester United (við getum sennilega verið alveg róleg yfir því þessa dagana) eða fólkið í Svíþjóð sem fannst það ákveðið listaverk að nafn barnsins þeirra væri stafrófið. Svo póstar fólk þessu og segir: Viljum við þetta?

Stutta svarið er nei. Lengra svarið er að sennilega getum við verið alveg róleg yfir þessu út af því sem við köllum samfélag. Það veitir okkur ákveðið aðhald og kemur í veg fyrir að við gerum einhverja vitleysu. Það er til dæmis ekki bannað að mæta í náttfötum í vinnuna en við gerum það sjaldnast.

Önnur rök eru að þá hverfi sú íslenska hefð að kenna sig við foreldra sína. Reyndar held ég að lausleg skoðanakönnun í hópi þeirra sem halda þessu fram myndi leiða í ljós að líkurnar á því væru engar. Venjulega er þetta eitthvert annað fólk sem á að láta sér detta í hug að varpa öllum hefðum fyrir róða. Og þótt einhverjum detti í hug að taka upp ættarnafn, hvað með það? Er brotið á rétti einhvers sem vill bara vera -son áfram?

Og svo eru það rökin um að gömul og góð íslensk nöfn týnist og deyi út. Eins og það sé líklegt að fólk hætti að nefna börnin sín Sigríði og Jón. Það er ekkert lagaboð um að nefna eða skíra hefðbundnum nöfnum. Samkvæmt úrskurði mannanafnanefndar gætum við rekist á systkini sem heita Ljótur Kaktus og Hugljúf Stjarna. En ég man svo sem ekki eftir því. En það gæti gerst samkvæmt því kerfi sem er við lýði í dag.

En við höfum val. Við getum bannað allt eða reynt að hafa skynsamlegar reglur og treyst fólki til að gera vel við börnin sín og gefa þeim nöfn sem þau geta borið með reisn. Við eigum ekki að þurfa nefnd til þess.

Og ég get lofað ykkur því, sem afkomandi Kveldúlfs Brundbjálfasonar og Salbjargar Berðlu-Káradóttur, að fyrr myndi ég henda í góða skúffuköku undir stýri en að láta barnið mitt burðast með nafn sem það stendur ekki undir.