Kötturinn Fornleifafræðingar nota nú dróna við að finna fleiri myndir sem þessar á hæðum umhverfis eyðimörkina þar sem frægustu myndirnar eru.
Kötturinn Fornleifafræðingar nota nú dróna við að finna fleiri myndir sem þessar á hæðum umhverfis eyðimörkina þar sem frægustu myndirnar eru. — Ljósmynd/Johny Islas/Menningarráðuneyti Perús
Hinar gríðarlöngu og stóru línur og dýrateikningar í Nazca-eyðimörkinni í Perú hafa löngum vakið athygli, og hafa jafnframt kveikt ólíkar kenningar um það hvernig þær hafi verið gerðar. Hafa einhverjir jafnvel talið geimverur hafa verið að verki.

Hinar gríðarlöngu og stóru línur og dýrateikningar í Nazca-eyðimörkinni í Perú hafa löngum vakið athygli, og hafa jafnframt kveikt ólíkar kenningar um það hvernig þær hafi verið gerðar. Hafa einhverjir jafnvel talið geimverur hafa verið að verki. Þó er ljóst að myndirnar í sólbakaðri mörkinni voru gerðar af fólki sem þar bjó fyrir um tvö þúsund árum, með því að fjarlægja dökkt yfirborðslagið sem nær aldrei rignir á og þá birtist ljós jarðvegur.

Tekið var að rannsaka og skrá línurnar og dýramyndirnar á sléttri eyðimörkinni fyrir hátt í einni öld en að undanförnu hafa fleiri dýramyndir verið að finnast á hæðum umhverfis. Sökum hallans í landinu hafa jarðefni sigið yfir þær línur og falið betur en þær á sléttlendinu. Fornleifafræðingar hafa hins vegar tekið að beita drónum við að kanna svæðið og hafa þá uppgötvað þessar myndir og tekið að gera þær skýrari með því að fjarlægja dekkri steina af línunum. Mesta athygli hefur vakið gríðarstór kattarmynd, 34 metra löng, á einni hlíðinni en samkvæmt The Art Newspaper segja fornleifafræðingar að fleiri myndir muni koma í ljós. efi@mbl.is