*Heimsmeistarinn í 400 metra hlaupi kvenna, Salwa Eid Naser , sleppur við bann fyrir að skrópa í lyfjaprófi þar sem starfsmaður lyfjaeftirlitsins bankaði á vitlausa hurð þegar hann ætlaði að prófa hlaupakonuna á hóteli sem hún dvaldi á. Ruglaðist starfsmaðurinn í leit sinni að Eid Naser og samkvæmt frétt The Guardian bankaði hann á hurð á herbergi sem innihélt gaskúta í meira en klukkutíma, þrátt fyrir að merkingar á hurðinni bæru þess merki að lítið annað en gaskúta væri þar að finna. Naser vann gullið á heimsmeistaramótinu í Doha á síðasta ári er hún hljóp á 48,14 sekúndum, sem er þriðji besti tími sögunnar og sá besti síðan 1985. Naser er 22 ára gömul og fæddist í Nígeríu en hóf að keppa fyrir hönd Bareins árið 2014. Átti hún yfir höfði sér tveggja ára bann hefði hún verið fundin sek.
*Svisslendingurinn Roger Federer segist vera hóflega bjartsýnn á að geta verið með á Opna ástralska meistaramótinu í janúar, fyrsta risamótinu á næsta ári. Federer hefur unnið einliðaleikinn á risamótum í tennis tuttugu sinnum á ferlinum en Spánverjinn Rafael Nadal jafnaði þann árangur á dögunum. Federer er orðinn 39 ára gamall og fór í hnéaðgerð í sumar. Var það önnur hnéaðgerðin á árinu og meiðslin halda honum frá keppni út þetta ár. Federer segist í samtali við blaðið Schweizer Illustrierte vera á réttri leið í endurhæfingunni. Hann finni ekki fyrir sársauka þegar hann sinnir styrktaraæfingum en að svo stöddu æfi hann ekki með tennisspaðann í meira en tvær klukkustundir. Hann muni ekki keppa á ný fyrr en hann sé 100% tilbúinn en er hóflega bjartsýnn á að vera með í janúar.
* Kristófer Ingi Kristinsson , U21 árs landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði í gær fyrir Jong PSV í b-deildinni í Hollandi. Liðið mætti NEC Nijmegen á heimavelli og gerði 1:1-jafntefli. Kristófer var lánaður til PSV síðsumars en hann er félagsbundinn Grenoble í Frakklandi. PSV á forkaupsrétt að Kristófer næsta sumar ef áhugi verður fyrir hendi hjá Hollendingunum.
*Netmiðillinn Karfani.is telur að Bjarki Ármann Oddsson verði næsti þjálfari karlaliðs Þórs á Akureyri í körfuknattleik. Liðið leikur í úrvalsdeildinni en þurfti að láta þjálfarann, Andrew Johnston , fara á dögunum af fjárhagslegum ástæðum.
* Fjölmörg kórónuveirusmit hafa greinst hjá hollenska knattspyrnufélaginu AZ Alkmaar en Albert Guðmundsson leikur með liðinu. Tancredi Palmeri blaðamaður hjá BeIN sports greindi frá þessu í gær. Félagið tilkynnti níu smit í síðustu viku og nú virðist veiran hafa breitt enn frekar úr sér innan veggja þess. Liðið á að mæta Napólí á útivelli í Evrópudeildinni á morgun en nú er óljóst hvort sá leikur fer fram samkvæmt áætlun. Ekki hefur verið gefið út hvort leikmenn séu á meðal þeirra sem hafa smitast eða einungis aðrir starfsmenn.