Detroit Fjölskyldan í kirkjugarðinum í Detroit við leiði Jackray Simpson.
Detroit Fjölskyldan í kirkjugarðinum í Detroit við leiði Jackray Simpson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Þórður Snæbjarnarson fæddist í Keflavík en bjó fyrstu sex árin í Lyngholti á Barðaströnd. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1986 í Breiðholtið þar sem Kristján bjó til ársins 1993. Kristján var í Fellaskóla og segir það hafa verið gott að alast upp í Breiðholtinu á þessum árum og stutt í náttúruna í Elliðaárdalnum. Kristján er mikið náttúrubarn og segir sveitina alltaf eiga í sér mikil ítök.

Kristján Þórður Snæbjarnarson fæddist í Keflavík en bjó fyrstu sex árin í Lyngholti á Barðaströnd. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1986 í Breiðholtið þar sem Kristján bjó til ársins 1993. Kristján var í Fellaskóla og segir það hafa verið gott að alast upp í Breiðholtinu á þessum árum og stutt í náttúruna í Elliðaárdalnum. Kristján er mikið náttúrubarn og segir sveitina alltaf eiga í sér mikil ítök.

„Ég var í sveit á Breiðalæk á Barðaströnd hjá ömmu og afa öll sumur frá því ég flutti suður þar til ég lauk grunnskóla. Í sveitinni var ég kúasmali ásamt frændsystkinum mínum, fékk að fara stöku sinnum til sjós, annars vegar á grásleppuveiðar og hins vegar á þorskveiðar á Breiðafirði. Ég lít á Barðaströnd sem mínar æskuslóðir þó svo ég hafi varið mestum tíma í Breiðholti og síðar í Grafarvogi.“

Kristján hóf nám í grunndeild rafiðna í Iðnskólanum í Reykjavík strax að loknum grunnskóla og eftir grunndeildina fór hann í rafeindavirkjun. Meðfram náminu vann Kristján við ýmis störf, afgreiddi í vídeóleigu, sendist um bæinn með pítsur, vann í dráttarvéladeild hjá Reykjavíkurborg, var í síld og svo hjá rafverktaka.

Síðan lá leiðin í rafiðnfræði í Háskólanum í Reykjavík, sem hann lauk árið 2008 og bætti þá við sig rekstrariðnfræði og útskrifaðist árið 2010.

„Að iðnnámi loknu starfaði ég hjá Hátækni í skamman tíma við viðgerðir á farsímum en lengst af vann ég hjá ISAL í Straumsvík sem rafeindavirki.“

Kristján kynntist konu sinni, Díönu Lynn, ungur. „Við vorum bæði á sautjánda ári, árið 1997. Hún bjó þá í Reykholti í Biskupstungum og við giftum okkur 17. ágúst 2002. Við eigum saman þrjú börn, tvíburastelpur sem eru 19 ára og son sem er 10 ára, alveg að verða 11 ára.“

Unga parið flutti um tíma til heimabæjar Díönu, Eskifjarðar, en stöldruðu stutt við og keyptu sína fyrstu íbúð í Breiðholtinu. Þar gátu þau þó ekki búið lengi, því þau þurftu að stækka við sig eftir að tvíburarnir fæddust, og íbúðin þá strax orðin of lítil. Síðan hafa þau búið í Grafarvoginum.

Kristján Þórður er mikill félagsmálafrömuður, þrátt fyrir ungan aldur. „Árið 2004 hóf ég afskipti af félagsstörfum, var kosinn trúnaðarmaður rafeindavirkja það ár og fór beint í kjaraviðræður við ISAL með gríðarlega öflugum hópi samningafólks sem hefur reynst mér verðmætur skóli.“ Kristján segir að þessi byrjun hafi verið eins og að stökkva beint í djúpu laugina, en hann þakkar sínum lærifeðrum í baráttunni fyrir þekkingu sína í dag. Kristján fann sig vel í starfinu og árið 2008, nokkrum mánuðum fyrir hrun, var hann kosinn formaður Félags rafeindavirkja.

„Það var mjög sérstakt að koma inn á þessum tíma, þegar blikur voru á lofti. Atvinnuleysi fór að aukast og það voru mjög erfiðir tímar í félagsmálum og á vinnumarkaði og það virkilega tók á að standa vaktina á þessum tímapunkti þegar allt var upp í loft varðandi stöðu launafólks í landinu.“

Kristján tók í kjölfarið sæti í miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands og hefur setið í miðstjórn síðan. Árið 2011 var hann kjörinn formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, þá á 31. aldursári, og hefur sinnt því starfi síðan. Árið 2018 var hann kjörinn sem 2. varaforseti Alþýðusambands Íslands og varð 1. varaforseti ASÍ á vormánuðum 2020.

„Að mörgu leyti erum við að sjá margar keimlíkar áskoranir í dag í þessum Covid-faraldri og voru í hruninu, þótt efnahagsleg staða sé betri í samfélaginu núna og meiri innistæða fyrir verkefnum sem verið er að ganga inn í. Hins vegar er óvissan okkar versti óvinur því enginn veit hversu lengi við verðum að glíma við þessa veiru og hverjar afleiðingarnar muni verða. Að því leyti er staðan ólík hruninu, því óvissuþættirnir eru fleiri.“

Eins og sjá má hafa félagsmálin átt hug Kristjáns síðustu tvo áratugina, en þegar þeim sleppir segir hann ferðalög með fjölskyldunni vera sitt helsta áhugamál. „Okkur þykir mjög gaman að fara í útilegur enda er það sá gæðatími sem fjölskyldan hefur átt saman. Síðan á Díana sterkar tengingar við Bandaríkin, því faðir hennar var þaðan, og í fyrra fórum við í langt ferðalag þangað þar sem við keyrðum frá Flórída til Detroit og heimsóttum kirkjugarðinn þar sem Jackray, faðir Díönu, hvílir.“

Fjölskylda

Eiginkona Kristjáns er Díana Lynn Simpson, f. 14.3. 1980, leikskólaliði. Foreldrar hennar eru Ragnhildur K. Kristinsdóttir Simpson verkakona, f. 4.4.1950, d. 21.6.2020, og Jackray Simpson, flugvirki sem starfaði fyrir bandaríska flugherinn, f. 31.7. 1940, d. 7.1.1986.

Börn Kristjáns og Díönu eru Ragnhildur Ósk Kristjánsdóttir Simpson, f. 10.9. 2001, framhaldsskólanemi; Ilmur Líf Kristjánsdóttir Simpson, f. 10.9.2001, framhaldsskólanemi, og Snæbjörn Kristjánsson Simpson, f. 12.2. 2010, grunnskólanemi.

Systir Kristjáns er Valgerður Þórdís, f. 4.10. 1977, iðjuþjálfi.

Foreldrar Kristjáns eru hjónin Snæbjörn Kristjánsson, f. 29.8. 1954, rafiðnfræðingur frá Breiðalæk á Barðaströnd og Sigurlaug Sigurðardóttir, f. 21.3.1958, skrifstofufulltrúi, frá Keflavík. Þau hafa búið í Reykjavík frá árinu 1986.