Skjálfti Helgi Hrafn hleypur.
Skjálfti Helgi Hrafn hleypur. — Skjáskot/RÚV
Blasir ekki við að besta íslenska sjónvarpsefni um langa hríð varð óvart til í beinum útsendingum á meðan jarðskjálfinn reið yfir í gær?

Blasir ekki við að besta íslenska sjónvarpsefni um langa hríð varð óvart til í beinum útsendingum á meðan jarðskjálfinn reið yfir í gær? Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í sjónvarpsviðtali við Washington Post , brá nokkuð, en var fljót að ná sér aftur á strik með bros á vör. Viðtalið vitaskuld mun útbreiddara fyrir vikið og fyrirtaks landskynning.

Hér heima er samt í efsta sæti myndskeiðið úr sjónvarpi Alþingis, þar sem píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson hljóp úr pontu (hvert?), en Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, lét sér hvergi bregða. Jarðskjálftar virðast þannig geta dregið fram í fólki úr hverju það er gert.

Þarf raunar ekki beina útsendingu í jarðskjálftum til. Vorið 2008 vann yðar einlægur á Viðskiptablaðinu og var í símanum við ritstjóra blaðsins þegar 6,3 stiga skjálfti reið yfir, ryk féll úr lofti og blaðamenn skelfdust. Hann hélt símtalinu hins vegar áfram eins og ekkert hefði ískorist, en þegar skjálftinn hélt bara áfram varð ég órórri, greip fram í og sagði honum frá því að það væri jarðskjálfti í gangi og við ættum kannski að heyrast aftur síðar.

„Jarðskjálfti?“ hváði ritstjórinn en spurði svo: „Og hvað hafðirðu hugsað þér að gera í honum?“

Andrés Magnússon

Höf.: Andrés Magnússon