Stjórnskipan Íslands hefur ávallt byggst á meginreglunni um tvíeðli lands- og þjóðaréttar. Í henni felst að þjóðréttarreglur hafa ekki bein lagaáhrif hér á landi án þess að þær séu innleiddar sérstaklega í landsrétt með stjórnskipulega réttum hætti. Það fer svo eftir því með hvaða hætti viðkomandi þjóðréttarregla er innleidd, til að mynda með almennum lögum eða reglugerð, hvert vægi hennar verður sem réttarheimild í íslenskum rétti.
Þrátt fyrir þetta hefur Ísland gerst aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) sem hefur það að markmiði að mynda einsleitt efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, sömu samkeppnisskilyrðum og tryggri framkvæmd reglnanna, m.a. fyrir dómstólum. Með einsleitni er átt við að þær reglur sem EES-samningurinn nær yfir skulu vera þær sömu innan svæðisins og beitt með sama hætti. Þá hafa samningsríki ákveðnar skyldur til þess að tryggja að markmiðinu um einsleitni verði náð og forðast ráðstafanir sem geta stefnt þessu markmiði í tvísýnu.
Í ESB-ríkjum öðlast reglugerðir sambandsins bein réttaráhrif innan aðildarríkja án sérstakrar innleiðingar í landsrétt og að þær hafi forgangsáhrif gagnvart öðrum landslögum ríkjanna. Þetta hefur almennt ekki verið talið gilda um EFTA-ríkin þrátt fyrir að EFTA-dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ríkin geti verið skaðabótaskyld vegna rangrar innleiðingar tilskipana í landsrétt. Slíkt tryggir þó ekki bein réttaráhrif eða forgangsáhrif EES-reglna enda tryggja skaðabætur sem slíkar ekki einsleitni enda aðstaðan önnur fyrir þann aðila sem þarf að krefjast skaðabóta.
Það er ljóst að einsleitnin kemur fram á ýmsum sviðum íslensks réttar. Þannig hafa dómstólar viðhaft það lögskýringarsjónarmið að almennt skuli beita þeirri túlkunaraðferð sem samrýmist EES-rétti ef vafi er til staðar. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur jafnframt haldið því fram að þegar landsyfirvöld hafi val milli mismunandi leiða við skýringu skuli ávallt kjósa þann skýringarkost sem kemst næst þeirri túlkun sem lögð er til grundvallar innan ESB.
Nú hafa hins vegar borist fregnir af því að ESA hafi veitt Íslandi lokaviðvörun vegna þess að Ísland hafi ekki uppfyllt skuldbindingar um að tryggja að Evrópulöggjöf, sem hefur verið innleidd hér á landi, gangi framar landslögum að íslenskum rétti. Berist ekki fullnægjandi skýringar frá Íslandi vegna málsins kann að vera að málinu verði vísað til EFTA-dómstólsins. Byggist málið á því að í bókun 35 með EES-samningnum kemur fram að á svæðinu skuli gilda sameiginlegar reglur og að ef til árekstra komi milli EES-reglna og landsréttar skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði um að EES-reglur gangi framar.
Það gefur hins vegar augaleið að samkvæmt grunnreglum íslensks stjórnskipunarréttar ganga íslensk lög framar erlendum réttarreglum. Komist ESA eða EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að EES-reglur skuli ganga framar öðrum íslenskum lögum þá færi það í bága við þær grundvallarreglur sem almennt hafa verið viðurkenndar í íslenskum stjórnskipunarrétti. Það kann þó að vera að ESA muni komast að þeirri niðurstöðu út frá heildarmati á aðstæðum að almennt teljist réttarreglur EES nægjanlega tryggðar hér á landi. Það verður í það minnsta áhugavert að fylgjast með framgangi málsins enda gæti það haft veruleg áhrif á framtíð Íslands innan EES-samstarfsins ef ekki yrði fallist á það af hálfu Íslands að tryggja forgangsáhrif Evrópulöggjafar gagnvart landslögum að íslenskum rétti.