Bólusetning Það er misjafnt hvort fólk þarf að borga fyrir sprautuna.
Bólusetning Það er misjafnt hvort fólk þarf að borga fyrir sprautuna. — Morgunblaðið/Hari
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Bólusetning gegn árlegri inflúensu er hafin. Hjá heilsugæslustöðvum er lögð áhersla á að bólusetja áhættuhópa til að byrja með.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Bólusetning gegn árlegri inflúensu er hafin. Hjá heilsugæslustöðvum er lögð áhersla á að bólusetja áhættuhópa til að byrja með. Þeir sem eru bólusettir á heilsugæslustöðvunum þurfa að greiða 700 króna komugjald, nema þeir séu undanþegnir því en þeir sem eru orðnir 67 ára þurfa ekki að borga komugjald.

Embætti sóttvarnalæknis endurgreiðir innkaupsverð bóluefnisins fyrir áhættuhópa. Í þeim eru allir 60 ára og eldri, fólk með langvinna sjúkdóma eins og hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdóma, sykursýki, illkynja sjúkdóma og aðra ónæmisbælandi sjúkdóma og þungaðar konur. Auk ofantalinna njóta heilbrigðisstarfsmenn sem starfa í framlínunni forgangs að bólusetningu. Aðrir eru beðnir að bíða þar til almennar bólusetningar hefjast.

75.000 skammtar til landsins

Hjá Embætti landlæknis fengust þær upplýsingar að sóttvarnalæknir gerði samning við Vistor um kaup á 70.000 skömmtum af bóluefninu Vaxigrip Tetra. Embættið endurgreiðir innkaupsverð (um 1.200 kr. á hvern skammt) fyrir forgangshópa. Einstaklingar greiða þá komugjald eða umsýslukostnað ef það á við. Þetta bóluefni er m.a. notað á heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og opinberum heilbrigðisstofnunum, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Verði eitthvað eftir af bóluefninu þegar þessari þörf hefur verið mætt geta aðrir væntanlega fengið að njóta þess.

Auk þess sem keypt var samkvæmt stóra samningnum fékk Icepharma/Parlogis 5.000 skammta af bóluefninu Influvac Tetra og flutti inn í ljósi aðstæðna. Það er ekki á vegum sóttvarnalæknis og því ekki niðurgreitt heldur selt samkvæmt verði í Lyfjaverðskrá. Það þarf því að greiða fyrir bólusetningu með því bóluefni auk komugjalds eða umsýslugjalds fyrir einstaklinga. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stóð þetta bóluefni öllum til boða sem annast bólusetningar svo sem apótekum sem bjóða upp á slíka þjónustu og fyrirtækjum sem annast bólusetningar á starfsfólki fyrirtækja.

Almennt verð á inflúensubólusetningu í apóteki sem rætt var við er 3.490 krónur en eldri borgarar og öryrkjar greiða 2.290 krónur. Verðið getur verið breytilegt á milli lyfjabúða.