Áfram dregur úr umferðinni á höfuðborgarsvæðinu vegna hertra aðgerða í kórónuveirufaraldrinum. Vísbendingar eru um að margir hafi farið eftir tilmælum um að fara ekki að óþörfu út fyrir höfuðborgarsvæðið og dregið hafi úr akstri höfuðborgarbúa austur fyrir fjall í helgardvöl.
Þetta kemur fram í umferðarmælingum Vegagerðarinnar, sem eru nú birtar vikulega til að meta áhrif aðgerða í veirufaraldrinum á umferðina.
Á vefsíðu Vegagerðarinnar kemur fram að umferðin á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku var mun minni en í sömu viku fyrir ári eða 23 prósentum minni. Umferðin var líka minni sé miðað við vikuna á undan eða fimm prósentum minni.
Bent er á að reikna megi með að áhrif hvatningar sóttvarnayfirvalda og hertar reglur skili sér í ívið minni umferð þótt samdrátturinn sé ekki jafn áberandi og hann var í vor.
Umferðardeild Vegagerðarinnar ákvað líka að kanna hvort hægt væri að lesa út úr umferðinni hvort höfuðborgarbúar hefðu farið að tilmælum sóttvarnalæknis um að halda sig innan svæðisins og valdi umferðarteljara á Hellisheiði til þeirrar athugunar.
Þar kemur fram að ef bornar eru saman akstursstefnur í vikum 41 og 43 á árunum, þ.e.a.s. á föstudögum og sunnudögum, sést að í fyrra var jafnvægi milli akstursstrauma í austur og vestur, „þ.e.a.s. að u.þ.b. sami fjöldi ökutækja ekur austur á föstudögum og í vestur á sunnudögum. Ef hins vegar árið 2020 er skoðað sést að bæði er um minni umferð að ræða í heild sinni og þar að auki er u.þ.b. 2 þús. ökutækja munur á þessum akstursstefnum. Um 11 þús. ökutæki aka samtals í austur á föstudögum en einungis um 9 þús. ökutæki koma til baka á sunnudögum, sem gæti m.a. bent til þess að dregið hafi úr akstri höfuðborgarbúa austur fyrir fjall í helgardvöl“, segir í frétt á vef Vegagerðarinnar. omfr@mbl.is