Google Bandaríkjastjórn hefur höfðað mál á hendur tæknirisanum fyrir brot á samkeppnislögum.
Google Bandaríkjastjórn hefur höfðað mál á hendur tæknirisanum fyrir brot á samkeppnislögum. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna höfðaði í gær mál á hendur tæknirisanum Google, en fyrirtækinu er gefið að sök að hafa hagnýtt sér „ólöglega einokunaraðstöðu“ sína gagnvart leitarvélum og auglýsingum á netinu. Þetta er eitt stærsta samkeppnisbrotamál sem höfðað hefur verið i Bandaríkjunum undanfarna áratugi, en það gæti meðal annars leitt af sér að fyrirtækið verði brotið upp í smærri einingar.

Jeffrey Rosen, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi sínum í gær að málið beindist að yfirráðum Google yfir „vistkerfi“ netsins. „Google er hliðvörður netsins,“ sagði Rosen og bætti við að félagið hefði í krafti stöðu sinnar stundað viðskiptahætti sem héldu öðrum keppinautum niðri, og viðhéldi þannig einokun sinni með ólöglegum hætti.

Í ákæruskjali stjórnvalda segir að Google hafi meðal annars gert samkomulög til lengri tíma sem skylduðu m.a. framleiðendur símtækja til þess að hafa forrit frá Google þegar hlaðin á símunum þegar þeir væru fyrst seldir, og um leið kæmi félagið í veg fyrir að hægt væri að eyða sumum af sömu forritum.

Þá biðja bandarísk stjórnvöld dómstólinn að íhuga allar leiðir til þess að bæta úr og koma í veg fyrir að Google geti haldið einokandi viðskiptaháttum sínum áfram, þar á meðal að fyrirtækinu verði skipt upp. Rosen sagði hins vegar að dómsmálið yrði að þróast meira áður en hægt væri að tala um hvernig það yrði gert.

Segja málatilbúnaðinn rangan

Í yfirlýsingu Google var ákvörðun stjórnvalda gagnrýnd harðlega, og sagt að málaferlin væru byggð á mjög veikum grunni, þar sem aðgerðir fyrirtækisins hefðu komið neytendum þess til góða. „Fólk notar Google, því það velur að gera það, ekki af því að það neyðist til þess eða geti ekki fundið aðra valkosti,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu tæknirisans.

Bandarísk stjórnvöld hafa undanfarna mánuði rannsakað sterka stöðu sem nokkur fyrirtæki í hátæknigeiranum hafa komið sér í, þar á meðal Google, Amazon, Facebook og Apple, og hafa þingmenn beggja flokka verið gagnrýnir á hana. Í nýlegri skýrslu sem kom út á vegum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings var meðal annars lagt til að Google og öðrum fyrirtækjum yrði skipt upp til þess að viðhalda samkeppni. Sagði Rosen á blaðamannafundinum að dómsmálaráðuneytið væri einnig að fara yfir samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja sem væru í leiðandi stöðu á netinu. „Aðgerðir dagsins marka tímamót en ekki endapunkt,“ sagði Rosen.

Josh Hawley, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Missouri, sagði að málið yrði mikilvægasta samkeppnismál stjórnvalda í heila kynslóð, og fagnaði hann því að dómsmálaráðuneytið hefði látið til skarar skríða.

Leitarvél, símar og landakort

Í ákæruskjali stjórnvalda er sérstaklega vikið að þeirri staðreynd, að um 80% allra leita í Bandaríkjunum fara í gegnum leitarvél fyrirtækisins. „Google er með svo mikla yfirburði, að orðið er ekki bara nafnorð fyrir fyrirtækið eða leitarvélina, heldur einnig sögn sem þýðir að leita á netinu,“ segir í skjalinu.

Leitarvélinni var hleypt af stokkunum árið 1998, en heimasíða hennar, google.com, er sú sem mest er heimsótt á netinu.

Fyrirtækið fór á markað árið 2004, en sama ár ákvað það að bjóða upp á tölvupóstþjóninn Gmail, en um 1,5 milljarðar manna eru taldir nota hann fyrir tölvupóstföng sín. Þá hefur Google aukið þjónustu sína jafnt og þétt, og býður meðal annars upp á gps-forrit í farsíma og leit á landakortum, netvafrann Chrome, og var um tíma með sinn eigin samfélagsmiðil, Google+, sem var lokað í fyrra.

Þá hefur fyrirtækið þróað Android-farsímastýrikerfið, en það er til dæmis notað í farsíma frá Samsung, Sony og HTC. Árið 2017 var áætlað að rúmlega tveir milljarðar manna notuðu Android-stýrikerfið að minnsta kosti einu sinni í mánuði.

Málinu hefur verið líkt við mál sem Bandaríkjastjórn höfðaði á hendur Microsoft árið 1998, en því lauk á þann veg að fyrirtækið neyddist til þess að hætta að láta netvafra sinn og önnur Microsoft-forrit fylgja með Windows-stýrikerfinu.

Þá hefur Google þurft að glíma við svipaðar ásakanir um einokunarhætti í ríkjum Evrópusambandsins, en fyrirtækið hefur áfrýjað sektum sem framkvæmdastjórn þess hefur sett á vegna þeirra.