Hvar værum við hin stödd ef við hefðum ekki þingfólkið til að leiða okkur og vaka yfir hverju skrefi okkar? Værum við á hinum breiða vegi á leið til glötunar? Ómögulegt er að svara því. Værum við svífandi um á skýi í alsælu? Ómögulegt að svara því. Líklega geta flestir verið sammála um að það þurfi alls konar lög eins og t.d. umferðarlög þótt margir átti sig kannski ekki á samhenginu að það megi aka á svipuðum hámarkshraða á tvíbreiðum malbikuðum vegi og einbreiðum mjóum malarvegi. Mörg önnur lög en umferðarlögin þarf að öllum líkindum svo allir séu vinir í skóginum. Svo er spurning hvort einhver lög séu óþarfi.
Hundruð ef ekki þúsundir vinnustunda þingfólks hafa farið í það að ræða hvort einhverjir megi kaupa bjór á Íslandi og þá hverjir. Frá áfengisbanninu var það fyrst svo að enginn mátti flytja til Íslands bjór og drekka. Svo máttu þeir sem unnu á flutningstækjum sem fluttu fólk og vörur til Íslands hafa með sér bjór inn í landið og drekka hann. Þessu næst máttu einnig þeir sem voru farþegar í flutningstækjunum flytja með sér bjór inn til Íslands. Að lokum máttu svo allir kaupa bjór. Allt framangreint er að sjálfsögðu háð aldri. Líklega getur enginn rökstutt framangreindar reglur um bjórinn, vegna þess að það er ómögulegt. Þrátt fyrir það tókst þingfólkinu að eyða ómældum vinnutíma í þetta mál.
Annað mál sem hefur fengið ómælda athygli þingmanna eru mannanafnalögin. Samkvæmt lögunum mega sumir hafa ættarnöfn en aðrir ekki og svo er einhver nefnd sem ákveður hvað fólk má heita og er það mat bæði byggt á málfræðireglum, smekk og tilfinningu nefndarmanna. Ekki er nóg með að þingfólkið leiði okkur af vegi glötunar heldur gera það og ýmsar nefndir einnig eins og t.d. mannanafnanefnd, fjölmiðlanefnd og ábyggilega ýmsar fleiri.
Fram á sjónarsviðið kom svo ráðherra sem taldi rétt að hafa ekki eftirlitsmyndavél yfir öllum þáttum lífs okkar. Taldi rétt að sleppa okkur lausum. Taldi rétt að afnema mannanafnalögin. Að sjálfsögðu komu mótbárur. Nú má Sigurður bóndi heita Sigríður og hann heitir Sigríður. Heilanum í mér finnst það svolítið einkennilegt að Sigurður heiti Sigríður, en á heilinn í mér og einhverjum þingmönnum sem hafa ekki nóga aðlögunarhæfni að ákveða hvað fólk heitir? Er ekki eðlilegra að fólk ákveði það sjálft fyrir sig og sín börn? Svo mun heilinn í mér örugglega jafna sig á þessu með Sigurð og Sigríði.
Ég held að þingmenn ættu að fara að frumkvæði ráðherrans og samþykkja frumvarp hennar og leita að fleiri lögum sem má afnema vegna óþarfleika.
Höfundur er m.a. lögmaður.