Ljósgullinn liturinn á 10 ára Talisker-maltviskíi nýtur sín vel í morgunsólinni.
Ljósgullinn liturinn á 10 ára Talisker-maltviskíi nýtur sín vel í morgunsólinni.
Móreykt skoskt gæðaviskí hefur mér alltaf þótt vera mikill sparidrykkur – flöskur sem maður opnar til að gera sér virkilegan dagamun. Undir þennan flokk heyrir hið margverðlaunaða ljósgullna 10 ára gamla Talisker-maltvískí frá eyjunni Ský (e.

Móreykt skoskt gæðaviskí hefur mér alltaf þótt vera mikill sparidrykkur – flöskur sem maður opnar til að gera sér virkilegan dagamun. Undir þennan flokk heyrir hið margverðlaunaða ljósgullna 10 ára gamla Talisker-maltvískí frá eyjunni Ský (e. Skye) við Skotland, en eins og segir á umbúðum flöskunnar er Talisker eina viskíið sem framleitt er á þeirri vogskornu, veðurbörðu eyju.

Ég er víst ekki eini Íslendingurinn sem þykir reykfyllt viskítár gott því fróður maður sagði mér að ást Íslendinga á hangikjöti, og öðrum reyktum matvörum, gerði þá einnig sérlega móttækilegan fyrir reykfylltum áfengum drykkjum.

Þó að skoskt maltviskí seljist minnst af öllum viskíflokkum í ríkinu, með hlutdeild upp á tæp 10%, þar sem blandað skoskt viskí trónir á toppnum með rúmlega 57% hlutdeild, þá er vöxturinn í sölu maltviskís á milli ára hlutfallslega mestur, eða 50% samkvæmt sölutölum.

Talisker notar vígorðið „Made by the Sea“ í sínu markaðsefni, eða mótað af hafinu. Það undirstrikar þann ævintýraljóma sem yfir drykknum er, og vígorðið talar einnig beint inn í brimsalt sjómannshjarta Íslendingsins, sem vanur er að vera með storminn í fangið flesta daga ársins. Þegar heim er komið, og élinu slotar, er gott að eiga eina bokku á góðum stað af bragðmiklu eðalviskíi.

Talandi um ævintýraljóma, þá státar framleiðandinn af því að Talisker hafi verið uppáhaldsdrykkur skoska rithöfundarins Roberts Louis Stevensons, sem skrifaði sjóræningjasöguna Gulleyjuna. Sagði Stevenson að Talisker væri konungur drykkjanna (e. The king o‘ drinks), hvorki meira né minna, og er það enginn smá gæðastimpill frá manni sem skrifar sögur um sjóræningja, þó að sá óþjóðalýður sé reyndar þekktari fyrir yfirgengilega rommdrykkju.

Talisker var stofnað 1830 og hefur allt síðan þá verið trútt sínum upprunalegu gildum. Hefur þekkingin flust milli kynslóðanna, mann fram af manni, þó svo fyrirtækið sé í dag í eigu breska drykkjarrisans Diageo.

Þegar maður þefar af drykknum og veltir honum í munni sér er ekki laust við að maður finni fyrir sætum keimi, vanillu og grænum eplum mitt í öllum móreyknum. Þá er það hæfilega saltað og piprað. Viskíið er alls ekki of hart. Það skellur ekki á manni eins og brotsjór, heldur leggst ljúft og létt að tungunni, og rennur niður eins og útsogið.

Sjálfur drakk ég viskíið stakt, enda ekki vanur að drekka viskí með mat. Á umbúðunum segir að hægt sé að njóta þess með reyktum laxi og dökku brauði, og má ímynda sér að það passi vel saman.

Talisker er selt í ríkinu bæði eitt og sér, en einnig í vandaðri gjafaöskju. Blár peli fylgir með í öskjunni sem gerir manni kleift að njóta drykkjarins utan heimilis, jafnvel uppi á fjalli eða úti á Tali-skeri, þar sem aldan brotnar hvítfyssandi við fætur manns. tobj@mbl.is