Anna Sæunn Ólafsdóttir
Anna Sæunn Ólafsdóttir
Stjórn WIFT á Íslandi, samtaka kvenna sem starfa við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis, sendi frá sér ályktun í fyrradag vegna nýútgefinnar kvikmyndastefnu til næstu tíu ára.
Stjórn WIFT á Íslandi, samtaka kvenna sem starfa við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis, sendi frá sér ályktun í fyrradag vegna nýútgefinnar kvikmyndastefnu til næstu tíu ára. Segir þar að WIFT þyki grátlegt að ekki sé minnst á leiðréttingu kynjahalla í íslenskri kvikmyndagerð en því sé þó fagnað að ráðist hafi verið í það viðamikla verkefni að gera stefnu fyrir íslenska kvikmyndagerð til ársins 2030. „Við teljum brýnt að horft sé fram í tímann í þeim tilgangi að setja markviss háleit markmið fyrir svo mikilvæga starfsgrein sem kvikmyndagerð er, bæði menningarlega og efnahagslega. Einnig lýsum við ánægju okkar með þau fjögur markmið sem sett eru í þessari stefnu, enda væri það til bóta fyrir samfélagið allt ef þau ná fram að ganga,“ segir í upphafi ályktunarinnar. Hvergi sé þó minnst á kynjahallann og leiðréttingu á honum þótt verulega halli á konur í nánast öllum hornum kvikmyndagerðar. „Þetta er að okkar mati algjörlega óviðunandi. Í viðauka I er ein setning sem tæpir á þessu. Tilvitnun: „Efla þarf umhverfið með tímabundnum hnitmiðuðum aðgerðum til að jafna hlut kvenna en mikið hefur hallað á þær þegar litið er til fjölda umsókna og styrkja.“ Þessi setning er ágæt út af fyrir sig, en betur má ef duga skal, og við teljum brýnt að setja mun skýrari markmið í þessum efnum. Áætlun til næstu tíu ára hefði til dæmis verið kjörið tækifæri fyrir alla hagaðila, til að setja markmið um jafnan hlut kynja varðandi styrkveitingar frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Slíkt markmið er það minnsta sem hægt er að ætlast til þegar ráðist er í svo viðamikið verkefni sem þessi stefna er,“ segir í ályktuninni og að leiðrétting á kynjahalla snúist líka um mikilvægi þess að öll kyn hafi jöfn tækifæri til að segja sögur úr sínum samtíma. Ályktunin í heild er á wift.is. Anna Sæunn Ólafsdóttir er formaður WIFT á Íslandi.