Erlingur Hansson
Erlingur Hansson
Eftir Erling Hansson: "„Þúsundir og aftur þúsundir manna voru sendar nauðugar í fangabúðir. Margir voru teknir af lífi án undangenginna rannsókna og réttarhalda.“"

Laugardaginn 17. október 2020 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ólaf Jónsson skipasmið sem hann nefnir Dr. Jekyll og Mr. Hyde. Í þessari grein setur Ólafur fram margar rangar fullyrðingar sem leiðrétta ber.

Nikita Krústsjov hélt margar ræður í febrúar 1956 á flokksþingi Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Ólafur segir það þing hafa verið númer 10 en svo var ekki. Flokksþingið var númer 20.

Frægasta ræða Krústsjovs á flokksþinginu 1956 tók fjórar klukkustundir. Í þeirri ræðu fór hann mörgum orðum um stjórnarfar Stalíns. Hann talaði um að ótal margir voru ranglega teknir höndum á þeim tíma sem Stalín réð nær öllu í Sovétríkjunum. Krústsjov sagði: „Þúsundir og aftur þúsundir manna voru sendar nauðugar í fangabúðir. Margir voru teknir af lífi án undangenginna rannsókna og réttarhalda.“ Ólafur segir: „að Gúlag voru vinnubúðir til refsivistar. Þær voru einfaldlega fangelsi þeirra Sovétmanna.“ Það er rangt að halda því fram eins og Ólafur gerir að í Gúlaginu hafi bara verið sekir afbrotamenn sem dæmdir voru í fangelsi. Ólafur líkir Gúlagi við Litla-Hraun en sú samlíking stenst ekki. Ólafur segir: „Mér þykir ólíklegt að Krústsjov hafi talað um þrælkun margra milljóna.“ Eigi að síður er sú staðreynd flestum ljós nú árið 2020 að þarna þræluðu milljónir manna. Í ræðu Krústsjovs kom skýrt fram að menn voru sendir í þrælkun án þess að hafa brotið af sér.

Trotskí var myrtur í Mexíkó 1940 af flugumanni sem gerður var út af Stalín. Í Mexíkó var ekki dauðarefsing þá. Morðingi Trotskís var dæmdur í 19,5 ára fangelsi. Eftir að hann var látinn laus árið 1960 fór hann til Moskvu. Hann sagði ýmislegt í yfirheyrslum sem mexíkóska lögreglan hélt yfir honum að loknu morðinu. Þessi maður var þjálfaður til verksins. Eitt af því sem sú þjálfun fól í sér var að hann átti að segja að ódæðinu loknu að hann væri vonsvikinn fyrrverandi fylgismaður Trotskís. Það gerði hann.

Ólafur lætur liggja að því að rétt hafi verið að myrða Trotskí árið 1940 vegna þess að á milli Leníns og Trotskís var ósamkomulag á árunum fyrir 1917. Eigi að síður fagnaði Lenín því er Trotskí gekk til liðs við bolsévika árið 1917. Lenín gerði m.a.s. þá tillögu hinn 7. nóvember 1917 að Trotskí yrði í forsæti stjórnar landsins eftir að bolsévikar tóku völdin. Allan tímann frá 1917 til æviloka Leníns áttu þeir Trotskí traust og gott samstarf.

Ólafur talar um réttarhöldin sem fram fóru í Moskvu árin 1936 og 1938. Hann trúir því að þau hafi verið réttlát og dómsúrskurðir þeirra réttir. Rannsóknir margra heiðarlegra og vandaðra sagnfræðinga hafa ótvírætt leitt í ljós að þetta voru sýndarréttarhöld og saklaust fólk var þvingað til að játa á sig ótrúlegustu sakir.

Reyndar ætti ekki að þurfa að vitna til lærðra sagnfræðinga um Gúlagið. Í Rússlandi og víðar voru árið 1956 enn á lífi ótal margir sem þurftu að sitja í þrælkunarbúðum. Ekki voru þó síður margir sem þá vissu af nánum ættingjum og vinum sem saklausir höfðu verið teknir af lífi að tilhlutan Stalíns. Enn er árið 2020 margt fólk þar eystra sem veit sannleikann um málið þótt Ólafur kjósi að afneita honum. Þessi tilraun Ólafs til að halda því fram að fórnarlömb Stalíns hafi engin verið ber vott um að hann ber enga virðingu fyrir örlögum þeirra milljóna manna sem Stalín lét drepa. Þetta virðingarleysi Ólafs minnir vissulega á málflutning manna í Evrópu sem halda því fram að nasistar hafi alls ekki látið drepa neina gyðinga.

Höfundur þýddi bókina Byltingin svikin sem kom út á Íslandi nýlega.

Höf.: Erling Hansson