Óskar Valentín Grönholm fæddist 23. desember 1992. Hann lést 1. september 2020.
Foreldrar Óskars eru Einar Óskarsson og Lene Grönholm. Systir hans er Anna Soffía Grönholm og hálfsystir er Ólöf Steinunnardóttir.
Útför Óskars fór fram 9. september 2020.
Fallinn er sviplega frá einn af okkar bestu mönnum og er fráfall hans mikill missir fyrir fjölskyldu, vini og samstarfsfólk hans hjá Skógræktinni og víðar. Óskar Grönholm byrjaði ungur að vinna við gróðursetningu, grisjun og viðarvinnslu í Haukadalsskógi. Kom fljótlega í ljós að Óskar var ósérhlífinn, verklaginn, kröftugur, einstaklega stundvís og duglegur. Var hann fyrir vikið eftirsóttur í allri vinnu. Þess á milli vann hann að ýmsum verkefnum, s.s. handverki úr tré. Hann var keppnismaður sem skilaði honum landsliðssæti í íshokkí á yngri árum og hæstu einkunnum í námi, bæði smíðanámi og í námi við stjórnun skógarvéla. Óskar var fyrsti og eini útlærði skógarvélamaður landsins og lærði við Pohjois-Karjalan Ammattiopisto Valtimo-skólann í Norður-Karelíu í austanverðu Finnlandi og dúxaði þar eins og áður var nefnt. Óskar starfaði hjá skógarverktaka um árabil við grisjun og fellingu skóga um allt land á skógarvélum og sá um útkeyrslu. Vann Óskar oft við erfið skilyrði við þessa vinnu yfir háveturinn, en skilaði iðulega góðu verki. Stærstur hluti þess timburs sem fallið hefur til úr skógum landsins síðustu árin kom út úr þessari vinnu Óskars og eftir standa víða vöxtulegir, fallegir skógar. Óskar var rólegur að eðlisfari, vel gefinn og góður félagi. Það er með miklum söknuði að samstarfsfólk Óskars hjá Skógræktinni kveður hann og sendir innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.
Hreinn Óskarsson.