Uppbygging SA segja að leggja verði áherslu á atvinnuskapandi stefnu sem ýti undir hagvöxt til framtíðar. ASÍ minnir á að styrkja þurfi öryggisnetin.
Uppbygging SA segja að leggja verði áherslu á atvinnuskapandi stefnu sem ýti undir hagvöxt til framtíðar. ASÍ minnir á að styrkja þurfi öryggisnetin. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Stærstu heildarsamtök vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, taka hvor tveggja undir þær megináherslur sem lagðar eru í fjárlagafrumvarpi næsta árs og fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Stærstu heildarsamtök vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, taka hvor tveggja undir þær megináherslur sem lagðar eru í fjárlagafrumvarpi næsta árs og fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Þetta má lesa út úr nýjum umsögnum ASÍ og SA til fjárlaganefndar. Fjölmargt er þó einnig gagnrýnt í umsögnum þeirra.

SA segja jákvætt að sértækum og tímabundnum aðgerðum sé beitt til stuðnings fyrirtækjum og heimilum sem verða illa úti af völdum heimsfaraldursins en segja það vonbrigði að seinustu uppgangsár hafi ekki falið í sér meira aðhald í ríkisfjármálum en raun beri vitni.

ASÍ fagnar breyttum áherslum í frumvarpinu og áætluninni, sem bendi til þess að ákveðin viðhorfsbreyting hafi orðið hjá stjórnvöldum, sem nú stefni á að beita ríkisfjármálunum til að vinna gegn skaðlegum áhrifum kreppunnar. Samtökin leggja hins vegar áherslu á að ekki megi nota velferð og grunnþjónustuna „sem afkomubætandi aðgerð í ríkisfjármálum og að niðurgreiðsla skulda verði á forsendum kröftugrar viðspyrnu“. Pólitísk stefnumörkun þurfi að eiga sér stað um þessi atriði á næstu misserum.

ASÍ leggur höfðuáherslu á aðgerðir gegn atvinnuleysi. Lengja þurfi tímabil atvinnuleysistrygginga í 36 mánuði til að bregðast við fyrirséðri aukningu langtímaatvinnuleysis. Hækka verði grunnbætur atvinnuleysistrygginga í 95% af dagvinnutekjutryggingu. Tryggja þurfi að einstaklingar sem kláruðu þriggja mánaða tekjutengt tímabil áður en það var lengt í sex mánuði fái fulla tekjutengingu í sex mánuði og að hlutabætur verði virkt úrræði, minnst til 1. júní 2021.

Viðvarandi hallarekstur

SA lýsa áhyggjum af því að framreikningur ríkisfjármála, miðað við fyrirliggjandi hagspár, leiði að öðru óbreyttu til mikils og viðvarandi hallareksturs og skuldasöfnunar, sem gæti orðið ósjálfbær ef ekki er brugðist við. „Náist ekki markmið um að örva hagvöxt umfram spár á tímabilinu mun þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana á tekju- og/eða útgjaldahlið hins opinbera. Slíkar ráðstafanir hafa hins vegar ekki verið útfærðar nánar. Mikilvægt er að stuðla að framtíðarsýn í þessum efnum því ljóst er að þverpólitískt átak mun þurfa á næstu árum til að koma jafnvægi á ríkisrekstur,“ segir í umsögn SA.

Benda samtökin á að það stefni í viðvarandi hallarekstur og ósjálfbæra skuldasöfnun að öðru óbreyttu. Á næsta ári stefni í töluvert meiri halla á rekstri hins opinbera hér á landi en í nágrannalöndunum og útlit sé fyrir að kreppan muni hafa langvarandi áhrif á sameiginlega sjóði hér. Þetta komi ekki á óvart þegar litið er til þess að ferðaþjónustan er að verða fyrir verulegum búsifjum. SA setja spurningarmerki við þá forsendu þjóðhagsspár að hingað komi 900 þúsund erlendir ferðamenn á næsta ári. Útlit sé fyrir að sú forsenda sé of bjartsýn.

ASÍ fagnar því að boðaðar breytingar á tekjuskattskerfinu komi til framkvæmda en styrkja þurfi aðra tekjustofna og gagnrýnir áform um breytingar á fjármagnstekjuskatti. Skattalækkun um 2,1 milljarð til fjármagnseigenda eigi ekki að vera í forgangi við núverandi aðstæður. Mikilvægt verði að huga að styrkingu tekjustofna á komandi árum.

100 milljarðar í vexti

SA benda á að allt stefni í að skuldahlutfall ríkissjóðs í lok áætlunartímabilsins eftir fimm ár verði nálægt því sem var 2013-14. Vaxtakostnaður ríkissjóðs aukist um 100 milljarða. Þá segja SA hagræðingu nauðsynlega og benda á að skv. fjárlagafrumvarpinu verði áætlaðar launahækkanir ríkisstarfsmanna 14 milljarðar á næsta ári. Á sama tíma fjölgi opinberum störfum.

Í umsögn ASÍ segir að það sé jákvætt að framlög til nýsköpunar séu aukin með það að markmiði að stuðla að verðmætasköpun. Mikilvægt sé að hafa í huga að árangur af slíkri fjárfestingu komi fram á löngum tíma og leysi ekki þann bráðavanda sem nú ríkir á vinnumarkaði. Horfa þurfi einnig til fjárfestinga og aðgerða sem fjölga störfum til skemmri tíma.