[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson Freyr Bjarnason Sterkur jarðskjálfti varð á Reykjanesi í gær klukkan 13.43. Í fyrstu voru mælingar misvísandi en síðan kom í ljós að hann reyndist 5,6 stig. Er það stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesi síðan 2003.

Guðni Einarsson

Freyr Bjarnason

Sterkur jarðskjálfti varð á Reykjanesi í gær klukkan 13.43. Í fyrstu voru mælingar misvísandi en síðan kom í ljós að hann reyndist 5,6 stig. Er það stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesi síðan 2003.

Margir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið og fann fólk víða fyrir skjálftunum. Stærstu eftirskjálftar fóru yfir fjögur stig. Kom stóri skjálftinn fram á öllum skjálftamælum Veðurstofunnar, allt norður í Grímsey.

„Þetta er partur af atburðarás sem hefur staðið frá því í janúar og jafnvel síðan í desember. Flekaskilin sem liggja eftir Reykjanesi eru öll undir,“ sagði dr. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

„Það varð svolítið hlé á skjálftavirkninni en þetta er greinilega ekki búið. Það er alveg eins von á fleiri skjálftum og að þessi virkni breiðist svolítið út.“

Hann sagði ómögulegt að segja fyrir um það á þessu stigi hver framvindan yrði. Til þess þyrfti mælingar og ítarlegar rannsóknir sem ekki væru fyrir hendi.

Kvika undir Krýsuvík

Skjálftavirknin og landrisið vestan við Þorbjörn hjá Grindavík í fyrravetur er fólki í fersku minni. Svo varð mikil jarðskjálftavirkni úti á Reykjanestá, við Fagradalsfjall og nú nálægt Krýsuvík. Allt er þetta hluti af atburðarásinni.

„Flekaskilin sem liggja eftir Reykjanesskaganum hafa verið á sífelldu iði síðan í janúar og jafnvel síðan í desember. Partur af því er kvikuuppstreymi sem hefur orðið þrisvar á þessu tímabili við Þorbjörn. Nú í seinni tíð virðist það líka vera undir Krýsuvík. Þetta er umfangsmikil atburðarás og þessi jarðskjálftahrina nú er bara hluti af henni,“ sagði Páll.

Flekaskil Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans eru samfelld og liggja eftir Reykjaneshryggnum og ganga á land yst á Reykjanesi. Höfuðborgarsvæðið er á Norður-Ameríkuflekanum en Grindavík og Þorlákshöfn á Evrasíuflekanum svo dæmi séu tekin. Flekaskilin halda áfram austur eftir Reykjanesi og upp á Hellisheiði. Þar greinist þetta í sundur. Ein greinin fer austur um þar sem jarðskjálftabelti Suðurlands er. Önnur fer upp eftir vestara gosbeltinu um Þingvelli og Langjökul.

Landris áður mælst á svæðinu

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir GPS-mælingar benda til landriss við Krýsuvík.

Hún bendir á að landris hafi áður verið á þessu svæði enda sé þarna stórt jarðhitasvæði. Hún segir landrisið ekki eins mikið og var við fjallið Þorbjörn og að risið hafi ekki komið fram í gervitunglagreiningum. „Þetta er samt einhver minniháttar breyting sem við höfum verið að fylgjast með,“ segir Kristín.

Spurð hvort landrisið tengist jarðskjálftunum í gær segir hún það ekki vera óhugsandi en lítið sé vitað á þessari stundu.

„Það er einhvers konar óróleikatímabil sem þessi flekaskil sem ganga í gegnum Reykjanesskagann eru núna að ganga í gengum. Það er óvenju mikil skjálftavirkni og svo höfum við verið að sjá mjög skýr merki um innskotavirkni og óskýrari merki um einhverjar færslur,“ greinir hún frá og segir hliðrun vera að eiga sér stað á flekaskilunum, meiri en verið hefur undanfarin ár.

Hún nefnir að virknitímabilið sem núna er í gangi hafi byrjað í febrúar. Svona miklum virknitímabilum fylgi stórir skjálftar. Bendir hún á að á síðustu öld hafi tvö slík tímabil orðið og innan þeirra beggja hafi orðið skjálftar af stærðinni 6 við Brennisteinsfjöll á árunum 1929 og 1968. „Það er töluvert meiri orka í þeim heldur en 5,6,“ segir hún.

Spurð út í næstu skref segir hún að tilkynning hafi borist um óvenju mikla gaslykt og telur Kristín að stóri skjálftinn í gær hafi „rótað aðeins upp í jarðhitakerfinu“.

Skjálftaviðbrögð á samfélagsmiðlum

Holy moly, þessi jarðskjálfti var stór.

Ég hef áhyggjur af manninum sem hringdi inn á Rás 2 áðan og sagði að vídeóspólur hefðu dottið úr hillum hjá sér. Sennilega búinn að bíða á línunni frá 1995.

Það þurfti skjálfta upp á 5,7 til að gefa okkur 10 mínútna frí frá umræðu um nýju stjórnarskrána. Það er eitthvað.

Nýbúið að opna líkamsræktarstöðvarnar og fólk strax byrjað að skella lóðunum í gólfið. Finnst um allt höfuðborgarsvæðið. Smá tillitssemi takk.

Er ég þunnur eða var allt að hristast hjá öllum öðrum líka?

Skjálftinn svo sterkur að húsið okkar færðist um eitt húsnúmer.

Sat við skrifborð á fjórðu hæð og hélt eitt augnablik að húsið væri að hrynja.

Mér brá töluvert og ef ég hefði verið í stöðu Helga Hrafns hefði ég örugglega hlaupið líka.

Hvað er orðið um allar covid-fréttirnar?

Er í bíómyndatökum á gömlum spítala og gamalt læknadót hrundi úr hillum og þetta var eins og í hryllingsmynd.

Þetta var svakalegur skjálfti ... Ljósið í eldhúsinu sveiflast ennþá.

VÁÁÁ, þessi var rosalegur!

Er skylda að vera með grímu í jarðskjálfta?

Hvað þarf stóran skjálfta til að koma þingmönnum út fyrir fullt og allt?

Hér á sjöundu hæð hristist allt saman, það datt ekki mynd, en einn Svarthöfða-kallinn minn var nærri dottinn af hillunni sinni.