Öflugur jarðskjálfti í námunda við mesta þéttbýlið er áminning og ögrun

Stór jarðskjálfti varð í gær um kl. 14.00, 5,6 stig, og aðrir tilfinnanlegir, en nokkru minni, urðu í kjölfarið, sá stærsti þeirra 4,1 stig, og var upphafið um sjö kílómetra vestur af Kleifarvatni. Þeim fylgdi skjálftahrina sem mælitækin skráðu. Hefur reyndar verið rætt um skjálftahrinu um margra mánaða skeið, tengda óróa á Reykjanessvæðinu, og hafa skjálftar verið allöflugir, bæði í mars og ágúst sl. (5,2. og 4,6).

Stundum er í daglegu tali rætt um snarpa jarðskjálfta, þegar slíkir finnast greinilega vítt um og jafnvel alllangt frá upphafsstað. Mælingar og viðeigandi útreikningar sýna svo iðulega að slíkir skjálftar mælist 3,5-4,0 stig að stærð.

Skjálftinn sem varð skömmu fyrir klukkan 14.00 í gær var tilfinnanlegur og sagði leikmönnum strax að þar færi skjálfti í stærri kantinum.

Síriti Veðurstofu sýndi styrkinn vera um 5,7 stig og nákvæmari útreikningar sögðu hann 5,6 stig, en aukastafirnir segja meiri sögu en ætla mætti.

Þekktir og mjög umræddir skjálftar, Suðurlandsskjálftar, eru bundnir við það tiltekna landsvæði og með þekkta sögu, nánast frá því að land byggðist, og teljast vera 6,0 stig eða öflugri.

Slíkir stórskjálftar hafa orðið nýlega. Síðast 29. maí 2008 og þá 6,2 stig og þar áður tveir árið 2000, sá fyrri hinn 17. júní og mældist sá 6,5 og fjórum dögum síðar hinn sem mældist 6,6 stig. Tjón á mannvirkjum varð tilfinnanlegt.

Tugir skjálfta fundust á mælum í kjölfar stóra skjálftans í gær og almenningur á höfuðborgarsvæðinu nam allnokkra þeirra.

Skjálftinn í gær var nægilega öflugur til þess að minna flesta rækilega á það, hversu maðurinn má sín lítils þegar náttúruöflin láta til sín taka, þótt ekki séu fréttir um tjón, þótt vörur og annað smálegt hafi fallið úr hillum. Jarðskjálftar standa stutt (þótt hrinan sem fylgir geti staðið lengi, og erfitt virðist að meta hvort og þá hvers konar fyrirboði sé hér á ferð og hvað þá að tímasetja slíkt af nokkurri nákvæmni).

Á síðari tímum hefur mesta manntjón orðið í kjölfar jarðskjálfta undir hafsbotni, þegar flóðbylgja hefur risið í kjölfar þeirra og gengið á land á þéttbýlu svæði.

Ógurlegt manntjón vegna mikils skjálfta af því tagi og flóðbylgjunnar sem fylgdi varð um jólin 2004.

Hundruð þúsunda manna fórust.

Enn skemmra er að minnast risaskjálfta (níu stig) úti fyrir ströndum Japans 11. mars 2004. Í aðdraganda hans hafði verið skjálftahrina og mældist stærsti einstaki skjálfti í henni vera sjö stig hinn 9. mars.

Eftir stóra skjálftann sjálfan (níu stig) reis rétt tæplega 30 metra há flóðbylgja sem gekk lengst 10 kílómetra á land upp. Stórkostlegt tjón varð og talið er að nærri 28 þúsund manneskjur hafi týnt lífi. (Staðfest dánartala er um 12.000, en 15.500 er saknað.)

Minnisstæð er eyðilegging tveggja hluta mikils kjarnorkuvers, og að milljónir manna urðu án vatns og rafmagns um langa hríð og þjónusta af öllu tagi var að sama skapi takmörkuð og mjög umhendis var að koma við björgunaraðgerðum, svo varlega sé talað. Þar sem flóðbylgjan skall á landinu hafði verið búið í haginn gagnvart flóði, en það breytti miklu þegar við var að eiga slíkt magn og ógnarafl og fyrirvarinn nánast enginn.