Sautján styrkjum var í vikunni úthlutað úr Hönnunarsjóði, til ólíkra verkefna á vegum hönnunar og arkitektúrs en alls bárust 122 umsóknir um 230 milljónir.
Sjálfbærni, endurnýting, stafrænar lausnir, nýsköpun og þróun eru rauður þráður meðal verkefna styrkþega að þessu sinni. Hæsta styrkinn í þessari úthlutun hlutu Flétta hönnunarstofa og Kristín Sigurðardóttir hönnuður fyrir „Íslenska glerið, möguleikar á endurvinnslu steinullar í nýtt hráefni“. Verkefnið hlaut tvær milljónir króna í rannsóknar- og þróunarstyrk.
Meðal annarra sem hlutu rannsóknar og þróunarstyrki má nefna að Innundir ehf. hlaut 1,5 milljónir króna fyrir hönnun á umhverfisvænni túrvörulínu; Sigrún Halla Unnarsdóttir hlaut 1.250 þúsund kr. fyrir verkefnið „Þróun textíls úr íslenskum hampi“; Björn Loki Björnsson hlaut eina milljón kr. fyrir „Skapandi gámahverfi í Gufunesi“; Raphaël Costes hlaut einnig eina milljón fyrir „Steinefnarannsóknir“ – rannsóknir á möguleikum á að vinna keramikefni á Íslandi og frá Íslandi; og Fanny Sissoko hlaut 950 þúsund kr. fyrir borðspilið Beygju sem hjálpar fólki að læra íslensku.
Meðal verkefnastyrkja að þessu sinni má nefna að Hans Jóhannsson hlaut 1,5 milljónir kr. fyrir „Othar – stafræn strokhljóðfæri“. Það er röð rafhljóðfæra, strokinna og plokkaðra, sem nýta stafræna földun til að líkja eftir raunverulegum hljóðfærum í hæsta gæðaflokki. Þá hlaut Theodóra Alfreðsdóttir eina milljón kr. fyrir „Sería tvö – Subterranean Formation“ – verkefni þar sem keramikmunir eru búnir til og brenndir í jörðu með nýrri aðferð. Jón Helgi Hólmgeirsson/Genki Instruments hlutu einng eina milljón fyrir „Snjallhringur í daglegu lífi“ en það snýst um tónlistarhringinn Wave; og Unnar Ari Baldvinsson hlaut líka eina milljón kr. fyrir „Sundform“, stórt og fjölbreytilegt verkefni sem fjallar myndrænt um sundlaugar á Íslandi.