Oddur Þórðarson
Freyr Bjarnason
Jarðskjálfti upp á 5,6 varð laust fyrir klukkan tvö í gær í grennd við Núpshlíðarháls, um fimm kílómetra vestur af Seltúni á Reykjanesskaga. Skjálftinn er sá stærsti sem orðið hefur á Reykjanesskaga í sautján ár. Fannst hann vel á öllu suðvesturhorninu og alla leið vestur á Ísafjörð. Ekki hefur frést af manntjóni eða meiriháttar skemmdum, en hlutir hrundu úr hillum verslana í Reykjavík og sprungur gliðnuðu í húsakynnum flugskóla Keilis á Ásbrú, svo dæmi séu nefnd. Fjöldi snarpra eftirskjálfta fannst víða á Suðvesturlandi fram eftir degi og undir kvöld, einhverjir þeirra yfir fjórum stigum að styrkleika. Eldfjallafræðingar segja að skjálftanum muni líklega ekki fylgja nein eldvirkni, en mikil skjálftavirkni hefur verið á sunnanverðum Reykjanesskaga undanfarið.
Væri loks farið að gjósa
Óskar Sævarsson er landvörður á Reykjanesskaga og varð skjálftans heldur betur var. Hann var við þrif á salernisaðstöðu ferðamanna í Seltúni, nánast við skjálftamiðjuna, og segir hann skjálftann vera þann mesta sem hann hafi fundið.„Ég er þarna að þrífa salernin þegar þetta ríður yfir. Ég hafði með mér brúsa af frostlegi til þess að gera lagnirnar klárar fyrir veturinn og brúsinn kastaðist alveg í vegginn þegar þetta byrjaði. Ég varð að halda mér í til að detta ekki og hljóp út á pallinn fyrir framan salernin. Þá sé ég þegar hrynur svona úr Hattinum, fjalli hérna austan við Hveragilið, með tilheyrandi hávaða. Það drundi eiginlega í öllu hérna í þó nokkuð margar sekúndur á eftir. Þá hvarflaði að manni að það væri loks farið að gjósa,“ segir Óskar í samtali við Morgunblaðið.
Hefði getað farið mjög illa
Jón Svavar Jósefsson og Halldóra Björk Friðjónsdóttir voru við göngu á Keili, skammt frá skjálftamiðjunni, þegar skjálftinn reið yfir. Þau áttu fótum fjör að launa þegar grjóthnullungar fóru að renna niður hlíðina. „Það hefði getað farið mjög illa ef maður hefði fengið stein á sig. Það er algjör lukka að það skuli ekki hafa gerst,“ sagði Jón Svavar við mbl.is í gærkvöldi.Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að skjálftavirkni á þessu svæði sé hvergi nærri hætt og ómögulegt að segja til um hvenær henni ljúki.