Sandfangari Til að verja byggðina í Vík í Mýrdal hafa verið gerðir þar sandfangarar sem ná talsvert í sjó fram.
Sandfangari Til að verja byggðina í Vík í Mýrdal hafa verið gerðir þar sandfangarar sem ná talsvert í sjó fram. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að efnistaka og forvinnsla á sandi í fjörunni um tvo kílómetra austan Víkur í Mýrdal skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að efnistaka og forvinnsla á sandi í fjörunni um tvo kílómetra austan Víkur í Mýrdal skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og geti haft áhrif á landbrot. Fyrirhuguð sé efnistaka úr fjöru nálægt þéttbýli þar sem landbrot hafi verið viðvarandi vandamál og ógnað byggð. Áformuð efnistaka sé líkleg til að draga úr stöðugleika fjörunnar og flýta landrofi, segir í ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Til sandblásturs í Þýskalandi

Það er fyrirtækið Lavaconcept sem hyggst vinna sand úr fjörunni austan Víkur. Efnið á að nota til sandblásturs í Þýskalandi og verður tiltekin kornastærð nýtt. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins er um

prufuverkefni til næstu fimm ára ræða. Ef vel gangi verði efnistaka aukin. Á þessum fimm árum er fyrirhugað að vinna 145 þúsund rúmmetra eða um 29 þúsund rúmmetra á ári.

Í greinargerð Skipulagsstofnunar segir að sjávarrof hafi lengi ógnað byggð í Vík og þar hafi verið byggðir sérstakir sandfangarar til að verja þéttbýlið fyrir rofi. Þá segir að framkvæmdin muni draga úr gildi strandlengjunnar sem útivistarsvæðis í nágrenni efnistökusvæðis þar sem verði miklir flutningar á sandi úr fjöru og upp á vinnslusvæði með tilheyrandi umferð vinnuvéla og vörubíla.

Ólík sjónarmið

Í skýrslunni eru sjónarmið Lavaconcept og Vegagerðarinnar um landrof reifuð. Í gögnum frá Lavaconcept kemur fram að efnistaka fari fram þar sem efni endurnýist sökum stöðugs framburðar jökuláa og hreyfingar á strandlengjunni. Efnistakan sé einungis brot af því magni sem færist til á ströndinni á ári. Telur framkvæmdaraðili litlar líkur á auknu landrofi, sem hefði annars ekki átt sér stað.

Vegagerðin segir meðal annars að til skemmri tíma litið sé ekki hægt að líta framhjá því að landrof sé til staðar og að efnistaka auki rof strandarinnar. Vitnað er til skýrslu frá 1994 um árlegt landrof og segir að náttúrulegt landrof gæti aukist um 70% með framkvæmdinni. Vegagerðin leggur áherslu á að um afar viðkvæmt svæði sé að ræða og fá strandsvæði í heiminum séu eins útsett fyrir öldu og suðurströnd Íslands.

Hvati til að verja ströndina

Framkvæmdaraðili segir að vel verði fylgst með fjörunni og landbroti. Áformuð framkvæmd sé til næstu fimm ára og ef hún reynist arðbær muni áframhaldandi efnistaka fara í mat á umhverfisáhrifum þar sem reynsla af áhrifum efnistökunnar og vöktun muni nýtast. Fyrrnefnd 70% muni hverfa hvort sem efnistaka fari fram eða ekki og með efnistökunni sé verið að búa til alvöru hvata til að verja strandlengjuna.

Í skýrslunni kemur fram að framkvæmdaraðili áætli að flytja þurfi 121 rúmmetra af sandi á hverjum virkum degi frá efnisvinnslusvæði til Þorlákshafnar. Sé miðað við að hver vörubíll taki 10-16 rúmmetra af efni í ferð megi gera ráð fyrir að framkvæmdinni fylgi 15-24 ferðir vörubíla á dag um þjóðvegi frá Vík til Þorlákshafnar.