Brynjar Örn Valsson fæddist í Reykjavík 2. september 1975. Hann varð bráðkvaddur 26. september 2020. Foreldrar hans eru Jóhanna Agnarsdóttir og Valur Benjamín Bragason.

Brynjar var kvæntur Mai Thi Nguyen.

Hann lét eftir sig son; Smára Arnfjörð Brynjarsson, f. 1. júlí 2000, móðir hans er Ragnheiður Smáradóttir. Smári er nemi í Háskólanum í Reykjavík.

Brynjar ólst upp á Akranesi til 11 ára aldurs en flutti þá til Reykjavíkur. Hann starfaði við garðyrkju alla tíð og rak fyrirtæki á því sviði.

Brynjar átti áhugamál sem hann þreyttist aldrei á að sinna, en mótorhjól, bílar og viðgerðir á þeim, auk þess að bruna um og stússa í kringum tækin, voru hans hjartans viðfangsefni. Sonur hans ólst upp með áhugamálum föðurins og áttu þeir feðgar ófár stundir saman við að skoða og laga, aka um og njóta saman.

Útför var í kyrrþey 6. október 2020.

Kæri stóri bróðir.

Okkur þótti leiðinlegt að vera ekki hjá þér á kveðjustund. En þú mátt vita að í anda vorum við hjá þér. Takk, er fátæklegt orð, samt viljum við nota tækifærið og þakka þér fyrir að vera hluti af lífi okkar. Þakka þér fyrir þá viðleitni þína til að vera í sambandi við okkur; að leggja þig alltaf fram um að vera með okkur í hvert skipti sem þú sást tækifæri til þess. Þú passaðir alltaf upp á að við vissum að þér fannst afar vænt um okkur og það er eitthvað sem við getum aldrei þakkað þér nóg fyrir.

Þin verður sárt saknað.

Nánustu aðstandendum heima á Íslandi vottum við dýpstu samúð. Smára þínum sem var þitt líf og hjarta og þitt stoltasta ævistarf vottum við samúð okkar, Það var yndislegt að heyra þig tala um hann og finna gleði þína og þakklæti fyrir að eiga þinn dýrmæta son.

Elsku bróðir við sjáumst.

Við elskum þig!

Benjamín Guðni og Jóhann.

Það eina sem við vitum fyrir víst, er að við fæðumst og deyjum. Valið er ekki okkar, hvar, hvenær né hvers við erum. Sumir fæðast með silfurskeið í munni, en öll erum við einstök og og það er ekki alltaf rétt gefið.

Ég læt ósagt um skeið í munni Brynjars, en veit að hún var ekki úr silfri. Almættið sparaði hin vegar ekki vöggugjafirnar og hann kunni flestum mönnum fremur að fara með þær.

Hann hafði sterka skynjun, sem leiddi hann áfram á lífsgöngunni. Hann lifði hratt, óttalaus og spilaði djarft. Snemma varð honum ljóst að hann bar ábyrgð á eigin lífi og yrði að bjarga sér sjálfur.

Brynjar átti ekki sterkt bakland og enginn gekk undir honum. Hann var ekki gallalaus og gerði mistök, en hann kunni að biðjast afsökunar og að þakka fyrir sig.

Líf okkar tvinnaðist saman þegar dóttir mín kynntist honum barnung og eignuðust son. Þannig áttum við bæði demant; son hans Smára. Hann gaf honum gen; ég ól hann lengstum upp.

Fyrstu tíu til tólf árin gekk á ýmsu. En fyrir fimm sex árum urðu vatnaskil. Ljóst var að Binni var ekki samur. Hann hafði endurmetið líf sitt og sýndi bæði með verkum sínum og í orðum að eitthvað gott og fallegt, sem áður var hulið sýndi sig, bæði í orðum hans og verkum. Þannig byggði hann upp traust sem síðan hefur ekki brugðist. Við grófum stríðsöxina og ég eignaðist í honum vin.

Samskipti hans við Smára urðu nánari og það leyndi sér ekki hve vænt honum þótti um son sinn. Hann gerði mér margan greiðan og ég honum. Eftir því sem leið á var hann auðfús gestur á heimili okkar Magnúsar, spjallaði og drakk kaffi, var hjá okkur á aðfangadagskvöld og við fundum hve hann hafði í raun stórt hjarta og vildi vel.

Það hafði aldrei leynt sér hve góðum gáfum hann var gæddur; ótrúlega skarpur, klár og útsjónarsamur; var snöggur að sjá lausn á vandamálum og nýtti sér það vel.

Barnabörnum mínum var hann einstaklega góður og átti farsæl samskipti við dætur mínar. Naut þess að ver með í leik og hafði unun af að gera eitthvað skemmtilegt með þeim.

Húmor hans var einstakur og hann sá einatt spaugilegu hliðar mannlífsins. Snöggur að hugsa og var ákaflega stríðinn. Í stríðnishlutverkinu missti hann ekki andlitið og lék án þess að blikna. Þegar tvær grímur fóru að renna á fólk naut hann þess að bæta vel í og ganga fram af fórnarlömbum stríðni hans. Þegar gríman féll brustu allir í hlátur og honum var fyrirgefið.

Hápunktur samveru okkar var þegar Smári útskrifaðist úr menntaskóla í vor með frábærum árangri. Í þeim fagnaði upplifði ég Binna dálítið feiminn. Og vissi ekki alveg hvernig hann átti að vera. Mér þótti undurvænt um að upplifa þá gleði hans og stolt.

Þeir Smári voru hver öðrum mikill styrkur og á milli þeirra ríkti virðingu og vinátta. Þeir áttu sameiginlegt áhugamál og sinntu þeim sem jafningjar.

Hann hélt ótrauður áfram að endurskoða enn frekar líf sitt og bæta. Það er því mikill harmur að öllum kveðinn að honum lánast ekki að ná þangað sem hann stefndi.

Smára er harmurinn mestur, en minningin um föður og vin eru honum dýrmætar

Eiginkonu, fjölskyldu og vinum votta ég mína dýpstu samúð.

Magnús E. Finnsson og Bergljót Davíðsdóttir.

Lífsleið Brynjars Valssonar, sem ég minnist hér með mikilli hlýju, var framan af ganga um skörðóttan og grýttan veg, veg sem getur verið erfiður yfirferðar fyrir barn sem á sínu ferðalagi uppvaxtar og þroska skrámast og merst. Gleðin sem barn þráir að upplifa og sú von um að fá ást, athygli og umhyggju til að yfirvinna sársauka ástleysis dofnar oft og hverfur.

Baráttuþrekið til að fást við alla draugana sem fylgja hverju fótmáli gefur von um betra líf og er sönnun þess að hið góða sigri hið vonda. Lífið heldur áfram, tíminn líður, jörðin snýst um sig sjálfa og ekkert fær því breytt.

Dagur rís og dagur hnígur, nóttin hellist yfir og þrautin að lifa hana af verður að vana. Nýr dagur rís með sömu sorginni sem er fargið sem gróf sig inn í viðkvæma sál; fargið sem vegur meira og meira eftir því sem hnötturinn snýst oftar.

En Binni var töffari og hörkutól sem jafnan skoraði vandann á hólm og hafði oftast betur Og þrátt fyrir að hann hafi valið að taka krók á leið sína og villtist stundum af leið og missteig sig oftar en hann vildi, tókst honum alltaf að standa uppréttur, að komast á lappirnar og bæta þeim sem urðu sárir. Hann var ótrúlega útsjónarsamur, skarpgreindur og átti lítið sem ekkert bakland. En fyrir hans innbyggðu hæfileika og yfirsýn tókst honum að koma auga á tækifæri sem aðrir sáu ekki.

Þegar Smári, augasteinninn hans, sem hann var svo stoltur af, óx úr grasi og samband þeir treystist, þá tók hann snúning og horfði fram á við. Það var hans heitasta ósk að sjá Smára blómstra og byggja upp aukna gagnkvæma virðingu þeirra á milli. Vinátta þeirra var djúp og einlæg og notuðu þeir hvert tækifæri sem gafst til að dunda við áhugamálin og gera eitthvað skemmtilegt saman. Ég kynntist Binna þegar hann og Ragga eignuðust Smára, sem kom inn í þeirra líf eins og sólargeisli og hlotnaðist að fá í vöggugjöf það besta frá báðum.

Hann er sannur, einlægur og gegnumgóð sál, sem erfði líka þrjósku þeirra. Það er ekki síst kostur til að komast í gegnum erfitt líf og standa alltaf uppréttur.

Með þessum orðum langar mig að minnast manns sem féll frá allt of ungur, sem ég fékk að kynnast og var alltaf hlýtt til og sá það sem hann hafði upp á að bjóða, hlýju, manngæsku og stoltur faðir einkasonarins Smára sem hann var góður faðir og mikill vinur. Ég votta syni hans, Smára, foreldrum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð. Með auðmýkt og virðingu,

Jakobína Davíðsdóttir.