Fyrsti vitinn á Akranesi. Hér er einstök ljósmynd sem Pike Ward tók á sínu fyrsta ári á Íslandi, 1893, þ.e. þegar hann var að hefja fiskikaup sín af Akurnesingum. Á þessum teig eða hæð var reistur staur, 20 álna langur, og á hann var sett lugt sem í var 14 línu brennari; þetta var árið 1891. Líklega hefur verið spegill í ljóskerinu til að auka ljósmálið. Lugtin var dregin upp og niður. Á henni var kveikt þegar dimma tók og höfðu sjómenn mikil og góð not af henni. Þessi viti stóð þar til „Gamli vitinn“ á Suðurflösinni var tekinn í gagnið árið 1918. Þessi tegund vita gekk undir nafninu vörðuviti eða fiskimannaviti. Bærinn á myndinni, Teigakot, var síðasti uppistandandi torfbærinn á Akranesi, rifinn 1943. Þessa býlis er getið í heimildum frá 17. öld.
Fyrsti vitinn á Akranesi. Hér er einstök ljósmynd sem Pike Ward tók á sínu fyrsta ári á Íslandi, 1893, þ.e. þegar hann var að hefja fiskikaup sín af Akurnesingum. Á þessum teig eða hæð var reistur staur, 20 álna langur, og á hann var sett lugt sem í var 14 línu brennari; þetta var árið 1891. Líklega hefur verið spegill í ljóskerinu til að auka ljósmálið. Lugtin var dregin upp og niður. Á henni var kveikt þegar dimma tók og höfðu sjómenn mikil og góð not af henni. Þessi viti stóð þar til „Gamli vitinn“ á Suðurflösinni var tekinn í gagnið árið 1918. Þessi tegund vita gekk undir nafninu vörðuviti eða fiskimannaviti. Bærinn á myndinni, Teigakot, var síðasti uppistandandi torfbærinn á Akranesi, rifinn 1943. Þessa býlis er getið í heimildum frá 17. öld.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásmund Ólafsson: "Frumkvöðull í fiskverkun og ljósmyndun á Íslandi."

Pike Ward (1856-1937) var fiskikaupmaður frá Devon á Suðvestur-Englandi. Hann fæddist í fiskibænum Teignmouth sem liggur við mynni árinnar Teign, u.þ.b. 19 km suður af borginni Exeter. Íbúar Teignmouth eru í dag rúmlega 15.000 talsins. Pike Ward var veittur stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1936, til viðurkenningar fyrir framlag sitt við eflingu á fiskiðnaði og þar af leiðandi efnahag Íslands um áratugaskeið, eða allt frá 1893 til 1915. Viðvera hans á Íslandi var yfirleitt frá vori til hausts ár hvert, á þessu tuttugu og tveggja ára tímabili, og vegna aðdáunar hans á landi og þjóð var það hans einlægur vilji að tala íslensku eftir því sem best hann gat.

Nýjung í fiskverkun

Pike Ward var frumkvöðull á ýmsum sviðum hér á landi, og vildi hann aðstoða við frelsisbaráttuna sem var öflug um þessar mundir. Eignaðist hann marga góða vini hér á Íslandi á þessum árum. Þá vissi hann að ef hann gæti skipt milliliðalaust við íslenska sjómenn gætu bæði hann og þeir hagnast betur á viðskiptunum. Hann hafði bundist vináttuböndum við ljósmyndarann og bóksalann Sigfús Eymundsson í Reykjavík, og strax árið 1893 reyndi hann að eiga viðskipti við fiskimenn á Akranesi með Sigfús sem milligöngumann. Kaupmenn í Reykjavík reyndu að hafa áhrif á þessi viðskipti og réðu sjómönnum á Akranesi frá þessum viðskiptum; en tilboð Pikes Wards um kaup á undirmálsfiski var of gott til að hafna því, enda gafst tilraunin vel og var viðhöfð víða um land eftir þessa frumraun á Akranesi. Fiskviðskipti Wards jukust og voru síðar bundin nokkrum stöðum svo sem Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Bakkafirði, Vopnafirði, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Eskifirði og Berufirði, auk Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Nýir greiðsluhættir

Þar sem hvergi voru vegir milli héraða á þessum árum ferðaðist Ward milli staða á hestum eða minni bátum. Hvar sem hann eða umboðsmenn hans komu setti hann skilyrði um hvernig fiskurinn skyldi vera, hve stór og hvernig verkaður. Hann vildi aðeins smáfisk (undir 30 cm langan), þ.e. bútung, sem var saltaður, óflattur. Hér var um að ræða smáfisk sem var saltaður með gæðasalti í 10 daga, síðan þveginn, pressaður og léttþurrkaður utanhúss. Ward kenndi mönnum réttu handtökin, en þessi fiskur varð síðar þekktur á erlendum mörkuðum sem „Wardfiskur“. Þetta var ný framleiðsla fyrir nýjan markað, nokkuð sem ekki var stjórnað af dönskum kaupmönnum, og það sem meira var; greiðslan fór öll fram með peningum en ekki vöruskiptum eins og áður hafði viðgengist. Um þessi peningaviðskipti má nefna sem dæmi að þegar bankinn í Reykjavík varð uppiskroppa með danska mynt árið 1896, þá greiddi Ward með gulli, og frá og með því ári var hann jafnan með gull með sér í leðurpoka á ferðum sínum, eða allt þar til Íslandsbanki hóf útgáfu bankaseðla árið 1904.

Aukinn útflutningur

Um miðja 19. öld voru aðeins um 30 tonn flutt út af íslenskum saltfiski til Bretlands ár hvert, en árið 1906 keypti Ward einn u.þ.b. 500 tonn á ári, og hann var ekki sá eini á Bretlandi, heldur flutti skoska félagið Copeland & Berrie töluvert magn af fiski til Bretlands og greiddu þeir einnig með peningum. Ekki þarf að taka fram hve miklar framfarir voru hér á ferðinni frá því sem áður var. Þessi árangur á Akranesi varð til þess að Pike Ward hætti ekki aðeins við heimferðina til Englands, heldur ílentist hér og byrjaði á miklum fiskikaupum sem hann hélt áfram lengi síðan í Hafnarfirði og víðar.

Talandi um Hafnarfjörð, þá má geta þess að Pike Ward varð fyrstur einstaklinga til að gera út togara frá íslenskri höfn, þ.e. togarann UTOPIA frá Hafnarfirði. Sú útgerð var áhættuspil sem af ýmsum ástæðum bar ekki árangur, og var þeirri útgerð því sjálfhætt. Skömmu síðar, þ.e. 1905, kom fyrsti íslenski togarinn, COOT, en hann var einnig gerður út frá Hafnarfirði.

Saga Akraness og Ólafur B. Björnsson

Ólafur B. Björnsson, ritari sögu Akraness, getur atburða þessara að nokkru í fyrra bindi sínu í Sögu Akraness árið 1957 og segir m.a.: „Hér á Akranesi mun verkun og hirðing aflans yfir höfuð hafa verið eins og í öðrum verstöðvum á hverjum tíma. Þó má til gamans segja hér frá einu atviki, þar sem Akurnesingar ásamt einum útlendum manni urðu frumkvöðlar að nokkurri nýjung í saltfiskverkuninni, sem reyndist haldgóð og happadrjúg, og hefur haldist meira og minna æ síðan fram að síðasta stríði. Vorið 1893 kom hingað til lands enskur maður, Pike Ward. Erindi hans var að gera hér mikil kaup á undirmálsfiski (labra) og fá menn til að taka upp þessa nýbreytni í verkun. Fyrst átti hann tal um þetta við Reykvíkinga, en fékk þar daufar undirtektir. Menn höfðu yfirleitt litla trú á því að hálfþurrkaður smáfiskur mundi leggja undir sig heimsmarkaðinn, og þá enn síður að slík verslun yrði til frambúðar. Ekki virðist heldur sem kaupmenn hafi haft neinar óskir í þessa átt. Ward vildi þó ekki gefast upp við þetta áform sitt fyrr en í fulla hnefana, svo viss var hann um ágæti þessarar nýju verkunaraðferðar. Þegar hann var því búinn að fá hryggbrot hjá Reykvíkingum fór hann upp á Akranes til þess að eiga tal við útgerðarmenn þar um þessa verslun. Boðaði hann til fundar í þessu skyni og komu þar margir formenn. En fundurinn bar engan árangur, og var Ward mjög gramur yfir þessum leikslokum. Hann sagðist með engu móti skilja þennan þráa og skilningsleysi, þar sem vitað væri að kaupmenn greiddu þennan fisk litlu verði og vildu helst ekki kaupa hann. Hér var líka um mikinn herslumun að ræða frá glerhörkuversluninni til „Spaníólans“. Nú var Ward ákveðinn að hætta við frekari tilraunir í þessu máli, og tókst á hendur skemmtiferð austur að Geysi, meðan hann beið eftir skipsferð heim.

Eftir þennan fund hafa Akurnesingar vaknað í þessu máli og séð sig um hönd, því þeir sendu menn gagngert suður til þess að sitja fyrir Ward er hann kæmi úr austanförinni. Aðalsendimaðurinn var Níels Magnússon í Lambhúsum, sem kom með þau skilaboð frá Akurnesingum, að flestir þeirra myndu selja honum smáfiskinn og verka hann eftir hans eigin fyrirsögn. Þetta varð til þess að Ward hætti ekki aðeins við heimferðina, heldur ílentist hér og byrjaði á miklum fiskkaupum, sem hann hélt áfram lengi síðan í Hafnarfirði. Þar gerði hann og síðar út lítinn togara. Frumkvæði Wards, með endanlegri aðstoð Akurnesinga (um þessa nýju verkunaraðferð á smáum illseljanlegum fiski), varð þannig vel þegin og kom Íslendingum í heild sinni að miklu gagni og markar spor í íslenskri fisksölustarfsemi. Verkun þessi var kennd við Ward og kölluð „Wardfiskur“ eða „Wardverkun“. Þetta var smáfiskur frá 10-16“. Hann var ekki flattur afturúr, heldur skorið út úr fyrir aftan gotrauf. Þessi fiskur var aðeins „visaður“ (þ.e. siginn).“

Ljósmyndir Pikes Wards, safngripasöfnun og sögubrot (dagbækur)

Ward var einnig áhugaljósmyndari og tók myndir af daglegu lífi á fáförnum slóðum áður en Íslendingar hófu almennt að taka myndir. Í því felst sérstaða mynda hans. Heildarsafn ljósmynda Wards frá Íslandi, bæði í úrklippubókunum, albúmi og lausum stereóskópmyndum, telur rúmlega 1.500 myndir. Langdvalir Wards hér á landi leiddu til þess að hann hóf að safna margvíslegum gripum sem voru einkennandi fyrir Ísland. Alls eru nú 379 gripir úr hans eigu í vörslu Þjóðminjasafns Íslands, og var úrval ljósmynda, úrklippa og gripa úr fórum Pikes Wards til sýnis í myndasal safnsins í lok síðasta árs. M.a. voru þarna ljósmyndir sem teknar voru á Akranesi árið 1893, og mega þær teljast einstakar.

Sýning á myndum og gripum Wards var einnig haldin í Teignmouth á vegum Íslendinga árið 2017 til heiðurs þessum Íslandsvini. Einnig var gefin út bókin „The Adventures of Pike Ward“ árið 2018, en sú dagbók snerist aðallega um Ísland, eins og raunar allt hans líf gerði.

Heimildir: The Icelandic Adventures of Pike Ward. Saga Akraness eftir Ólaf B. Björnsson, Þjóðminjasafn Íslands, Ljósmyndasafn Akraness o.fl.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi.

Höf.: Ásmund Ólafsson