Bíó Mikil landkynning í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sem eiga sér oft líftíma svo árum skiptir, segir Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth.
Bíó Mikil landkynning í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sem eiga sér oft líftíma svo árum skiptir, segir Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Ísland er í aldrei betri stöðu sem nú að ná sterkri stöðu í kvikmyndagerð. Mörg stór verkefni eru á teikniborðinu og þess er beðið að kórónuveirunni sloti svo hægt verði að hefjast handa,“ segir Leifur B. Dagfinnsson, framkvæmdastjóri Truenorth. „Myndmálið er sterkt og mikil landkynning felst í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sem eiga sér oft líftíma svo árum skiptir. Auknar endurgreiðslur á kostnaði sem til fellur við gerð kvikmynda hér á landi, úr fjórðungi í 35%, er því nokkuð sem atvinnugreinin kallar eftir.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ísland er í aldrei betri stöðu sem nú að ná sterkri stöðu í kvikmyndagerð. Mörg stór verkefni eru á teikniborðinu og þess er beðið að kórónuveirunni sloti svo hægt verði að hefjast handa,“ segir Leifur B. Dagfinnsson, framkvæmdastjóri Truenorth. „Myndmálið er sterkt og mikil landkynning felst í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sem eiga sér oft líftíma svo árum skiptir. Auknar endurgreiðslur á kostnaði sem til fellur við gerð kvikmynda hér á landi, úr fjórðungi í 35%, er því nokkuð sem atvinnugreinin kallar eftir.“

Mörg verkefni sem íslenskt kvikmyndagerðarfólk var með í undirbúningi eru nú í biðstöðu. „Nokkrum hefur þó verið hægt að sinna og er gangurinn sá að leikarar og tæknifólk kemur að utan eftir sýnatökur vegna kórónuveirunnar. Hefur aðsetur á hótelum og fer ekki annað en á staði sem starfinu tengist,“ segir Leifur. Þarna tiltekur hann verkefni sem Truenorth vann fyrir National Geographic fyrr á þessu ári. Þar var bandaríska stórleikaranum Will Smith fylgt eftir á Norður- og Austurlandi, meðal annars við Stuðlagil og á sunnanverðum Vatnajökli.

Eyland, Sturlunga og Stuðlagil

Efni sem hægt er á nálgast á hinum ýmsu efnisveitum myndmáls er óþrjótandi. Þetta skapar fyrirtækjum í kvikmyndagerð verkefni og þegar verulegir fjármunir eru í spilinu gerast stórir hlutir.

„Við höfum fundið vaxandi áhuga á íslenski framleiðslu svo sem þáttaröðinni The Valhalla Murders , sem á íslensku heitir Brot , og var samstarfsverkefni okkar með Netflix. Fleiri íslensk fyrirtæki eru að vinna með streymisveitum og hér á bæ eru spennandi verkefni í skoðun. Framleiðsla á þáttum byggðum á Sturlungubókum Einars Kárasonar er eitt af því, og ég hætti ekki í bransanum fyrr en verkefnið kemst í framkvæmd. Stefnan er alveg skýr. Þættir byggðir á þríleiknum Dimmu , Drungi , Mistur ; skáldsögum Ragnars Jónassonar eru í undirbúningi og verða unnir með steymisveitu sem sjónvarpsstöðin CBS í Bandaríkjunum er að setja á laggirnar. Á næsta ári vænti ég að byrjaði verði að filma þætti byggða á Eylandi , skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur. Í því verkefnin erum við í samstarfi við öflug fyrirtæki í Bretlandi. “

Fjárfesting samfélags

Þegar unnið er að stórum kvikmyndaverkefnum á Íslandi fylgir þeim gjarnan 200-400 manna hópur og hvert starf á tökustað getur skapað tvö önnur í nærsamfélaginu. Í tengslum við þetta koma háar upphæðir inn í hagkerfið, sem eru í veltunni nokkra mánuði.

„Að efla þennan iðnað skiptir miklu máli og endurgreiðslurnar eru ekki styrkur, heldur góð fjárfesting fyrir samfélagið allt," segir Leifur. „Flestir sem einhverju ráða eru jákvæðir fyrir því að endurgreiðslur verði auknar – og skilja að kvikmyndaiðnaðurinn er alvöru atvinnugrein. Í kvikmyndastefnu til ársins 2030 sem stjórnvöld hafa kynnt er margt gott lagt til og skilningur á greininni og hagsmunum hennar er augljós.“

Gaman að segja sögur

Kvikmyndafélagið Truenorth var stofnað árið 2003 og verkefnin á þeim tíma eru mörg og fjölbreytt. Meginstarfsemin er á Íslandi, útstöðvar eru í Noregi, Finnlandi, Kanaríeyjum og önnur verkefnin víða um lönd. „Mér finnst gaman að segja sögur,“ segir Leifur sem starfað hefur í kvikmyndageiranum í um þrjátíu ár og sinnt mörgu áhugaverðu. „Fyrsta stórverkefnið sem við hjá Truenorth fengum var svo Flags of Our Fathers , stórmyndin með Clint Eastwood um lokadaga síðari heimsstyrjaldar austur í Kyrrahafi. Ógleymanlegt verkefni og skemmtilegt, sem ég segi að hafi raunverulega komið Íslandi á kortið í þeirri spennandi atvinnugrein að búa til bíó.“

Hver er hann?

• Leifur B. Dagfinnsson er framkvæmdastjóri og aðaleigandi Truenorth Nordic ehf. og er fæddur árið 1968. Er með BA-gráðu í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu frá Bretlandi, útskrifaður úr Verzló 1989.

• Hefur stýrt framleiðslu á mörgum þekktum kvikmyndum á Íslandi á borð við Star Wars. Einnig The Secret Life of Walter Mitty, Flags of our Fathers, Eurovision: The Story of Fire Saga, The Midnight Sky og Die Another Day.