Covid Reykjalundur gerir nú hlé á meðferðarstarfi næstu dagana.
Covid Reykjalundur gerir nú hlé á meðferðarstarfi næstu dagana. — Morgunblaðið/Eggert
Í þessari viku verður gert hlé á meðferð allra sem fá þjónustu á dag- og göngudeildum Reykjalundar í Mosfellsbæ, vegna kórónuveirusmita sem greindust á deildinni Miðgarði fyrir nokkrum dögum.

Í þessari viku verður gert hlé á meðferð allra sem fá þjónustu á dag- og göngudeildum Reykjalundar í Mosfellsbæ, vegna kórónuveirusmita sem greindust á deildinni Miðgarði fyrir nokkrum dögum. Hléið hefur áhrif á starf með á annað hundrað skjólstæðingum, sagði Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar, í samtali við mbl.is í gær.

Fimm sjúklingar og jafn margir starfsmenn Reykjalundar hafa greinst jákvæðir fyrir kórónuveirunni. Alls 30 starfsmenn og 11 sjúklingar eru nú í sóttkví. Af þeim fimm sjúklingum sem eru smitaðir komu þrír frá Landakotsspítala á Reykjalund í síðustu viku. Sjúklingarnir hafa nú verið fluttir af Reykjalundi á Covid-deildir Landspítala.

Að undanförnu hefur starfsemin á Reykjalundi farið fram í nokkrum skilgreindum sóttvarnahólfum – og smitgát verið höfð í öllu starfi. Hefur starfsemi Miðgarðs, deildarinnar þar sem smitið uppgötvaðist, því verið aðskilin öðru starfi. Starfsfólk annarra deilda hefur mannað vaktir á Miðgarði, en vegna þeirra reglna sem gilda um starfið á Reykjalundi getur það hins vegar ekki farið til baka í sín hefðbundnu störf, að minnsta kosti ekki allra næstu daga. petur@mbl.is/sbs@mbl.is