Opnað Vegsláin tekin upp Dýrafjarðarmegin og svo var ekið af stað. Mikilvægur áfangi og háskavegurinn um Hrafnseyrarheiði heyrir sögunni til.
Opnað Vegsláin tekin upp Dýrafjarðarmegin og svo var ekið af stað. Mikilvægur áfangi og háskavegurinn um Hrafnseyrarheiði heyrir sögunni til. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Albertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Opnun Dýrafjarðarganganna eru langþráð tímamót í samgöngumálum á Vestfjörðum og skipta sköpum fyrir byggðir þar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Opnun Dýrafjarðarganganna eru langþráð tímamót í samgöngumálum á Vestfjörðum og skipta sköpum fyrir byggðir þar. Þetta helst í hendur við að góðir samgönguinnviðir eru grunnforsenda þess að atvinnulíf geti þróast og eflst. Samfélagslegur ábati verður af því og eins því ef tekst að fækka slysum.

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra þegar hann opnaði ný jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar í gær. Athöfnin fór fram í Reykjavík, þar sem ráðherra og forstjóri Vegagerðarinnar voru og gáfu út fyrirskipun um að opna skyldi fyrir umferð.

Langur undirbúningur

Vestfjarðarvegur styttist um 27,4 km með tilkomu Dýrafjarðarganga, sem koma í stað vegar yfir Hrafnseyrarheiði sem aðeins hefur verið fær hluta úr ári. Alls var kostnaður við verkið nærri 13 milljarðar króna, en það fól í sér gerð 5,6 km langra ganga, gerð nýrra vega við báða munna þeirra svo og byggingu tveggja brúa í Arnarfirði. Heildarkostnaður við verkið var 12,4 milljarðar króna.

Hugað hefur verið að jarðgangagerð undir Hrafnseyrarheiði síðan um 1990. Málið komst á hreyfingu sumarið 2007 en var slegið á frest eftir efnhagshrunið 2008. Árið 2013 fór undirbúningsvinna aftur af stað. Framkvæmdir hófust svo í júlí 2017 og gengu greitt.

Dynjandisheiði næst

Þegar best best lét náðu gangamenn að sprengja sig áfram um 111,5 metra á einni viku sem er talið Íslandsmet. Mest náðist að sprengja 402,5 metra í einum mánuði. Gegnumbrot var 12. apríl á síðasta ári og í kjölfar þess hófst lokafrágangur, svo sem styrkingar og vatnsklæðning ganganna sem voru malbikuð í maí síðastliðnum. Jafnhliða var unnið við brúarsmíði og vegagerð.

Í ávarpi við opnun jarðganganna í gær gat samgönguráðherra ýmissa fleiri vegabóta á Vestfjörðum sem eru í undirbúningi. Endurbygging vegarins yfir Dynjandisheiði er þar efst á blaði og í raun framhald af jarðgangagerð. Þá eru að hefjast framkvæmdir við lagningu nýs Vestfjarðarvegar um Teigsskóg og Gufudalssveit, sem mun stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi mikið. Á áætlun er einnig þriðja risaverkefnið í landshlutanum, nýr Bíldudalsvegur frá flugvellinum á Bíldudal og upp á Dynjandisheiði. Þarna eru í pakkanum, að Dýrafjarðargöngum meðtöldum, alls 105 km af nýjum, greiðum og öruggum vegum. „Dýrafjarðargöng er enn einn áfanginn í þeirri vegferð að koma Vestfjörðum öllum í almennilegt heilsársvegasamband og sumir myndu segja við umheiminn,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

Vestfjarðaleið 950 kílómetrar

Nemendur við grunnskólann á Þingeyri voru þau fyrstu sem fóru í gegnum göngin í gær. Þess óskuðu þau sérstaklega í bréfi sem þau sendu samgönguráðherra sem brást vel við ósk þeirra. Gat þess í bréfi að il eftirbreytni væri að börn létu málefni samfélagsins sig varða með virkri þátttöku og innleggi í umræður um málefni líðandi stundar. Með börnunum í för var Gunnar Gísli Sigurðsson á Þingeyri, sem sinnt snjómokstri á Hrafnseyrarheiði allt frá árinu 1974.

Samhliða því að nú má aka um Dýrafjarðargöng var í gær opnuð ný ferðamannaleið, Vestfjarðaleiðin . Leiðin er 950 kílómetra löng og segja má að upphafspunktur hennar sé þar sem beygt er inn á Vestfjarðarveg í Norðurárdal í Borgarfirði. Þaðan liggur leiðin um Dalina og fyrir Klofning, svo um alls átta sveitarfélög á Vestfjörðum. Þar eru þræddar heiðar og firðir og endað suður í Hrútafjarðarbotni. Kynning og markaðssetning þessarar leiðar hefur verið í höndum starfsfólks Vestfjarðastofu og er mikils vænst af fyrir ferðaþjónustuna vestra.