Kristín Jónsdóttir fæddist 21. maí 1934. Hún lést 13. október 2020.

Útför Kristínar fór fram 23. október 2020.

Elsku frænka okkar Kristín Jónsdóttir (Kiddý) föðursystir okkar lést þriðjudaginn 13. október, 86 ára að aldri. Kiddý frænka átti stóran hlut í lífi okkar systkinanna (Einarsbarna). Á meðan afi og amma voru enn á lífi bjó hún í kjallaranum hjá þeim á Grenimel 8 í Reykjavík. Án hennar hefði líklega ekki verið kaffi á sunnudögum eða stóru jólaboðin því Kiddý sá alltaf um að elda og baka, borðin svignuðu bókstaflega undan kræsingunum. Kiddý kenndi okkur að steikja kleinur, gera fiskibollur, pönnukökur og brúnköku sem var alveg ómissandi í öllum afmælum og eiginlega alla aðra daga. Einnig kenndi hún okkur systrum að sauma út enda var það eitt af hennar áhugamálum hér áður fyrr. Alltaf mætti hún á alla viðburði hjá okkur svo sem afmæli og fermingar. Hún mætti líka oftast í skötuna á Þorlák hjá foreldrum okkar en þegar þau féllu frá fórum við alltaf á Sægreifann. Þór bróðir hennar og Lilla (Elísabet) eiginkona hans voru einstaklega dugleg að ferðast með henni og kíkja með hana í kaffi til okkar, hafi þau þökk fyrir.

Síðustu mánuðina talaði Kiddý oft um slappleika svo við systur reyndum að létta undir með Þór og Lillu og fórum til hennar einu sinni í viku til að þrífa og elda kvöldmat og borðuðum stundum með henni, sem hún kunni vel að meta. Svo fór að hún fór á spítala en það hvarflaði ekki að okkur að hún ætti ekki eftir að ná sér (nógu þrjósk var hún) og komast ekki í eigið rúm aftur með nýju straufríu sængurverunum sem hún samþykkti loksins að fá sér í stað þeirra sem hún straujaði alltaf. Hún skilur eftir stórt tómarúm í hjörtum okkar og verður hennar minnst með virðingu og þökk.

Elsku Kiddý frænka, góða ferð í sumarlandið þar sem verður vel tekið á móti þér. Hafðu þökk fyrir allt.

Brynhildur Inga, Sigurlaug Sandra, Anna Guðríður,

Egill Örn, makar, börn og barnabörn.