Steik Innlend framleiðsla á nautakjöti er ein viðkvæmasta grein landbúnaðar fyrir innflutningi, hvort sem hann er rétt skráður eða ekki.
Steik Innlend framleiðsla á nautakjöti er ein viðkvæmasta grein landbúnaðar fyrir innflutningi, hvort sem hann er rétt skráður eða ekki. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur leitað upplýsinga og skýringa á misræmi í tölum um innflutning á búvörum og útflutning ESB á sömu búvörum. Fjármálaráðuneytið hefur verið með málið til skoðunar og hefur ráðherra ákveðið að skipa nýjan starfshóp til að gera frekari greiningar og koma með tillögur að úrbótum. Þá hafa þingmenn Miðflokksins óskað eftir skýrslu ríkisendurskoðunar um málið.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur leitað upplýsinga og skýringa á misræmi í tölum um innflutning á búvörum og útflutning ESB á sömu búvörum. Fjármálaráðuneytið hefur verið með málið til skoðunar og hefur ráðherra ákveðið að skipa nýjan starfshóp til að gera frekari greiningar og koma með tillögur að úrbótum. Þá hafa þingmenn Miðflokksins óskað eftir skýrslu ríkisendurskoðunar um málið.

Bændasamtök Íslands og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni hafa vakið athygli á þessu máli á undanförnum mánuðum. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagðist í viðtali við Morgunblaðið 17. september hafa orð fjármálaráðherra fyrir því að fundið verði út úr misræmi í tölum. Ráðherra skipaði starfshóp til að fara yfir málið og hefur hann nú skilað minnisblaði. Athugun starfshópsins á hluta af þeim tollflokkum sem undir eru leiddi í ljós að misræmi er í tölum en það gengur í báðar áttir. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur sem starfar sem verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni og hefur manna mest sett sig inn í þessi mál, segir að með því að taka hluta tollflokkanna og athuga ekki hvað í raun er á bak við vörurnar sé verið að slá ryki í augu fólks. Láta misræmið líta út fyrir að vera minna en það í raun er.

Tollflokkun almennt röng

Í minnisblaði hóps fjármálaráðuneytisins kemur fram að tollurinn sem nú er undir hatti Skattsins hafi gert tvær umfangsmiklar áreiðanleikakannanir á gæðum gagna í innflutningi, síðast árið 2017, og nú standi til að gera nýja könnun næsta vor. Í ljós hafi komið að gæðum gagnanna hafi verið mjög ábótavant. Skatturinn hafi boðað innflytjendur og tollmiðlara á sinn fund og hafi þeir lofað að vinna að því að bæta gæði gagna, „sérstaklega hvað varðar tollflokkun og vörulýsingar, en þessi atriði í tollskýrslum voru almennt áberandi röng“.

Ef reynt er að koma þessum texta yfir á mannamál hlýtur hann að benda til að innflytjendur og tollmiðlarar skrái gjarnan ranga tollflokka á aðflutningsskýrslur og að eftirlit sé í skötulíki. Erna Bjarnadóttir segir að ekki eigi að þurfa að bæta gæði gagna um innflutning. Lög gildi um tollskrá og greiðslu tolla og eftir þeim beri að fara. Hún bætir því við að tollskrárnúmer sé skráð á reikninga sem fylgi vörum og menn eigi að nota sömu númerin í aðflutningsskýrslum. „Á ég að trúa því að það eigi bara að stinga þessu undir stól?“ segir Erna.

Málið snýst um innflutning á kjöti og mjólkurafurðum. Bændur telja að mikið sé um að búvörur séu skráðar í tollflokk sem beri engan eða minni toll en vera ætti. Fram kom í Vísi á dögunum að héraðssaksóknari hefur ákært starfsmann Hamborgarabúllu Tómasar og rekstrarfélags Búllunnar fyrir tollalagabrot og peningaþvætti með því að skrá nautaframparta sem kjöt með beini og koma sér þannig undan greiðslu tolla.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, bendir á að ríkið tapi 300 milljónum króna í aðflutningsgjöldum með stórfelldum innflutningi á pizzaosti undir merkjum jurtaosts en til framleiðslunnar fari mjólk sem svari til 8-10 meðalbúa. Erna og Gunnar benda á að röng skráning snúi ekki aðeins að hagsmunum bænda heldur einnig allra matvælaframleiðenda, neytenda og þeirra innflytjenda sem skrái vörur sínar rétt auk þess sem hún rugli hagtölur.

Tollasvindl eða mistök?

Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram á Alþingi beiðni um úttekt ríkisendurskoðunar á starfsemi Skattsins við framkvæmd tollalaga. Búast má við því að þingið samþykki þessa beiðni á næsta þingfundi sem verður eftir rúma viku.

Óskað er eftir því að landbúnaðarvörur verði skoðaðar sérstaklega með áherslu á innflutt kjöt, unnar kjötvörur, osta, smjör og afurðir sem innihalda osta og mjólkurfitu sem og mjólkurdykki auk grænmetis og blóma.

Í greinargerð er vísað beint til umræðunnar um misræmi í tölum á milli Hagstofu Íslands og ESB um innflutning á kjöti. Vonast skýrslubeiðendur til þess að skýrsla ríkisendurskoðanda muni varpa ljósi á hvað veldur umræddu misræmi og hvort þar er á ferðinni kerfisbundið tollasvindl eða mistök innflytjenda.