Smit Á Landspítalanum hefur valkvæðum aðgerðum verið slegið á frest til þess að verja grunnþjónustu sjúkrahússins. Á þriðja hundrað starfsmenn eru komnir í sóttkví og tugir með veirusmit.
Smit Á Landspítalanum hefur valkvæðum aðgerðum verið slegið á frest til þess að verja grunnþjónustu sjúkrahússins. Á þriðja hundrað starfsmenn eru komnir í sóttkví og tugir með veirusmit.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson snorrim@mbl.is Landspítalinn starfar á neyðarstigi í fyrsta sinn í sögunni, eftir að hópsýking kórónuveiru kom upp innan spítalans á meðal starfsfólks og sjúklinga. Smitið er talið hafa verið komið inn á Landakot 12.

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Landspítalinn starfar á neyðarstigi í fyrsta sinn í sögunni, eftir að hópsýking kórónuveiru kom upp innan spítalans á meðal starfsfólks og sjúklinga. Smitið er talið hafa verið komið inn á Landakot 12. október og hefur síðan verið að berast á milli einstaklinga án þess að vitað væri.

Um helgina kom gríðarlegt umfang hópsýkingarinnar í ljós á Landakoti, en þá var skaðinn þegar orðinn og Covid-smitaðir sjúklingar höfðu þegar verið fluttir á aðrar heilbrigðisstofnanir, með þeim afleiðingum að þar komu einnig upp hópsmit. Á Sólvöllum á Eyrarbakka eru þrettán íbúar og fjórir starfsmenn smitaðir og á Reykjalundi hafa fimm sjúklingar greinst með smit. Þar hefur verið gert hlé á starfseminni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að atburðarásin sem nú eigi sér stað sé nokkuð sem óttast var að kynni að gerast. „En umfangið kemur manni í opna skjöldu,“ segir hann. Þetta getur haft áhrif á samfélagslegar aðgerðir vegna veirunnar en fyrst verður að koma í ljós hvort hópsýkingin hafi dreift úr sér í samfélaginu.

Þórólfur og Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans eru samdóma um að enn verði að gera ráð fyrir að umfang hópsýkingarinnar sé meira en þeir 77 sem þegar hafa greinst, þar sem smitrakningu er síður en svo lokið. Páll segir að spítalinn reyni nú að tryggja sjúkrarými fyrir sjúklinga, Covid-smitaða eða ekki, sem eru alvarlega veikir. Valkvæðum aðgerðum verður frestað, að líkindum fram í nóvember.

Veiran hefur stungið sér niður í þeim aldurshópi sem er langviðkvæmastur fyrir henni. Þegar hafa mörg fórnarlömb þessarar hópsýkingar lagst inn á sjúkrahús og gert er ráð fyrir að fjölgi í þeim hópi á næstunni. Á þriðja hundrað starfsmanna Landspítala eru í einangrun, þannig að aukið álag getur reynst mikil áskorun. Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir segir að spítalinn muni komast til botns í því hver tildrög þessa voru og opinbera niðurstöðurnar í kjölfarið.

Hópsýking
» Aldrei hafa fleiri verið á Landspítala með kórónuveirusmit. Alls liggja 52 inni, flestir af Landakoti.
» Byrjaði hjá starfsmanni sem vann smitaður og bar þannig smit í sjúklinga.
» Landspítali frestar valkvæðum aðgerðum og reynir að tryggja sjúkrarými fyrir alvarlega veika.