Sigurmark Diogo Jota fagnar marki sínu gegn Sheffield United ásamt Trent Alexander-Arnold. Þetta var annað mark Jota í deildinni á tímabilinu.
Sigurmark Diogo Jota fagnar marki sínu gegn Sheffield United ásamt Trent Alexander-Arnold. Þetta var annað mark Jota í deildinni á tímabilinu. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Það var lítið skorað, aldrei þessu vant, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um nýliðna helgi en mörkin hafa komið á færibandi í deildinni í upphafi tímabils.

England

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Það var lítið skorað, aldrei þessu vant, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um nýliðna helgi en mörkin hafa komið á færibandi í deildinni í upphafi tímabils.

Liverpool er komið í efsta sæti deildarinnar eftir afar mikilvægan 2:1-sigur gegn Sheffield United á Anfield í Liverpool en Sheffield United komst yfir strax á 13. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

*Liverpool er nú taplaust í síðasta 61 heimaleik sínum á Anfield en af þeim hefur Liverpool-liðið unnið síðustu 27 leiki sína af 28 leikjum.

*Þá hafa þeir skorað 162 mörk í þessum 61 leik sem gerir 2,7 skoruð mörk að meðaltali í leik.

Það var fátt um fína drætti þegar Manchester United og Chelsea mættust á Old Trafford í Manchester en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

United fór illa með Chelsea í báðum deildarleikjum liðanna á síðustu leiktíð en fyrri leik liðanna á Old Trafford lauk með 4:0-sigri United í ágúst 2019 og United vann 2:0-sigur gegn Chelsea á Stamford Bridge í febrúar 2020.

*Chelsea er án sigurs í síðustu sjö útileikjum sínum gegn Manchester United. Liðin hafa fjórum sinnum gert jafntefli og þrívegis hefur Chelsea tapað.

*United hefur mistekist að vinna fyrstu þrjá heimaleiki sína á tímabilinu en það gerðist síðast tímabilið 1972-73.

Englandsmeistaraefnin í Manchester City gerðu sitt annað jafntefli á tímabilinu þegar liðið heimsótti West Ham.

Michail Antonio kom West Ham yfir á 18. mínútu en Phil Foden bjargaði stigi fyrir City með marki á 51. mínútu og þar við sat.

*Þetta var í fyrsta sinn síðan í október 2017 sem Pep Guardiola stillir upp sama byrjunarliðinu annan leikinn í röð.

Fór fyrir sínu liði

Gylfi Þór Sigurðsson bar fyrirliðabandið hjá Everton þegar liðið heimsótti Southampton á St. Mary‘s-völlinn í Southampton þar sem Southampton fagnaði 2:0-sigri.

Þetta var fyrsta tap Everton á tímabilinu en Gylfa Þór var skipt af velli á 58. mínútu fyrir Anthony Gordon.

Íslenski miðjumaðurinn hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Everton en þetta var í annað sinn á tímabilinu sem hann byrjar leik í ensku úrvalsdeildinni.

Hann á enn þá eftir að skora sitt fyrsta mark en hann lagði upp mark í 4:2-sigri Everton gegn Brighton 3. október.

*Everton var 2:0 undir í hálfleik en liðið hefur aldrei unnið leik í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa verið undir með tveimur mörkum eða meira í hálfleik.