Heiðar fæddist 4. október 1936. Hann lést 4. október 2020.

Útförin fór fram 21. október 2020.

Elsku Heiðar Ástvaldsson, í dag mun ég kveðja þig í hinsta sinn, það mun verða með ást í hjarta og miklum söknuði.

Frá unga aldri og til fullorðinsára hefur þú með einum eða öðrum hætti verið inni lífi mínu, í fyrstu var það í gegnum dansinn, og fyrir það vil ég þakka þér, minn kæri, ég gæti talað endalaust um dansinn og hvað hann gerði mér gott en ég læt það vera, ég ætla frekar að tala um þig sem manneskju bara með örfáum orðum ef það er þá hægt, því það mikið álit hef ég á þér, kæri vinur.

Ég hugsa daglega eftir að þú lést um það að við ætluðum að hittast ég, þú, Simbi og Fiddi, gömlu dansfélagarnir, en úr því varð ekki því miður vegna veiruskrattanna sem eyðileggja allt sem okkur telst eðlilegt að gera, en nóg um það, ég vil þakka þér fyrir samfylgdina, þú góði og stóri karakter, ég man ræðurnar sem þú hélst svo oft á góðum stundum, vel máli farinn og með þessa líka dásamlega flottu rödd sem ég mun seint gleyma. Allar sögurnar sem þú sagðir á þinn einstaka hátt, þær mun ég geyma og takk fyrir það.

Að lokum vil ég enn og aftur þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér og áhrifin sem þú og þinn dansskóli og þínir kennarar hafa haft á mitt líf, innblásturinn og að uppfylla drauma mína, takk fyrir það, já og eitt enn; ég mun alltaf geyma eina færslu hérna á FB, það eru síðustu skilaboðin frá þér sem eru ÁST svo einfalt og fallegt, bara ÁST.

Takk fyrir mig, elsku hjartans vinur.

Kveðja,

Kolbrún Ólafsdóttir.

Ég vil minnast míns kæra bróður, Heiðars Róberts Ástvaldssonar, eins og hann hét. Heiðar fæddist á Siglufirði 4. október 1936 og lést á afmælisdaginn sinn. Heiðar var yndislegur bróðir, skemmtilegur, gat alltaf komið manni í gott skap, reytti af sér brandara þegar svo bar undir. Næmur var hann á fegurðina og í ófá skipti sem hann ferðaðist erlendis keypti hann oftast eitthvað fallegt handa systur sinni, fatnað og annað glys. Ég minnist þess þegar hann hringdi í pabba okkar frá London, þá hef ég verið 4 eða 5 ára, þá bað ég hann um að kaupa apa handa mér (alvöru apa), sem var hlegið að. Ég lærði hjá honum dans í Grunnskólanum á Siglufirði, með honum var systir mín hún Anna að kenna með honum og voru þetta skemmtilegar stundir. Eftir að Hanna konan hans dó kom hann oft og borðaði hjá okkur hjónunum, helst vildi hann fá rauðmaga eða hrogn og lifur. Hann kom alltaf til okkar á laugardagskvöldum þegar þátturinn Allir geta dansað á Stöð 2 var sýndur og nánast alltaf þurfti hann að segja álit sitt á dönsunum. Hann hafði yndi af mannkynssögunni og var fróður um hana, hann horfði á þætti um Viktoríu drottningu á Ríkissjónvarpinu, einnig horfði hann á Versali, mér varð að orði við hann: „Er þetta ekki bara svall?“ Hann svaraði: „Að sumu leyti.“ Hann undi sér við að skoða ýmislegt á youtube og minntist á að ég þyrfti að læra og prófa það til að stytta mér tímann þar sem hann gat skoðað allt milli himins og jarðar þar. Nokkrum dögum áður en hann veiktist bauð hann okkur fjölskyldunni á veitingastaðinn Ask. Það er erfitt að trúa að þetta hafi verið í hinsta sinn sem ég sá hann, en nú ertu kominn í sumarlandið til Hönnu þinnar, kæri bróðir. Elsku Ástvaldur og Jóna og systkini, samúðarkveðjur til ykkar.

Ég leitaði blárra blóma

að binda þér dálítinn sveig,

en fölleit kom nóttin og frostið kalt

á fegurstu blöðin hneig.

Og ég gat ei handsamað heldur

þá hljóma, sem flögruðu um mig,

því það voru allt saman orðlausir draumar

um ástina, vorið og þig.

En bráðum fer sumar að sunnan

og syngur þér öll þau ljóð,

sem ég hefði kosið að kveða þér einn

um kvöldin sólbjört og hljóð.

Það varpar á veg þinn rósum

og vakir við rúmið þitt,

og leggur hóglátt að hjarta þínu

hvítasta blómið sitt.

Ég veit ég öfunda vorið,

sem vekur þig sérhvern dag,

sem syngur þér kvæði og kveður þig

með kossi hvert sólarlag.

Þó get ég ei annað en glaðzt við

hvern geisla, er á veg þinn skín,

og óskað, að söngur, ástir og rósir,

sé alla tíð saga þín.

(Tómas Guðmundsson)

Kristrún Ástvaldsdóttir og fjölskylda.