Upp Umfangsmiklar ráðstafanir voru gerðar um helgina á Landakoti.
Upp Umfangsmiklar ráðstafanir voru gerðar um helgina á Landakoti. — Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson snorrim@mbl.is Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segir að unnið sé að því að rannsaka hvað gerðist á Landakotsspítala og leiddi til þess að smit barst í fjölda sjúklinga.

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segir að unnið sé að því að rannsaka hvað gerðist á Landakotsspítala og leiddi til þess að smit barst í fjölda sjúklinga. Þegar það liggur fyrir verður það gert opinbert. „Það skiptir okkur máli sem fagstofnun. Við viljum komast til botns í því hvað er á seyði hér og fyrst og síðast draga af því lærdóm, ef það eru einhver vandamál í okkar vinnuferlum, þá þarf að laga þau,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Samtals 77, þar af um fjörutíu manns áttræðir eða eldri, eru smitaðir eftir hópsýkingu sem á uppruna sinn að rekja til Landakots og talið er að fyrst hafi smit ratað þangað inn með starfsmanni. Það breiddi síðan nokkuð hratt úr sér en talið er að fyrsta kórónuveirusmitið laumist inn á stofnunina 12. október. Síðan voru sjúklingar fluttir þaðan á Reykjalund og á Sólvelli á Eyrarbakka. Þeir reyndust sumir smitaðir, sem aftur leiddi til hópsýkinga á þessum stofnunum.

Ekki fullnægjandi húsnæði

Óútskýrt er hvað átti sér stað sem olli svona hraðri útbreiðslu smits meðal sjúklinganna en Már telur að starfsfólkið leiki þar lykilhlutverk. Húsnæðið sé þá barn síns tíma. Í flestum sjúkrarýmum spítalans eru fleiri en einn sjúklingur: „Auðvitað væri ákjósanlegt að alls staðar væru einbýli en því er ekki til að dreifa á Landakoti, þó að það sé á sumum deildum,“ segir Már. „Það hefur komið fram að húsnæðið þarna er ekki „ídeal“ með tilliti til sýkingarvarna. Þar eru of fá salerni miðað við sjúklinga og slíkt, jafnvel þó að bætt hafi verið úr þessu á undanförnum árum. Þetta er ekki fullnægjandi og vankantar svona húsnæðis koma best í ljós þegar mest ríður á.“

Hann telur ekki að húsnæðismál hafi haft mikið að segja um útbreiðslu smitsins. „Ég held að útbreiðslan hafi ekki tengst húsnæðinu sérstaklega eða einhverri þröng á þingi, heldur endurspeglar þetta smitunarhátt þessarar veiru, sem er dropasmit og snertismit. Eðli smits af þessari tegund er slíkt, að það erum oftast nær við starfsmenn sem erum farartæki smitefnisins á milli sjúklinganna,“ segir hann. Þegar smit sé síðan komið inn í sjúklingahóp geta þeir borið það í hver annan. „Það fer líka eftir færni þeirra til að fylgja fyrirmælum og oft eftir vitsmunastigi fólks. Sumir eru með vitsmunasjúkdóma og annað sem getur dregið úr getu þeirra til að bregðast við.“

Tekið með í reikninginn

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að meðan á smitrakningu stendur verði enn að gera ráð fyrir að smitaðir séu fleiri en þeir sem þegar hafa greinst, enda sé meðgöngutíminn oft hátt í vika. Hann harmar mjög að málum hafi undið fram með þessum hætti á Landakoti.

„Í þessu tilviki hefur þetta náð að grafa um sig og Landspítalinn sjálfur er að skoða þetta mjög ítarlega og maður er ekkert að fella neina sérstaka dóma um það nema þetta tengist smituðum starfsmanni. Það er náttúrulega vont að það geti gerst og þess vegna var þetta ákall frá mér í dag [í gær] til yfirmanna allra vinnustaða að brýna það fyrir öllu starfsfólki að mæta ekki í vinnuna veikt, því við sjáum bara hvað getur gerst.“

Meta gögnin á hverjum degi

Þórólfur segir að vissulega verði hópsýking af þessari stærðargráðu inni á sjúkrahúsi tekin með í reikninginn þegar framhald aðgerða verður ákveðið fyrir 3. nóvember. „Ef það sýnir sig að dreifingin er mikil verður maður mjög smeykur við að fara að slaka mikið á,“ segir hann.

„Við þurfum að meta gögnin sem við fáum á hverjum degi varðandi það hvort við eigum að halda óbreyttu ástandi, slaka á eða herða. Það eru bara þessir þrír möguleikar í stöðunni og ég myndi segja að upplýsingarnar næstu daga komi til með að skera úr um það hverjar mínar tillögur verða.“

Of snemmt sé að spá fyrir um veikindin sem af þessu hljótast, en þegar er ljóst að fjöldi fólks er orðinn veikur.

„Þetta fer náttúrulega allt eftir því hve alvarleg veikindin verða á næstu dögum. Það tekur nokkra daga eða viku að sjá alvarlegar afleiðingar þessarar sýkingar. Fólk byrjar með einkenni en fer að veikjast eftir nokkra daga, þannig að hvort þetta verði alvarlegt á alveg eftir að koma í ljós. Ég óttast það hins vegar að það geti gerst.“

Aðstandendur geti reynst veikir

• Spyrja sig hvað brást á spítalanum Aðstandendur konu sem greindist með kórónuveiruna á Landakoti fyrir helgi hafa áhyggjur af því að aðstandendur smitaðra á Landakoti geti hafa smitast af veirunni. Eiginmaður konunnar reyndist sýktur af veirunni, en hann hafði ekki verið settur í sóttkví eftir heimsókn á Landakot.

Móðir Sigurjónu Jónsdóttur var flutt á Landspítala vegna slæms beinbrots nýverið og var í kjölfarið flutt á Landakot. Á föstudag fengu Sigurjóna og systkini hennar fregnir af því að móðir þeirra hefði sýkst af Covid-19. Það kom síðan í ljós á laugardag að faðir þeirra var einnig smitaður.

„Það sem við spyrjum okkur að og höfum áhyggjur af er hvort það séu margir þarna úti í sömu stöðu og pabbi; hugsanlega sýktir án þess að vita það enn þá. Það er fullt af aðstandendum þarna, eldra fólki, sem er ekkert endilega að hugsa út í það. Það stóð ekki til að senda pabba í skimun samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk og þá spyr maður sig, hann er væntanlega ekki sá eini,“ sagði Sigurjóna í samtali við Morgunblaðið.

Hún og systkini hennar velta fyrir sér hvernig svo stór hópsýking hafi getað komið upp á heilbrigðisstofnun.

„Ef það eru einhverjir verkferlar í gangi hljóta þeir að eiga að lágmarka þetta þegar svona gerist. Þetta er svo mikill fjöldi starfsmanna sem þarna um ræðir að maður veltir fyrir sér hvernig þetta gerist af svona stærðargráðu,“ sagði Sigurjóna. Sá mikli fjöldi sem smitaður er bendi til að eitthvað mikið hafi farið úrskeiðis.

liljahrund@mbl.is

Greinilega ekki farið eftir reglum

• Hraðfrystihúsið Gunnvör baðst afsökunar á málinu • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja að traust hafi tapast • Ekki verið að leita að blórabögglum eða sökudólgum, segir í tilkynningunni Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir greinilegt að ekki hafi verið farið eftir reglum sem á að fara eftir þegar smit kemur upp á skipi í tilfelli hópsýkingar um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Greint hefur verið frá því að skipverjar hafi sinnt vinnu sinni veikir af Covid-19 um borð í togaranum.

„Ég held að þetta sé bara mjög alvarlegt mál,“ segir Þórólfur.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir í tilkynningu að málið hafi skaðað samskipti útgerða og sjómanna. Mikilvægt sé að greina hvað fór úrskeiðis og læra af því.

Stjórnendur Hraðfrystihússins Gunnvarar, sem á skipið, telja að rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveiru þegar smit kom upp í togaranum. „Því miður fórst það fyrir og ábyrgð á þeim mistökum mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla. Fyrirtækið biður hlutaðeigandi jafnframt einlæglega afsökunar á þessum mistökum.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu hraðfrystihússins.

Ömurlegt alveg

„Þetta eru bara mistök af okkar hálfu og við erum að biðjast velvirðingar á þeim, innilega. Það er enginn afsláttur af því. Okkur þykir þetta mjög miður; ömurlegt alveg. Þetta sagði Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar (HG), í samtali við mbl.is í gær.

„Fyrirtækið telur ljóst, líkt og áður hefur komið fram í fyrri yfirlýsingu, að rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveiru um borð í skipinu til Landhelgisgæslunnar og láta þeim yfirvöldum eftir að meta hvort rétt væri að sigla skipinu til hafnar,“ segir í tilkynningu. Ekki sé verið að leita að blórabögglum eða sökudólgum, heldur sé vinna í gangi við að fara yfir atburðarásina, greina hvað gerðist og finna út út hvernig skal gera betur í framtíðinni. Mikilvægt sé að byggja upp það traust sem glatast hafi vegna málsins.

Einar segir að ekki sé byrjað að ræða um hvort eitthvað verði gert til að bæta áhöfninni upp fyrir atvikið.