Friðrikka Svavarsdóttir (Rikka) fæddist í Vestmannaeyjum 13.maí 1945. Hún lést í Reykjavík á Landspítalanum 5. október 2020.

Foreldrar hennar voru hjónin Þórunn Aðalheiður Sigjónsdóttir, f. 26. febrúar 1913, d. 25. júlí 1998 og Svavar Þórðarson, f. 11. febrúar 1911, d. 10. janúar 1978.

Svavar og Þórunn Aðalheiður átti 5 dætur auk Rikku. Elst var 1) Edda Sigrún, f. 1. janúar 1936, d. 29. júní 2011. 2) Dóra Guðríður, f. 12. maí 1942, d. 3. febrúar 2004. 3) Áslaug, f. 9. júní 1948. 4) Svava, f. 29. febrúar 1956. 5) Sif, f. 7. júlí 1957.

Eiginmaður Rikku er Hrafn Óskar Oddsson, f. 2. nóvember 1945. Hrafn og Rikka hófu sambúð árið 1975 og giftu sig þann 13. desember 2007. Foreldrar Hrafns voru hjónin Magnea Bergvinsdóttir og Oddur A. Sigurjónsson. Dóttir þeirra er Lind, f. 5.apríl 1982, gift Jóni van der Linden, f. 1. september 1970, og eiga þau synina Rómeó Mána,, f. 2. júní 2010 og Hrafn Mikael, f. 8. ágúst 2013. Stjúpdóttir Lindar er Herdís Lind f. 13. apríl 1994. Unnusti Herdísar Lindar er Árni Helgason.

Rikka eignaðist tvo drengi með fyrri manni sínum, Stefáni Péturssyni. 1) Björgúlfur, f. 3.ágúst 1963, og 2) Hlynur, f. 8. október 1964, sem er kvæntur Unni Sigmarsdóttur, f. 17. september 1964, og eiga þau þrjú börn: Birki, f. 11. september 1988, Kristrúnu Ósk, f. 18. júní 1991, og Rakel, f. 8. september 1993. Birkir er í sambúð með Ölmu Rós Þórsdóttur. Kristrún er í sambúð með Aroni Spear, sonur hennar er Elimar Andri Andrason, f. 20. mars 2013. Rakel er í sambúð með Árna Muggi Sigurðssyni og dóttir hennar er Emilia Ósk Kamilsdóttir, f. 19. nóvember 2015.

Lengst af starfaði Rikka á leikskólanum Rauðagerði í Vestmannaeyjum og á Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum.

Útför Rikku fór fram í Landakirkju í Vestmannaeyjum 16. október 2020 kl. 14.

Það var einstaklega fallegt haustveðrið daginn sem Rikka var jarðsett. Sól á lofti og hægur vindur. Hvíldin var Rikku kærkomin trúi ég, eftir vanheilsu hennar síðustu ár. Þrátt fyrir að hafa búið nánast allt sitt líf í Vestmannaeyjum, þá getur stífur mótvindurinn, beint í fangið, verið nokkuð erfiður til lengdar. Hún ræddi það samt ekkert mikið, en ég fann oft til með henni þegar ég kom í heimsókn og henni leið ekki vel. Stundum eru örlögin ósanngjörn. Ég hugsa til Rikku með hlýju í hjarta og sé hana fyrir mér líða vel í kyrrðinni í sumarlandinu. Á hinstu stundu líð ég í gegnum öll árin frá því ég var lítill peyi og ýmis minningabrot og atburðir koma upp í hugann. Það er margs að minnast enda samskiptin mikil, sérstaklega þegar við vorum nágrannar í Bessahrauninu og ég valsandi inn og út af heimili þeirra Hrafns frænda eins og ég ætti heima þarna. Hún hefur nú örugglega oft bitið í vörina yfir þessum litla frænda. En, alltaf var maður velkominn. Orðið sem kemur upp í hugann er þakklæti. Takk fyrir mig. Ég er bæði þakklátur fyrir að hafa kynnst Rikku og fyrir fjölmargt sem hún hefur gert fyrir mig og mína. Það er ekki sjálfgefið að hitta svona fólk á lífsleiðinni, sem tekur manni jafn vel og hún gerði. Það voru margir sem nutu velvildar og hlýju hennar, ekki síst fjölskylda hennar, enda bar hún hag fjölskyldu sinnar mjög fyrir brjósti og bjó henni gott heimili. Með söknuð í hjarta fylgdi ég henni síðasta spölinn eftir virðulega og fallega athöfn. Algjörlega í hennar anda. Kæri nafni, Björgúlfur, Hlynur, Lind og fjölskyldur: missir ykkar er mikill en um leið er hægt að hlýja sér við góðar minningar um þessa góðu konu sem svo mörgum þótti svo vænt um.

Hrafn Sævaldsson.