Freyr Bjarnason Guðni Einarsson Alls höfðu 115 sjúklingar með Covid-19-sjúkdóminn lagst inn á Landspítalann í gærmorgun, í þessari bylgju faraldursins. Í fyrstu bylgjunni voru 105 sjúklingar lagðir inn á spítalann.

Freyr Bjarnason

Guðni Einarsson

Alls höfðu 115 sjúklingar með Covid-19-sjúkdóminn lagst inn á Landspítalann í gærmorgun, í þessari bylgju faraldursins. Í fyrstu bylgjunni voru 105 sjúklingar lagðir inn á spítalann. Í gær lá 51 sjúklingur inni með Covid-19.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, greindi frá þessu á upplýsingafundi í gær. Hann segir spítalann búa sig undir erfiðar næstu vikur. Byrjað er að afla upplýsinga um upphaf smitsins á Landakoti. Um er að ræða 27 starfsmenn og 52 sjúklinga. Í sóttkví eru um 270 starfsmenn, flestir vegna þessa smits. „Þetta hefur gríðarleg áhrif á starfsemina, sérstaklega á Landakoti,“ segir Páll.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boðuðu til upplýsingafundar í gær. Þar fóru Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir yfir stöðu mála ásamt Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni. Páll Matthíasson var gestur fundarins.

Þórólfur kvaðst hafa áhyggjur af því hvort smitið sem kom upp á Landakoti hefði borist út í samfélagið og hvort aukning yrði á samfélagslegum smitum í framhaldi af því. Sagðist hann vona að það hefði ekki gerst. Hann sagði óljóst hversu lengi við þyrftum að hafa þær takmarkanir sem núna eru í gangi og gilda til 3. nóvember. Á næstu dögum lætur hann heilbrigðisráðherra fá tillögur um framhaldið.

Alma Möller landlæknir lagði til við heilbrigðisráðherra að valkvæðum skurðaðgerðum og öðrum ífarandi aðgerðum verði frestað til 15. nóvember. Fallist var á það.

Almannavarnir könnuðu orðróm um að gleðskapur hefði mögulega valdið kórónuveirusmiti hjá starfsfólki Landakots. Víðir Reynisson sagði engar upplýsingar hafa fundist um slíkan gleðskap og málið því ekki frekar skoðað.