Landsréttur Mildaði dóm héraðsdóms úr sex árum í fjögur.
Landsréttur Mildaði dóm héraðsdóms úr sex árum í fjögur. — Morgunblaðið/Hanna
Karlmaður á þrítugsaldri var á föstudag dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Landsrétti fyrir stórfellda líkamsárás. Hann hafði áður áfrýjað dómi Héraðsdóms Suðurlands sem dæmdi hann í sex ára fangelsi.

Karlmaður á þrítugsaldri var á föstudag dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Landsrétti fyrir stórfellda líkamsárás. Hann hafði áður áfrýjað dómi Héraðsdóms Suðurlands sem dæmdi hann í sex ára fangelsi. Einnig þarf maðurinn að greiða brotaþola tvær milljónir króna.

Maðurinn, Hafsteinn Oddsson, hafði áður fengið dóm vegna tilrauna til ráns og fyrir brot gegn umferðarlögum sem hann hlaut sex mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir. Að því gættu dæmdi Landsréttur hina fyrri refsingu með í þennan dóm.

Í útdrætti dómsorðs kemur fram að Hafsteinn hafi veist að konu með ítrekuðum spörkum í andlit og búk. Þá klæddi hann konuna úr öllum fötunum áður en hann yfirgaf hana þar sem hún lá í götunni, mikið slösuð, nakin og án bjargar.

Árið 2018 höfðu þrjár ljósmyndir verið lagðar fram sem gögn í málinu. Síðar fékk matsmaður aðgang að 19 myndum til viðbótar. Hafsteinn krafðist þess að dómur Landsréttar yrði gerður ómerkur og að málinu yrði vísað aftur til héraðs til löglegrar meðferðar. Hann segir það hafa brotið gegn jafnræði málsaðila og komið niður á vörnum sínum að dómari hafi hlutast til um að leggja fram ný gögn í málinu við aðalmeðferð þess.