Vettvangur Myndin sýnir hvar bíllinn fór út af og eftir vegfláanum.
Vettvangur Myndin sýnir hvar bíllinn fór út af og eftir vegfláanum. — Ljósmynd/Úr skýrslu RNSA
Rannsóknanefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysi sem varð við Gröf á Snæfellsnesvegi 12. október í fyrra. Í orsakagreiningu kemur fram að sennilega hafi ökumaðurinn sofnað og ekið út af veginum.

Rannsóknanefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysi sem varð við Gröf á Snæfellsnesvegi 12. október í fyrra. Í orsakagreiningu kemur fram að sennilega hafi ökumaðurinn sofnað og ekið út af veginum. Bíllinn valt utan vegar og tveir farþegar í aftursæti köstuðust út úr bifreiðinni. Þeir voru sennilega ekki með öryggisbeltin spennt, segir í skýrslu RNSA.

Fram kom í fjölmiðlum í fyrrahaust að þarna hafi bandarísk fjölskylda verið á ferð, hjón með þremur börnum sínum. Pilturinn sem lést var 17 ára og slösuðust foreldrar hans og systur í slysinu. Hinn farþeginn, sem kastaðist út, varð undir bifreiðinni og lá undir henni þegar vegfarendur komu að slysinu. Þeir náðu að velta bifreiðinni ofan af honum og hófu endurlífgun í kjölfarið. Sennilegt er að þau viðbrögð hafi bjargað lífi farþegans, segir í skýrslunni.

Til landsins um morguninn

Bæði ökumaður og farþegar höfðu komið með flugi til landsins snemma um morguninn þennan dag, segir í skýrslu RNSA, en slysið varð rétt eftir kl. 13. Að sögn ökumannsins höfðu þau hvílst eitthvað en bæði farþegar og ökumaður voru þreytt eftir langt flugferðalag til Íslands og mikinn tímamismun milli landa.

Rannsóknarnefndin beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu að vinna að forvörnum um áhrif svefnleysis og þreytu á farþega sem koma til landsins með morgunflugi. Jafnframt telur RNSA mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt bílbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir.

Reyndi að beygja inn á veginn

Í lýsingu á slysinu segir í skýrslunni að á móts við bæinn Gröf liggi vegurinn í mjúkri vinstribeygju þegar ekið sé í vesturátt. Ökumaður hafi ekki breytt stefnu bifreiðarinnar til að fylgja beygjunni en þess í stað ekið út fyrir veginn í vegfláann.

Á vettvangi hafi verið ummerki um að ökumaður hafi reynt að beygja aftur inn á veginn með þeim afleiðingum að bifreiðin hafi snúist í vegfláanum og oltið nokkrum sinnum. För eftir bifreiðina í vegfláanum hafi mælst um 60 metrar þar til bifreiðin hafi snúist og oltið rúma 40 metra.

Bílaleigubifreiðin sem fólkið var á fékk fulla skoðun 10 dögum fyrir slysið og við rannsókn RNSA kom ekkert fram sem varpað gæti ljósi á orsök slyssins. Öll öryggisbelti voru í lagi. Hraðaútreikningur Rannsóknarnefndar samgönguslysa bendir til þess að hraði hennar hafi verið 86 ± 11 km/klst rétt fyrir slysið, en hámarkshraði er 90 kílómetrar. Niðurstöður áfengis- og lyfjarannsókna gáfu ekki til kynna áfengis- eða lyfjaneyslu fyrir slysið.