Bíldudalur Vænum vestfirskum gæðalaxi pakkað fyrir Evrópumarkað.
Bíldudalur Vænum vestfirskum gæðalaxi pakkað fyrir Evrópumarkað. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Útgöngubann og aðrar sóttvarnaráðstafanir í Evrópu leiddu til þess að verð á Atlantshafslaxi lækkaði í síðustu viku. Það er áhyggjuefni fyrir laxeldisfyrirtækin hér og í Noregi nú þegar verðið byrjar venjulega að hækka vegna mikillar eftirspurnar síðustu mánuði ársins og fyrstu mánuði nýs árs. Mikil óvissa er því um verðþróun á þessum mikilvægasta sölutíma á eldislaxi.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Útgöngubann og aðrar sóttvarnaráðstafanir í Evrópu leiddu til þess að verð á Atlantshafslaxi lækkaði í síðustu viku. Það er áhyggjuefni fyrir laxeldisfyrirtækin hér og í Noregi nú þegar verðið byrjar venjulega að hækka vegna mikillar eftirspurnar síðustu mánuði ársins og fyrstu mánuði nýs árs. Mikil óvissa er því um verðþróun á þessum mikilvægasta sölutíma á eldislaxi.

Meðalverð á norskum laxi var rúmar 46 norskar krónur kílóið í 42. viku, samkvæmt vísitölu sem Nasdaq birti fyrir viku. Það samsvarar tæplega 700 íslenskum krónum. Það er heldur lægra verð en verið hefur í þessari viku síðustu ár. Nasdaq hefur ekki birt meðalverð fyrir síðustu viku en samkvæmt fréttum norskra fréttamiðla varð snörp verðlækkun í vikunni vegna aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar í Evrópu og aðgerða stjórnvalda gegn henni, meðal annars lokunar veitingastaða og útgöngubanns í nokkrum löndum. Vefmiðillinn iLaks.no hafði samband við nokkra seljendur og kaupendur sl. föstudag og áætlaði út frá því að verðið myndi lækka niður í 37-40 krónur kílóið fyrir lax sem afhentur verður í þessari viku. Er það sagt lægsta verð sem fengist hefur í fimm ár. Ef það gengur eftir samsvarar verðið 550 til 600 krónum íslenskum.

Búa sig undir öðruvísi vetur

Mikil spurn hefur venjulega verið eftir laxi um jól og páska og í aðdraganda beggja hátíða. Þetta á bæði við um ferskan lax og reyktan. Reyktur lax er til dæmis vinsæll réttur á jólaborðum um alla Evrópu. Verðið er venjulega hæst yfir vetrarmánuðina af þessum ástæðum.

Framleiðsla laxeldisfyrirtækjanna miðast við að fullnægja þessari eftirspurn. Eru því allar sjókvíar fullar af fiski sem er orðinn eða er að verða tilbúinn til slátrunar.

Það setur því verulegt strik í reikninginn hjá framleiðendum ef það dregur úr eftirspurn vegna faraldursins.

„Það er viðbúið að verðið verði lágt á meðan Horeca-markaðurinn [veitingahús, mötuneyti og veisluþjónusta] er í öldudal. Mér sýnist að menn séu almennt að búast við því að verðið verði lágt næstu misserin og þetta geti orðið jóla- og páskavertíð með öðru sniði en verið hefur undanfarin ár,“ segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax. Hann bætir því við að miðað við söguna megi búast við því að spurn eftir laxi aukist þegar verðið er lágt.

Framleiðendur og laxavinnslur reyna að færa framleiðsluna yfir í tilbúna eða frysta rétti fyrir stórmarkaði og frysta eins mikið og hægt er. Þetta er þróun sem tekur tíma. Hann bætir því við að miðað við söguna sé verðteygni þannig að búast megi við því að neysla og eftirspurn aukist þegar verðið er lágt

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish, segir að menn vonist til að verðlækkunin sé tímabundin en tekur fram að enginn viti hvernig markaðurinn muni þróast við þessar sérstöku aðstæður. „Ég hef þá trú að matvæli muni alltaf finna sér leið á markaðinn. Menn laga sig að nýjum aðstæðum. Það hefur sýnt sig í þessum faraldri.“

Fiskeldi Austfjarða er í annarri stöðu. Guðmundur Gíslason stjórnarformaður segir að meirihluti framleiðslunnar sé seldur með fyrirframgerðum samningum til Whole Foods-verslunarkeðjunnar í Bandaríkjunum. Hann segir að betra verð fáist og það hjálpi fyrirtækinu í þessu árferði.