Ted Lasso Nei, þetta er ekki David Seaman.
Ted Lasso Nei, þetta er ekki David Seaman. — Apple TV+
Þættir Jasons Sudeikis og félaga um bandaríska knattspyrnuþjálfarann Ted Lasso, sem efnisveitan Apple TV+ sýnir, verða seint sakaðir um að vera drepfyndnir. En andrúmsloftið er þó huggulegt og inn á milli koma reglulega góðir sprettir.

Þættir Jasons Sudeikis og félaga um bandaríska knattspyrnuþjálfarann Ted Lasso, sem efnisveitan Apple TV+ sýnir, verða seint sakaðir um að vera drepfyndnir. En andrúmsloftið er þó huggulegt og inn á milli koma reglulega góðir sprettir.

Einn þeirra var þegar Lasso var staddur á hóteli í Liverpool og þurfti nauðsynlega að senda skilnaðarpappíra með hraði yfir hafið. Okkar maður vatt sér niður í lobbí og spurði „konsjersinn“ (okkur Íslendinga vantar almennilegt orð yfir það starf) hvort hann væri með faxtæki. „Konsjersinn“ hló upp í opið geðið á honum, þangað til hann áttaði sig á því að Lasso væri hreint ekki að grínast. Hann vantaði í raun og sann faxtæki. Varð hann þá grafalvarlegur og fagmannlegur á ný og upphófst æðisgengin leit að faxtæki í bítlaborginni. Eftir allmörg símtöl og enn fleiri svitadropa hnippti „konsjersinn“ loks rogginn í Lasso og upplýsti hann um að faxtæki hefði fundist á sólbaðsstofu í grenndinni.

Þangað stefndi okkar maður skónum og enda þótt tökuvélarnar fylgdu honum ekki alla leið þá kom fram að takmarkinu hefði verið náð; að koma skilnaðarpappírunum yfir hafið. Þar með var ekkert að vanbúnaði fyrir lærisveina Lassos hjá FC Richmond að leggja harðsnúið lið Everton.

Orri Páll Ormarsson