[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bárður Guðmundsson fæddist á Ísafirði 27. október 1950 og ólst upp á Hlíðarvegi 3. „Ég var einn af þessum Hlíðarvegspúkum,“ segir Bárður.

Bárður Guðmundsson fæddist á Ísafirði 27. október 1950 og ólst upp á Hlíðarvegi 3. „Ég var einn af þessum Hlíðarvegspúkum,“ segir Bárður. „Á vetrum var aðallega farið á skíði upp í Stóruurð og á sumrin var það fótbolti á sjúkrahústúninu.“ Bárður fór í sveit í tvö sumur að Sigtúnum í Eyjafjarðarsveit til móðurbróður síns, Kristjáns Bjarnasonar. „Ég var níu ára fyrra sumarið og þau hjónin áttu fimm börn og það var mikið fjör í sveitinni.“

Eftir framhaldsnám við Gagnfræðaskóla Ísafjarðar stundaði Bárður nám við Tækniskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem byggingartæknifræðingur árið 1974, þá giftur maður. Hann þurfti ekki að eyða miklum tíma í leit að kvonfangi.

Fann konuna nýfermdur

„Á fermingarári mínu sá ég fallega stelpu fyrir utan verslun Kristjáns klæðskera. Hún hefur sennilega verið að kaupa sér fermingarkápu eða eitthvað svoleiðis. Það bara gerðist eitthvað hjá mér og þarna á staðnum ákvað ég að hún yrði konan mín. Sá draumur minn rættist nokkrum árum síðar og við hjónin eigum gullbrúðkaup 27. desember næstkomandi. Ég held að þetta hafi sennilega verið besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu.“

Kennsla í nýjum skóla

Árið 1978 flutti fjölskyldan til Hveragerðis og þar starfaði Bárður sem byggingarfulltrúi til ársins 1980, þegar hann fór að kenna við Iðnskólann á Selfossi í eitt ár, en þá var Fjölbrautaskóli Suðurlands stofnaður og Iðnskólinn lagður niður. „Heimir Pálsson, fyrsti skólastjóri Fjölbrautaskólans, bað mig að vera sér innan handar með iðnnámið og stærðfræðina, en ég hafði verið að kenna stærðfræði í útibúi frá öldungadeild MH í Hveragerði áður.“ Árið 1982 flutti fjölskyldan á Selfoss. Bárður kenndi iðngreinar og stærðfræði ásamt því að vera námsráðgjafi skólans. „Síðasta árið sem ég starfaði við skólann var ég aðstoðarskólameistari þegar skólameistarinn fór í ársleyfi.“

Mikill uppgangur á Selfossi

Árið 1985 hóf Bárður að starfa sem byggingarfulltrúi Selfossbæjar og síðar skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Árborgar. „Þetta er búið að vera mikið ævintýri,“ segir hann. „Fólksfjölgunin í sveitarfélaginu hefur verið mjög mikil og bærinn alveg sprungið út, sérstaklega eftir árið 2006, þótt það hafi aðeins dalað í hruninu í smá tíma.“ Bárður segir að starfið hafi verið krefjandi og oft mikið álag en hann hafi alltaf haft gaman af því að takast á við áskoranir og viljað þjónusta íbúana eftir mætti. Síðastliðinn júní var Bárður kvaddur með virktum eftir 35 ára starf fyrir bæjarfélagið.

Einn í jóga með konunum

Bárður starfaði mikið með knattspyrnudeild ungmennafélags Selfoss ásamt því að sinna dómarastörfum og var formaður deildarinnar í þrjú ár. „Á tímabili stundaði ég mikið golf, en ákvað að fylgja drengjunum mínum þremur eftir og styðja í fótboltanum.“ Bárður er mikill fjölskyldumaður og reynir að eiga góðar samverustundir með fjölskyldunni. „Okkur hjónunum þykir gaman að útivist og að ferðast og höfum m.a. gengið West Highland Way og Great Glen Way í Skotlandi.“ Þau hjónin ganga mikið saman og svo hefur Bárður gaman af hjólreiðum. Síðan fara þau saman í rope yoga á Selfossi. „Ég er eini karlmaðurinn í jóganu og er búinn að vera í nokkur ár, en þetta eru mjög góðar æfingar fyrir liðleikann.“

Bárður segist sáttur við tilveruna á 70 ára afmælisdeginum. „Ég er sáttur við umhverfið og heilbrigður og það er besta afmælisgjöfin.“

Fjölskylda

Eiginkona Bárðar er Sigríður Ingibjörg Jensdóttir, f. 29.4. 1950, fv. starfsmaður VÍS og bæjarfulltrúi Selfossbæjar með meiru. Foreldrar hennar eru hjónin Jens Guðmundur Hjörleifsson, f. 13.11. 1927, og Kristjana Kristjánsdóttir, f. 11.12. 1929, d. 19.12. 2016. Þau bjuggu lengst af í Hnífsdal en Jens býr nú á Selfossi. Börn Bárðar og Sigríðar eru: 1) Guðmundur, f. 29.11. 1969, d. 31.10. 2018; 2) Kristjana Hrund, f. 16.11. 1972, enskukennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands, gift Guðjóni Öfjörð Einarssyni. Börn þeirra eru a) Jóhann Bragi, í sambúð með Rakel Sunnu Pétursdóttur; b) Anna Sigríður, í sambúð með Marinó Marinóssyni; c) Bárður Ingi; d) Jenný Arna. 3) Jens Hjörleifur, f. 20.8. 1979, doktor í eðlisfræði, prófessor við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi. Sambýliskona hans er Maria-Theresa Rider. 4) Helgi f. 20.12. 1982, verkfræðingur hjá Verkís, giftur Anní Gerðu Jónsdóttur. Börn þeirra eru Jón Trausti, Ingibjörg Lilja og Sigrún Sara. 5) Hlynur f. 20.12. 1982, doktor í líffræði og starfar hjá Hafrannsóknastofnun. Eiginkona hans er Helga Ýr Erlingsdóttir. Börn þeirra eru Kristín Edda, Margrét Una og Örn Kári.

Systur Bárðar eru Hólmfríður, f. 25.8. 1944, fv. kennari og skólastjóri, búsett á Akureyri, og Snjólaug, f. 14.11. 1945, fv. vefnaðarkennari á Varmalandi, búsett á Brúarlandi á Mýrum.

Foreldrar Bárðar voru hjónin Guðmundur Bárðarson, f. 9.2. 2018, d. 27.6. 1977, vélstjóri og ökukennari, og Margrét Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 8.8. 1915, d. 3.3. 1963, vefnaðarkennari.