Ingólfur Ómar Ármannsson orti á Boðnarmiði á laugardag: Emja vindar aukast sköll risti veðraslagur. Fer með þjósti frír við mjöll fyrsti vetrardagur.

Ingólfur Ómar Ármannsson orti á Boðnarmiði á laugardag:

Emja vindar aukast sköll

risti veðraslagur.

Fer með þjósti frír við mjöll

fyrsti vetrardagur.

Jón Atli Játvarðarson skrifar: „Það að vera „neðanmálsskáld“ er víst hvorki verra eða betra en að vera „skúffuskáld“. Þessi kom upp neðanmáls, við heita umræðu um dulnefni á Boðnarmiði. Vissara að láta hana inn sem færslu“:

Á sér falið eiginnafn,

andagift í múffu.

Enginn lækar ljóðasafn

sem liggur oní skúffu.

Indriði á Skjaldfönn skrifar um „Ódáðanefnd“: Nú hefur Óbyggðanefnd í nafni bananalýðveldisins okkar gert kröfu til 20 ferkílómetra af Skjaldfannarlandi“:

Þjóðlendnanna þjófalið

þvælist um á fjöllum.

Bændur ekki fá nú frið

fyrir þessum köllum.

Jón Atli bætir við:

Þjóðlendur opnast, bjartara og betra,

blómlegt í fjallasal.

Það sem er ofan við þrjúhundruð metra

þjóðinni ánafna skal.

Enn yrkir Jón Atli og segir: „Veiran sem Þórólfur má ekki nefna, þrátt fyrir að þetta sé nánast eini stofninn sem angrar okkur í dag“:

Óx loks í sporti, var bitur og bæld,

á börum þá hart var í ári.

Veiran sú „franska“ í kóki er kæld

og kyngt með brennivínstári.

Hallmundur Kristinsson spyr:

Kollvarpa heiminum kórónuherir.

Komin er riða í fé.

Aldrei að vita hvað almættið gerir.

Er ekki að koma hlé?

Hólmfríður Bjartmarsdóttir fylgist með pólitíkinni fyrir vestan:

Orðaflóð endalaus runnu

uppúr karlskari þunnu.

Þeir kalla hann Trump

Ég kalla hann Strump.

Hæst bylur í tómri tunnu.

Hólmfríður rifjar upp, að einhvern tíma orti hún þetta um vín:

Af því gleðin alltaf vex

í ölvímu, ég þori.

að yrkja um karla, öl og sex

eins og fugl að vori.

Látum aldrei sorg og sút

setjast að í geði

Drekkum út úr einum kút

og yrkjum svo um gleði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is