Mótmæli Reiðir mótmælendur í Pakistan kveiktu í mynd af Macron.
Mótmæli Reiðir mótmælendur í Pakistan kveiktu í mynd af Macron. — AFP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, kallaði í gær eftir því að Tyrkir myndu sniðganga allar vörur frá Frakklandi, en Erdogan og Emmanuel Macron Frakklandsforseti elda nú grátt silfur saman vegna ummæla hins síðarnefnda um íslamista og réttinn til...

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, kallaði í gær eftir því að Tyrkir myndu sniðganga allar vörur frá Frakklandi, en Erdogan og Emmanuel Macron Frakklandsforseti elda nú grátt silfur saman vegna ummæla hins síðarnefnda um íslamista og réttinn til þess að birta skopmyndir af Múhameð spámanni fyrir helgi.

Sagði Macron að málfrelsinu yrði ekki fórnað, og að íslamistar vildu ráða framtíð Frakka. Hét hann því um leið að Frakkar myndu skera upp herör gegn íslömskum öfgamönnum eftir að sögukennarinn Samuel Paty var afhöfðaður fyrr í október fyrir að hafa sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhameð.

Kölluðu sendiherrann heim

Ummæli Macrons hafa valdið óánægju meðal múslima víða um heiminn, og sagði Erdogan á laugardaginn í sjónvarpsræðu að Macron ætti að láta rannsaka geðheilsu sína. Frönsk stjórnvöld kölluðu sendiherra sinn heim frá Ankara samdægurs vegna ummæla Erdogans, sem brást við með því að endurtaka þau á sunnudeginum.

Macron fékk í gær stuðningsyfirlýsingar frá nokkrum þjóðarleiðtogum í Evrópu. Angela Merkel Þýskalandskanslari fordæmdi ummæli Erdogans og sagði þau bæði ærumeiðandi og óviðunandi í ljósi morðsins á Paty. Þá hafa forsætisráðherra Hollands, Grikklands og Ítalíu einnig lýst yfir stuðningi við Macron, sem og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Erdogan svaraði í gær með því að lýsa því yfir að múslimar í Evrópu væru nú í sömu stöðu og gyðingar í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar.