Leikjahæst Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er á leið til Grikklands.
Leikjahæst Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er á leið til Grikklands. — Morgunblaðið/Eggert
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfuknattleik, tilkynnti í gær hvaða leikmenn fara til Grikklands og leika þrjá leiki á Krít. Þar mun Ísland mæta Slóveníu, Búlgaríu og Grikklandi í undankeppni...

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfuknattleik, tilkynnti í gær hvaða leikmenn fara til Grikklands og leika þrjá leiki á Krít. Þar mun Ísland mæta Slóveníu, Búlgaríu og Grikklandi í undankeppni EM. Vegna kórónuveirunnar er þessi leið farin en keppni í riðlinum hófst síðasta vetur.

„Þetta verður öðruvísi en maður á að venjast. Við höfum oft treyst á að stela einum og einum sigri á heimavelli en nú verða allir leikirnir ytra. Við þurfum að treysta á góða stemningu í hópnum og ná henni upp til að vega upp á móti öðru. Við munum mæta sterkum þjóðum og leikirnir verða mjög erfiðir. Það gæti orðið áhugavert að prófa eitthvað nýtt en þetta verður alla vega frábrugðið því sem maður hefur áður kynnst,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, leikjahæsta landsliðskonan í hópnum, þegar Morgunblaðið ræddi við hana í gær.

„Við förum í tvær sýnatökur áður en við förum út og verðum í hálfgerðri sóttkví þarna úti. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta verður en við verðum alla vega í sérherbergjum og þurfum auðvitað að passa upp á tveggja metra regluna og þess háttar. Guðbjörg Norðfjörð [varaformaður KKÍ] sér um þessa hlið og mun pottþétt passa vel upp á þetta allt saman.“

Taka þarf vel á því á Krít

Ísland tapaði fyrir Búlgaríu á heimavelli í fyrra en búlgarska liðið er nær því íslenska í vetur en Grikkland og Slóvenía sem eru hærra skrifuð.

„Við mættum Búlgaríu hér heima og getum farið aðeins yfir þann leik og séð hvað við getum gert betur. Þurfum að vera duglegar að fara yfir þessi lið á myndbandi. Ég hef mikla trú á þjálfarateyminu því þar eru mjög hæfir einstaklingar. Ég býst við því að þjálfararnir gefi okkur góð fyrirmæli og bendi á veikleika og styrkleika sem hægt sé að vinna með. Við þurfum að finna einhverja veikleika hjá þessum andstæðingum sem möguleiki er að nýta sér og ég hef fulla trú á að það geti skilað sigri,“ sagði Sigrún en gerir sér jafnframt grein fyrir að verkefnið verði mjög erfitt við þær aðstæður sem nú eru. Leikmenn sem ekki eru í leikæfingu eru á leið í landsleiki og sumir hafa ekki getað verið á hefðbundnum körfuboltaæfingum.

„Þetta verður áskorun fyrir okkur og leikirnir verða erfiðir. Það hafa ekki allar fengið að spila eða verið í körfubolta að undanförnu út af veirunni. Það er heldur ekki eins og komið hafi verið langt inn í tímabilið þegar leikjunum var frestað. Leikmenn sem eru úti á landi hafa geta æft og það er jákvætt fyrir þær en leikmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki getað æft. Það er því spurning hvernig undirbúningurinn hjá liðinu kemur út. Við munum æfa vel úti og reynum að slípa okkur vel saman. Fyrstu æfingar liðsins verða úti og undirbúningurinn mun gera verkefnið erfiðara en ella. Í þokkabót er langt síðan síðustu landsleikir voru og margir leikmenn hættir sem verið hafa í landsliðinu. En það opnar tækifæri fyrir aðra.“

Kynslóðaskipti í landsliðinu

Reyndir leikmenn hafa farið út úr landsliðinu á síðustu árum eins og systurnar Gunnhildur og Berglind Gunnarsdætur. Helena Sverrisdóttir og Sigrún eru eftir af eldri leikmönnum og fylgja liðinu í gegnum kynslóðaskiptin en nú nýtur Helenu ekki við þar sem hún ber barn undir belti.

„Auðvitað er stórmál að missa Helenu. Hún gerir rosalega margt á vellinum og hjálpar liðinu mikið. Liðið er frekar ungt á heildina litið. Aftur á móti held ég að þetta sé tækifæri fyrir aðra leikmenn til að láta meira að sér kveða og vinna þá vinnu sem Helena hefur skilað. Nú er tækifæri fyrir unga leikmenn til að sanna sig. Liðið er ungt en margar af þessum stelpum eru efnilegir leikmenn. Ég held því að það séu jákvæðir tímar fram undan þegar landsliðið slípast til.“

Hópurinn sem fer til Krítar

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Skallagrími, framherji 1988 53

Hildur Björg Kjartansdóttir, Val, framherji 199432

Hallveig Jónsdóttir, Val, bakvörður 199521

Guðbjörg Sverrisdóttir, Val, bakvörður 199220

Sara Rún Hinriksdóttir, Leicester Riders, framherji 199619

Þóra Kristín Jónsdóttir, Haukum, bakvörður 199717

Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Val, bakvörður 19994

Isabella Ósk Sigurðardóttir, Breiðabliki, miðherji 19974

Bríet Sif Hinriksdóttir, Haukum, bakvörður 19962

Lovísa Björt Henningsdóttir, Haukum, framherji 19952

Eva Margrét Kristjánsdóttir, Haukum, framherji 19970

Katla Rún Garðarsdóttir, Keflavík, bakvörður 19990

Anna Ingunn Svansdóttir, Keflavík, bakvörður 20010