Haukur Ágústsson
Haukur Ágústsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hauk Ágústsson: "Upphaf íslams. Múhameð, Mekka."

Fyrir nokkru kom fram í grein í Morgunblaðinu (13.10.), að ástæða væri til þess að upplýsa menn um eðli ýmissa trúarhópa, sem nú á tímum er að finna hér á landi. Reynslan sýnir, að á Vesturlöndum, ekki síst á meðal ýmissa stjórnmálamanna og álitsgjafa, er vitneskja um til að mynda íslam (merking orðsins er undirgefni), upphaf þess og þróun harla lítil. Þrátt fyrir það eru settar fram fullyrðingar, sem teknar eru gildar einkum vegna þess að þær ganga af munni „virtra“ aðila, sem ættu að vita, hvað þeir tala um.

Byrjunarferill Múhameðs

Samkvæmt viðtekinni hefð, er Múhameð talinn hafa fæðst í Mekku á vestanverðum Arabíuskaganum í kringum árið 570. Faðir hans er sagður hafa dáið um sex mánuðum áður en Múhameð fæddist og móðir hans dó þegar hann var sex ára. Afi hans tók hann þá að sér og að afanum látnum tók frændi hans við uppeldinu. Ættbálkur Múhameðs var í metum í Mekku, en þó er talið víst, að hann hafi hvorki verið læs né skrifandi ævi sína alla.

Ungur að aldri fór Múhameð með frænda sínum í verslunarferðir. Í þessum ferðum aflaði hann sér þekkingar, sem hann geymdi í minni sínu. Bæði var um að ræða viðskiptaatriði, en ekki síður ýmislegt varðandi trúmál, enda hafði hann kynni af bæði kristnum mönnum og gyðingum á ferðum sínum. Þessa sér reyndar greinilega stað í því, sem fram kom síðar í kenningum Múhameðs.

Ef marka má hefðina stundaði Múhameð bænalíf af einlægni og dvaldi við þá iðju í helli skammt frá Mekku drjúgan tíma á ári hverju. Hefðin greinir frá því að í kringum árið 610 hafi hann tekið að fá vitranir, þar sem erkiengillinn Gabríel bauð honum að leggja á minnið vers, sem áttu að verða hluti af Kóraninum, en múslimar trúa því, að hann sé í heild sinni á himnum í vörslu Allahs. Framan af var Múhameð smeykur við þessar vitranir og hlé varð á þeim um nokkurn tíma. Kona hans, Khadaija, sem var allstórtæk í viðskiptum og mun eldri honum, taldi hins vegar í hann kjark og er vitranirnar hófust aftur tók Múhameð að líta á þær sem boðskap kominn beint frá Allah.

Múhameð tekur að boða siðbót

Á þessum tíma bjuggu á Arabíuskaganum margir ættbálkar Araba, sem bárust iðulega á banaspjót. Einnig höfðu þeir margir hverjir sína sérguði. Þeir áttu sér þó einn sameiginlegan stað öðrum helgari, en hann var í Mekku, þar sem varðveittur var „svarti steinninn“; væntanlega loftsteinn, sem múhameðstrúarmenn telja að Allah hafi sent Adam og Evu af himni ofan sem altari. Í þessum helgidómi var að finna myndir og helgitákn hinna ýmsu guða auk svarta steinsins, en á honum var mest helgi og er hann felldur inn í Kaaba, sem er forn bygging í miðri stór-moskunni í Mekku, en hún er höfuðhelgidómur íslams.

Þegar vitranirnar með milligöngu Gabríels hófust á ný, fylgdi þeim boð um það, að prédika skyldi trú á einn guð, Allah, og líka það, að allir aðrir guðir Araba væru hjóm eitt. Þetta verk átti Múhameð að vinna í hlutverki spámanns – hins síðasta í röðinni, en á undan honum höfðu komið spámenn gyðinga og þar með talinn Kristur Jesús, sem er talinn næstur að verðleikum við Múhameð. Í þessu, og reyndar mun fleiru, má sjá rætur kenninga Múhameðs, en þær liggja að stórum hluta í þeim brotum úr gyðinglegum og kristnum fræðum, sem hann aflaði sér í verslunarferðum sínum.

Boðun Múhameðs var ekki vel tekið á meðal íbúa Mekku. Hann var hæddur og honum var ógnað og þá líka þeim, sem gengu undir boðun hans. Hin fyrsta, sem sagt er að hafi gengið honum á hönd, var eiginkona hans, Khadaija, en fleiri bættust í hópinn. Hann er þó ekki talinn hafa verið meira en svo sem 150-200 manns. Þessir fylgismenn urðu fyrir miklu aðkasti ekki síst vegna þess, að þeir veittust, í samræmi við boðun Múhameðs, að fjölgyðisdýrkuninni, en af henni höfðu íbúar Mekku drjúgar tekjur vegna ferða manna víða að af Arabíuskaganum til helgidómsins Kaaba. Afleiðing aðkastsins varð sú, að töluverður hópur trúfélaganna flúði yfir til Eþíópíu og dvaldi þar í skjóli kristinna yfirvalda.

Á þessu upphafstímabili boðunar Múhameðs í Mekku einkenndist boðun hans, auk baráttu gegn fjölgyðisdýrkun, af áherslu á einn guð, Allah, bænahald, friðsemd og hófsemi, eins og fram kemur í hinum svokölluðu Mekku-súrrum Kóransins, svo sem þeirri (2.256), sem þeir, sem telja íslam friðartrú, halda mjög á lofti, en þar segir í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: „Engum skal þröngvað til trúar. Hin rétta leið hefur verið greind frá villu. Sá sem afneitar hjátrú og setur traust sitt á Allah, hefur fundið þá handfestu sem aldrei mun bresta. Allah heyrir allt og veit allt.“

Fyrstu fimm orðin eru þau, sem haldið er fram, en framhaldinu sleppt. Þessi orð og önnur setningin (skáletrað) eru reyndar á meðal þess, sem hefur verið „fellt úr gildi“ (gert ógilt, abrogated) í Kóraninum vegna síðari vitrana og er því ekki marktækt. Auk þess kom verulega annað hljóð í strokkinn, þegar kom að því, að Múhameð hvarf frá Mekku og settist að í Yathrip, sem nú heitir Medína, eða „Uppfrædda borgin“, en þar breytti hann mjög um stíl.

Höfundur er fyrrverandi kennari.

Höf.: Hauk Ágústsson