Vörn Bogi Nils segir félagið geta staðið langvarandi storm af sér.
Vörn Bogi Nils segir félagið geta staðið langvarandi storm af sér. — Morgunblaðið/Eggert
Hagnaður Icelandair Group á þriðja fjórðungi ársins nam 38,2 milljónum dollara, jafnvirði 5,2 milljarða króna. Félagið hagnaðist um 61,5 milljónir dollara yfir sama tímabil í fyrra. Umsvif félagsins eru hins vegar margfalt minni.

Hagnaður Icelandair Group á þriðja fjórðungi ársins nam 38,2 milljónum dollara, jafnvirði 5,2 milljarða króna. Félagið hagnaðist um 61,5 milljónir dollara yfir sama tímabil í fyrra. Umsvif félagsins eru hins vegar margfalt minni. Tekjur af farþegaflutningum nema 56 milljónum dollara, jafnvirði 7,9 milljarða, samanborið við tæpar 228 milljónir dollara yfir sama tímabil í fyrra. Heildartekjur af starfseminni námu hins vegar 103,6 milljónum dollara, jafnvirði 14,1 milljarðs króna og drógust saman um 81% frá síðasta ári. Fraktflutningar jukust um 16% á tímabilinu.

Í tilkynningu frá félaginu segir að eignfærsla tekjuskatts og endurflokkun eldsneytisvarna, sem urðu virkar eftir endursamninga við mótaðila, hafi haft jákvæð áhrif sem nam 38,2 milljónum dollara eða samsvarandi öllum hagnaði tímabilsins.

Eignir félagsins eru metnar á 1.138 milljónir dollara, jafnvirði tæplega 160 milljarða króna, í lok fórðungsins. Höfðu þær lækkað um 32% frá áramótum. Skuldir stóðu í 845 milljónum dollara, jafnvirði 118,5 milljarða króna. Höfðu þær lækkað um 29,3% frá áramótum.

Eigið fé félagsins stóð í 293 milljónum dollara, jafnvirði 41 milljarðs króna, í lok fjórðungsins og hækkaði úr 118,4 milljónum dollara, jafnvirði 16,6 milljarða króna, frá lokum annars ársfjórðungs. Hækkunina milli fjórðunga má rekja til vel heppnaðs hlutafjárútboðs í september þar sem félagið safnaði 23 milljörðum króna frá núverandi og nýjum hluthöfum. Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra þess, að tekist hafi að draga úr tekjutapi félagsins á fjórðungnum. Enn verði gert ráð fyrir lágmarksumsvifum næstu vikurnar en félagið geti staðið af sér „lágmarksframleiðslu“ fram á árið 2022 ef í harðbakkann slær.

Uppsafnað tap félagsins á árinu er 292,9 milljónir dollara, jafnvirði 41 milljarðs króna.